Efnahagsmál - 

18. desember 2006

Veikindafjarvistir og starfsmannavelta 2002-2005

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Veikindafjarvistir og starfsmannavelta 2002-2005

Meðal veikleika í tölfræðilegum upplýsingum um vinnumarkað hér á landi hefur verið skortur á upplýsingum um veikindafjarvistir og starfsmannaveltu. Ráðgjafarfyrirtækið ParX hefur um nokkurra ára skeið boðið fyrirtækjum þjónustu á sviði mannauðsráðgjafar og í tengslum við það safnað upplýsingum um veikindafjarvistir og starfsmannaveltu frá þeim. Skráðar hafa verið upplýsingar frá það miklum fjölda fyrirtækja að gagnasafn ParX gefur færi á því að útbúa staðtölur sem endurspeglað geta atvinnulífið í heild. Samtök atvinnulífsins og ParX hafa nú hafið samstarf um úrvinnslu og birtingu heildarniðurstaðna úr gagnasafni ParX. Öll úrvinnsla fer fram hjá ParX og engar upplýsingar fara frá fyrirtækinu nema þær niðurstöður sem hér birtast.

Meðal veikleika í tölfræðilegum upplýsingum um vinnumarkað hér á landi hefur verið skortur á upplýsingum um veikindafjarvistir og starfsmannaveltu. Ráðgjafarfyrirtækið ParX hefur um nokkurra ára skeið boðið fyrirtækjum þjónustu á sviði mannauðsráðgjafar og í tengslum við það safnað upplýsingum um veikindafjarvistir og starfsmannaveltu frá þeim. Skráðar hafa verið upplýsingar frá það miklum fjölda fyrirtækja að gagnasafn ParX gefur færi á því að útbúa staðtölur sem endurspeglað geta atvinnulífið í heild. Samtök atvinnulífsins og ParX hafa nú hafið samstarf um úrvinnslu og birtingu heildarniðurstaðna úr gagnasafni ParX. Öll úrvinnsla fer fram hjá ParX og engar upplýsingar fara frá fyrirtækinu nema þær niðurstöður sem hér birtast.

Gagnasafnið

Í gagnasafni ParX um veikindafjarvistir og starfsmannaveltu eru upplýsingar frá 110 þátttakendum sem ná til rúmlega 50 þúsund starfsmanna. Starfandi menn voru voru 161 þúsund á árinu 2006 skv. vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar þannig að gagnasafnið nær til 31% starfsmanna á vinnumarkaðnum. Þessi mikli fjöldi þátttakenda í könnuninni gefur sterkar vísbendingar um stöðu þessara mála þótt úrtakið sé ekki valið með tilviljanakenndum hætti, þar sem þátttaka í könnuninni er að frumkvæði fyrirtækjanna sjálfra.

Veikindafjarvistir

Meðalfjöldi fjarvistadaga, bæði vegna eigin veikinda og slysa og fjölskyldumeðlima á hvern starfsmann var 9,8 árið 2005 og fjölgaði um 1,5 dag frá árinu áður. Mestar urðu fjarvistirnar árið 2002 en þeim fækkaði síðan bæði árið 2003 og 2004. Fjarvistum er skipt í skammtíma- og langtímafjarvistir eftir lengd og teljast þrír eða færri dagar í senn til skammtímafjarvista og fjórir eða fleiri í senn til langtímafjarvista. Mismunandi þróun kemur fram eftir lengd fjarvista þar sem hlutdeild skammtímafjarvista í heildarfjarvistum hefur vaxið ár frá ári. Aukningu fjarvista á árinu 2005 má að tveimur þriðju hlutum rekja til aukningar skammtímafjarvista.

Veikindahlutfallið, þ.e. hlutfall veikindadaga á ári af vinnudögum ársins, er fundið með því að deila 225 í veikindadagana. Talan 225 er fundin með því að draga 104 laugar- og sunnudaga, 25 orlofsdaga og 11 sérstaka frídaga frá 365 dögum ársins. Samkvæmt þessari aðferð var veikindahlutfallið 4,3% árið 2005 og óx úr 3,7% árið áður. Veikindahlutfallið varð hæst árið 2002 þegar það náði 4,8%.

