Fréttir - 

03. Apríl 2009

Vel heppnað stefnumót

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vel heppnað stefnumót

Yfir 2500 þátttakendur mættu á Stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (European Business Summit) sem fram fór í liðinni viku í Brussel. Þeirra á meðal voru 13 af 27 fulltrúum í framkvæmdastjórn ESB, José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB og Abbdullah Gul forseti Tyrklands. Stefnumótið hefur fest sig í sessi en árlega koma þar saman þátttakendur úr öllum mögulegum áttum - stjórnendur stórra sem smárra fyrirtækja, forstöðumenn alþjóðastofnana, háskólafólk, stjórnmálamenn, álitsgjafar og fulltrúar margs konar samtaka og þrýstihópa. Efnahagsmál, mannauðsmál og umhverfismál voru í forgrunni þetta árið.

Yfir 2500 þátttakendur mættu á Stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (European Business Summit) sem fram fór í liðinni viku í Brussel. Þeirra á meðal voru 13 af 27 fulltrúum í framkvæmdastjórn ESB, José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB og Abbdullah Gul forseti Tyrklands. Stefnumótið hefur fest sig í sessi en árlega koma þar saman þátttakendur úr öllum mögulegum áttum - stjórnendur stórra sem smárra fyrirtækja, forstöðumenn alþjóðastofnana, háskólafólk, stjórnmálamenn, álitsgjafar og fulltrúar margs konar samtaka og þrýstihópa. Efnahagsmál, mannauðsmál og umhverfismál voru í forgrunni þetta árið.

Búið í haginn fyrir betri tíð
Yfirskrift European Business Summit 2009 (EBS) var Dare & Care en það eru Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) sem standa að viðburðinum með stuðningi framkvæmdastjórnar ESB.  Meginskilaboð ráðstefnuhaldara voru þau að við þær aðstæður sem nú eru uppi verði fyrirtæki að huga vel að rekstri sínum og hugsa vel um starfsfólkið sitt. Þegar kreppan verði loks yfirstaðin þurfi fólk og fyrirtæki að sýna bæði dugnað og þor til að hægt sé að leggja grunn að framtíðarvelmegun.

Varað við einangrunarhyggju, höftum og verndarstefnu
Á EBS var ítrekað varað við því að vaxandi tilhneigingar gætti meðal þjóða heims til að reisa um sig múra og einangra sig. Það væri hins vegar ekki leiðin til farsældar, frjáls viðskipti og alþjóðleg verslun hafi fært þjóðum heims góð lífskjör. Prófessor Bhagwati við Columbia háskóla sagði að einangrunarhyggja margra þjóða væri jafnvel farin að fá á sig blæ útlendingahaturs en það væri skammsýni að halda að hægt væri að tryggja fleiri störf heimafyrir með því að versla einungis við innlend fyrirtæki. Störfum fækki ef alþjóðaverslun dragist saman.

Forstjóri WTO, Pascal Lamy, sagði að 2/3 þjóða heims væru í kreppu um þessar mundir en vöxtur væri enn hjá 1/3. Sá þriðjungur væri þó algjörlega háður alþjóðaviðskiptum og því morgunljóst hvað muni gerast verði aukin höft innleidd í heimsbúskapnum  = allir í kreppu! "Protectionism is the wrong way to protect" sagði Lamy.

 

Belgía: Yes We Can!
Það er greinilegt að Obama forseti Bandaríkjanna er mörgum hugleikinn um þessar mundir en forsætisráðherra Belgíu, Herman Van Rompuy,  vísaði til hans í sínu ávarpi og sagði með nokkuð meiri hógværð en Obama Yes We Can! sem svar við eigin vangaveltum um hvort Evrópa gæti hrist kreppuna af sér.

Fjármálaráðherra Belgíu steig jafnframt á stokk og ræddi um það mikla umrót sem er að baki. Hann sagði engan hafa séð kreppuna fyrir en líkt og á Íslandi þurftu belgísk stjórnvöld að horfast í augu við það á föstudegi að stór fjármálafyrirtæki gætu ekki opnað á mánudegi.  Fjármálaráðherrann undirstrikaði að ef Belgía hefði ekki haft evru sem gjaldmiðil hefði þeirra beðið efnahagshrun. 

