Efnahagsmál - 

30. nóvember 2020

Veirusýktar hagtölur

Greining

Greining

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Veirusýktar hagtölur

Hagstofan gaf í morgun út tölur um landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi, sem gefa til kynna að hagvöxtur hafi verið neikvæður um 10,4% prósent á fjórðungnum. Þessar tölur setja Ísland í flokk með þeim löndum sem einna verst hafa farið út úr heimsfaraldrinum á efnahagslegan mælikvarða. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins er talið að landsframleiðslan hafi dregist saman um ríflega 8%, en nýjasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 8,5% samdrætti á árinu öllu og þyrfti samdráttur á fjórða ársfjórðungi því að mælast nær 12% til að sú spá gangi eftir. Miðað við útflutningshorfur á seinasta fjórðungi ársins er slík niðurstaða hins vegar ekki óhugsandi.

Hagstofan gaf í morgun út tölur um landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi, sem gefa til kynna að hagvöxtur hafi verið neikvæður um 10,4% prósent á fjórðungnum. Þessar tölur setja Ísland í flokk með þeim löndum sem einna verst hafa farið út úr heimsfaraldrinum á efnahagslegan mælikvarða. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins er talið að landsframleiðslan hafi dregist saman um ríflega 8%, en nýjasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 8,5% samdrætti á árinu öllu og þyrfti samdráttur á fjórða ársfjórðungi því að mælast nær 12% til að sú spá gangi eftir. Miðað við útflutningshorfur á seinasta fjórðungi ársins er slík niðurstaða hins vegar ekki óhugsandi.

Neikvæð áhrif kórónuveiru faraldursins á landsframleiðslu koma fram af mestum krafti í tölum um útflutning, enda vægi ferðaþjónustu mikið í landsframleiðslu hér á landi. Skýrist samdráttur í landsframleiðslu á þriðja fjórðungi fyrst og fremst af 39% samdrætti í útflutningi en þar vegur þyngst að útflutt ferðaþjónusta dróst saman um 77% á tímabilinu. Áhrif minni ferðavilja og harðra sóttvarnaraðgerða á landamærum eru því skýr en erlendum ferðamönnum fækkaði um nær 550 þúsund á milli ára á fjórðungnum, úr 667 þúsundum í 120 þúsund. Til samanburðar mældist samdráttur í útflutningi mest 12% á einum ársfjórðungi í kjölfar bankahrunsins, en þá studdi veiking á gengi krónunnar við útflutningsgreinarnar.  

Ójafnvægi á íbúðamarkaði í kortunum? 

Fjárfesting dróst saman um ríflega 15% á þriðja fjórðungi, þar af dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 22%. Þó dróst íbúðafjárfesting minna saman en gera hefði mátt ráð fyrir (-7%) og mældist raunar veruleg aukning í fjölda fullgerðra íbúða. 

Aukin eftirspurn hefur verið á íbúðamarkaði að undanförnu og hafa vaxtalækkanir Seðlabankans án efa haft sitt að segja. Þó ber að nefna að samdráttur mælist í útgáfu nýrra byggingarleyfa og að samkvæmt talningu SI mælist einnig talsverður samdráttur í fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum, sem bendir til þess að draga muni úr aukningu í fjölda nýrra íbúða á næstu árum. Ef eftirspurn á íbúðamarkaði helst sterk á sama tíma og fjöldi fullkláraðra íbúða dregst saman má vænta frekari verðhækkana á íbúðamarkaði.  

Ef koma á í veg fyrir ójafnvægi á íbúðamarkaði, líkt því sem myndaðist í kjölfar bankahrunsins, er brýnt að bæta úr þeim þáttum sem hamla fjölgun íbúða. Þó vaxtalækkanir Seðlabankans hafi skilað sér vel inn í eftirspurnarhlið íbúðamarkaðarins þurfa bætt fjármögnunarkjör einnig að skila sér til framkvæmdaraðila til að aukinn þróttur fáist í byggingu nýrra íbúða. Þá hafa framkvæmdaraðilar einnig bent á að skortur sé á lóðaframboði og að til einföldunar þurfi að koma í framkvæmdaferlinu, svo sem hvað varðar byggingareglugerð og leyfisveitingar. 

Sóttvarnaraðgerðir setja svip sinn á jólavertíð 

Þrátt fyrir neyslugleði Íslendinga innanlands í sumar og aukningu í innlendri kortaveltu mældist ríflega 2% samdráttur í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi. Horfur fyrir fjórða ársfjórðung eru jafnvel enn daprari hvað einkaneyslu varðar. Verulegar hömlur hafa verið á atvinnustarfsemi vegna sóttvarnaraðgerða og með núgildandi fjöldatakmörkunum í verslunum og á veitingastöðum má gera ráð fyrir að aðsókn á þessa staði verði með dræmara móti þessi jólin.  

Mikil aukning hefur verið í netverslun á árinu vegna samkomutakmarkana en óljóst er að hve miklu leyti Íslendingar muni sinna jólainnkaupum sínum í erlendum netverslunum, sem myndi þá að líkindum auka frekar neikvætt framlag utanríkisviðskipta, eða í verslunum innanlands.  

Brýnt að skýra aðgerðaáætlun sóttvarna 

Tölur Hagstofunnar sýna glögglega neikvæð áhrif faraldursins á einkaneyslu, fjárfestingu og utanríkisviðskipti. Mikilvægt er að stjórnvöld veiti skýrari sýn hvað varðar sóttvarnaraðgerðir næstu misserin svo hægt sé að takmarka frekara efnahagslegt tjón eins og kostur er. Hagvaxtartölur næsta árs velta að miklu leyti á viðspyrnu í útflutningi og er breytt fyrirkomulag á landamærum ein forsenda þess að til viðsnúnings komi. Eins og tölur um landsframleiðslu bera með sér er mikið í húfi. 

Samtök atvinnulífsins