Efnahagsmál - 

10. apríl 2008

Veðrabrigði í kjölfar gríðarlegs hagvaxtar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Veðrabrigði í kjölfar gríðarlegs hagvaxtar

Íslenska hagkerfið hefur stækkað um rúmlega fjórðung á síðustu fjórum árum og um þriðjung frá árinu 2000, sem er tvöfalt meiri vöxtur en í öðrum þróuðum ríkjum og verulega umfram það sem samrýmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Vöxturinn hefur reynt verulega á þanþol hagkerfisins sem einkennst hefur af útþenslu fjármálageirans, vexti stóriðju- og orkufyrirtækja, uppbyggingu íslenskra fyrirtækja erlendis, mikilli einkaneyslu og fjárfestingum í íbúðarhúsnæði, hækkun eignaverðs og verðbólgu, gengissveiflum krónunnar, miklum launahækkunum, skorti á starfsfólki og aðstreymi erlends starfsfólks. Samfara þessu ójafnvægi náði mældur viðskiptahalli áður óþekktum stærðum og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist verulega. Þetta kemur m.a. fram nýrri ársskýrslu SA sem kemur út 18. apríl næstkomandi.

Íslenska hagkerfið hefur stækkað um rúmlega fjórðung á síðustu fjórum árum og um þriðjung frá árinu 2000, sem er tvöfalt meiri vöxtur en í öðrum þróuðum ríkjum og verulega umfram það sem samrýmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Vöxturinn hefur reynt verulega á þanþol hagkerfisins sem einkennst hefur af útþenslu fjármálageirans, vexti stóriðju- og orkufyrirtækja, uppbyggingu íslenskra fyrirtækja erlendis, mikilli einkaneyslu og fjárfestingum í íbúðarhúsnæði, hækkun eignaverðs og verðbólgu, gengissveiflum krónunnar, miklum launahækkunum, skorti á starfsfólki og aðstreymi erlends starfsfólks. Samfara þessu ójafnvægi náði mældur viðskiptahalli áður óþekktum stærðum og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist verulega. Þetta kemur m.a. fram nýrri ársskýrslu SA sem kemur út 18. apríl næstkomandi.

Á árunum 2003-2006 var hagvöxtur drifinn áfram af mikilli aukningu fjárfestingar og einkaneyslu. Á liðnu ári varð hins vegar breyting á þegar fjárfesting dróst saman um 15% en þess í stað var hagvöxtur borinn uppi af um 18% aukningu útflutnings.

Hagvöxtur á Íslandi og að meðaltali í OECD-ríkjunum

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Á síðasta fjórðungi ársins 2007 urðu veðrabrigði og hófst öflugur viðsnúningur sem rót átti í kreppu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, einkum af völdum svokallaðra undirmálslána í Bandaríkjunum. Atburðarásin sem hófst þá hefur haft keðjuverkandi áhrif á aðra markaði og leitt til verulegs verðfalls á hlutabréfamörkuðum, erlendis sem hérlendis, hækkunar á skuldatryggingarálögum íslenskra banka og samdráttar í útlánagetu þeirra. Að auki hefur olíuverð hækkað mikið jafnframt því sem aflakvótar hafa verið skornir niður. Bæði alþjóðlegir og innlendir þættir leggjast því á eitt um að stuðla að hægum vexti íslensks efnahagslífs á komandi misserum. Á þessu ári er ekki útlit fyrir neinn hagvöxt og meiri líkur en minni á því að samdráttar muni gæta vegna minni fjárfestinga og einkaneyslu.

Samtök atvinnulífsins