  Mistök áttu sér stað - breytt fjármálaþjónusta
Fyrirtæki í Evrópu eiga um þessar mundir í miklum erfiðleikum með að fjármagna rekstur sinn en bankakerfið er mjög þungt í vöfum eftir allt sem á undan er gengið. Gunter Verheugen, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, notaði tækifærið í umræðum á EBS og spurði Papademos, varaformann stjórnar Evrópska seðlabankans,  að því hvernig stæði á því að þrátt fyrir alla þá fjármuni sem búið væri að dæla í evrópska banka þá væri varla hægt að fá lán á kjörum sem atvinnulífið gæti staðið undir. Jafnvel stór vel rekin fyrirtæki hefðu ekki aðgang að fjármagni og hefðu sem eina kost að leita á náðir Evrópska fjárfestingarbankans.  

Gunter var harðorður um fjármálakerfið og sagði stjórnmálamenn og stjórnkerfið hafa brugðist og skort hugrekki til að takast á við vandann. Stór mistök hafi verið gerð með því að leyfa fjármálakerfinu að þenjast út með það eitt að markmiði að næra sjálft sig í stað þess að tryggja að það gæti veitt fólki og fyrirtækjum góða þjónustu. Sagðist hann sjá fyrir breytta fjármálaþjónustu.

Nýsköpun og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja
2009 er tileinkað skapandi hugsun og nýsköpun innan ESB. Umræður um þessi mál voru fyrirferðarmikil en lögð var fram skýrsla INSEAD um samkeppnishæfni Evrópu  og til hvaða ráða þurfi að grípa til að búa í haginn fyrir framtíðina. Fulltrúi skólans var bjartsýnn á framtíðina og sagði að rétt væri að halda því til haga að sennilega hafi mannkynið aldrei haft önnur eins tæki og tól til að kljást við kreppu eins og einmitt nú. Þátttakandi í umræðum um nýsköpun sagði það ríkt í eðli Evrópubúa að telja upp allt sem þær gætu ekki gert í stað þess að horfa á það sem þeir geti gert - sem sé nauðsynlegt um þessar mundir.

Mikið var rætt um að tryggja rekstrarskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja (SME's) en þau eru skilgreind sem fyrirtæki með 200 starfsmenn eða færri. Þau séu lykillinn að þróttmiklu atvinnulífi.

Tyrkneskt kaffi

Einn af viðburðum EBS var Tyrkneskt kaffiboð en þar viðruðu Tyrkir fjölmargar ástæður þess að þeir ættu heima í ESB. Í umræðum tóku þátt formaður tyrkneskara atvinnurekenda, Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, innanríkisráðherra Tyrkja og forstjóri TURKCELL, Süreyya Ciliv, sem er eina tyrkneska fyrirtækið á hlutabréfamarkaðnum í New York en hjá því starfa um 50 þúsund manns. Erlend fjárfesting hefur stóraukist í Tyrklandi undanfarin 15 ár og stórfyrirtæki eru farin að opna skrifstofur í Istanbul í auknum mæli, jafnvel flytja höfuðstöðvar sínar þangað.

Aðild Tyrklands að ESB er bæði Tyrklandi og ESB í hag sögðu Tyrkirnir og bentu á að það yrði mun auðveldara að leysa flest vandamál ESB ef þeir gengju inn, s.s. á sviði orku- og loftslagsmála. Gömlu Evrópu veitti ekki af því að fá inn duglega og unga þjóð sem vílaði það ekki fyrir sér að vinna.

Forsetaspjall hápunktur EBS ásamt ávarpi forseta Tyrklands
Fjölsóttasti viðburðurinn á EBS var svokallað forsetaspjall en þar leiddu saman hesta sína Barroso og Seillíeré fráfarandi  forseti BUSINESSEUROPE. Forsætisráðherra Tékklands átti ekki heimangengt þar sem stjórn hans var nýfallin. Í stað hans kom fulltrúi hans , Alexandr Vondra aðstoðarforsætisráðherra. Seillíeré lagði í máli sínu áherslu á greiðari aðgang atvinnulífsins að fjármagni, að störf fólks verði varin eins og kostur er og að virkni innri markaðarins verði tryggð.

Barroso rakti fjáraustur til landa ESB og IMF vegna kreppunnar en hann sagði að bíða þyrfti og sjá árangurinn af því áður en haldið yrði áfram á sömu braut.

Sjá nánar á vef EBS:

Upptökur frá ráðstefnunni

Samantekt úr umræðum

European Business Summit árið 2010 mun fara fram 30. júní til 1. júlí en þá tekur Belgía við forsætinu í ESB.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eiga aðild að BUSINESSEUROPE

Samtök atvinnulífsins