Veikindafjarvistir eru nokkuð mismunandi eftir atvinnugreinum, eða frá 3,9% til 4,8%. Þá er einnig mikil dreifing fjarvista eftir fyrirtækjum innan atvinngreina og er fjórðungur fyrirtækja með yfir 5% fjarvistir og í sumum atvinnugreinum býr fjórðungur fyrirtækja við meira en 6% fjarvistir. Það er því mikið í húfi að halda fjarvistum sem lægstum. Sem vísbendingu um þann kostnað sem til fellur vegna veikindafjarvista má leggja heildarlaunagreiðslur í landinu árið 2005 til grundvallar, en þær námu 574 milljörðum króna. Út frá því og 4,3% fjarvistum að meðaltali má áætla að veikindalaunagreiðslur hafi numið 25 milljörðum króna á árinu 2005 og að hver prósenta í launuðum fjarvistum hafi numið tæpum 6 milljörðum króna. Í þessum tölum er einungis miðað við launagreiðslur, sem ekkert vinnuframlag stendur að baki, en við kostnaðinn bætist að staðgenglar þeirra sem fjarverandi eru vinna störf þeirra oft í yfirvinnu, auk þess sem afköst minnka og ýmis annar kostnaður bætist við vegna röskunar á starfsemi.

Starfsmannavelta

Starfsmannavelta er skilgreind sem hlutfall starfsmanna sem hættu störfum á árinu, óháð ástæðu, af meðalfjölda starfsmanna. Meðalfjöldi starfsmanna er meðaltal fjölda þeirra í ársbyrjun og árslok. Tímabundnar ráðningar starfsfólks til afleysinga, t.d. sumarstarfsmanna, eru ekki meðtaldar. Niðurstöður sýna að starfsmannaveltan var mikil árið 2002, en árin þar á undan hafði ríkt mikil þensla á vinnumarkaði, en veltan minnkaði verulega árið eftir þegar meira jafnvægi ríkti, eða úr 14,8% í 9,4%. Aukningin var nokkur árið 2004 og síðan kom veruleg aukning árið 2005. Frá árinu 2003 hefur starfsmannaveltan farið vaxandi ár frá ári og nam 14,2% á árinu 2005 sem haldist hefur í hendur við vaxandi þenslu á vinnumarkaði og skort á starfsfólki.

Veikindafjarvistir5

Starfsmannavelta var mjög mismunandi eftir atvinnugreinum árið 2005. Mest var hún í verslun og þjónustu, 18,9%, sem samsvarar því að tæplega fimmti hver starfsmaður hafi hætt störfum í þessum atvinnugreinum. Litlu minni starfsmannavelta var í upplýsinga- og fjarskiptageiranum og samgöngum, 16-17%, en minnsta veltan var í fjármálageiranum og iðnaði, 6-8%. Loks var starfsmannaveltan um 10% hjá hinu opinbera, þ.e. tíundi hver starfsmaður lét af störfum þar á árinu 2005.

Niðurstöður

Samkvæmt gagnasafni ParX, sem nær til tæplega þriðjungs starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, voru starfsmenn fjarverandi í tæplega 10 daga að meðaltali á árinu 2005 vegna veikinda eða slysa. Það nemur 4,3% vinnudaga. Fjarveran skiptist nokkuð jafnt á milli skammtímafjarvista og langtímafjarvista en síðarnefndu fjarvistirnar eru heldur meiri. Fjarvistir jukust mikið á árinu, einkum skammtímafjarvistir.

Náið samband kemur fram á milli starfsmannaveltu og þenslu á vinnumarkaði. Starfsmannavelta var nokkuð mikil á árinu 2005, eða 14,2%, sem samsvarar því að sjöundi hver starfsmaður fyrirtækjanna hafi skipt um starf. Starfsmannaveltan var helmingi meiri en fyrir tveimur til þremur árum þegar tíundi hver starfsmaður skipti um starf. Starfsmannaveltan var mest í verslun og þjónustu en minnst í iðnaði.

Samtök atvinnulífsins