Efnahagsmál - 

03. Febrúar 2009

Vaxtalækkun verði byggð á framsýni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vaxtalækkun verði byggð á framsýni

Háir vextir eiga alls ekki við í efnahagskreppu eins og þeirri sem Íslendingar ganga í gegnum um þessar mundir. Þeir auka enn á rekstrarvanda fyrirtækja og stuðla að auknu atvinnuleysi. Veruleg vaxtalækkun nú myndi ekki valda því að raunvextir yrðu neikvæðir á næstu mánuðum og því er ekki eftir neinu að bíða. Verðbólgan síðustu 12 mánuði var 18,6% og allt bendir til þess að hún hafi náð hámarki og fari lækkandi á næstu mánuðum. Verðbólgan fær hvorki fóður í formi launahækkana né mikillar eftirspurnar.

Háir vextir eiga alls ekki við í efnahagskreppu eins og þeirri sem Íslendingar ganga í gegnum um þessar mundir. Þeir auka enn á rekstrarvanda fyrirtækja og stuðla að auknu atvinnuleysi. Veruleg vaxtalækkun nú myndi ekki valda því að raunvextir yrðu neikvæðir á næstu mánuðum og því er ekki eftir neinu að bíða. Verðbólgan síðustu 12 mánuði var 18,6% og allt bendir til þess að hún hafi náð hámarki og fari lækkandi á næstu mánuðum. Verðbólgan fær hvorki fóður í formi launahækkana né mikillar eftirspurnar.

Stýrivextir Seðlabankans standa nú í 18% og eru því svipaðir og verðlagshækkun síðustu 12 mánaða. Þegar svonefnd þjóðarsátt var gerð í upphafi síðasta áratugar náðist um það víðtækt samkomulag að byggja vaxtabreytingar á spá um verðbólgu næstu mánaða í stað þess að líta einvörðungu á liðna verðbólgu. Það er orðið löngu tímabært að horfa fram á veginn og lækka vexti.

Á næstu mánuðum má búast við því að mánaðarlegar breytingar vísitölu neysluverðs verði minni en 1% en þá mun enn gæta áhrifa gengislækkunar krónunnar undir lok síðastliðins árs. Þegar gengislækkunin hefur að fullu komið fram í verðlagi eftir örfáa mánuði má búast við því að verðhækkanir verði mjög takmarkaðar og verðlækkanir taki jafnvel við. Hvað verður ofan á fer eftir því hvort gengi krónunnar helst stöðugt eða styrkist frá því sem nú er.

Yfirleitt er fjallað um verðbólguna sem breytingu síðustu 12 mánaða. Það á hins vegar ekki vel við þegar takturinn breytist ört eins og nú og löngu liðnar breytingar hafa meira vægi en efni standa til. Verðbólguspá Seðlabankans, sem birt var 29. janúar síðastliðinn, gerir ráð fyrir því að þriggja mánaða árshraði verðbólgunnar verði 15% á þessum ársfjórðungi, 10% á öðrum ársfjórðungi og að vísitala neysluverðs lækki á þeim þriðja. Sé litið á árshraða verðbólgunnar á sex mánaða tímabili þá verður verðbólgan í kringum 10% á fyrra helmingi ársins og verður komin niður í 3-4% á tímabilinu mars til september.

Rök standa til þess að leggja mat á þróunina framundan þegar fjallað er um raunvaxtastig stýrivaxta Seðlabankans og útlánsvaxta bankanna í stað þess að líta í baksýnisspegilinn og ákvarða vaxtastigið út frá verðhækkunum á síðasta ári. Slík sjónarmið voru t.d. ríkjandi þegar svonefnd þjóðarsátt var gerð í upphafi síðasta áratugar. Þá náðist um það víðtækt samkomulag að byggja vaxtabreytingar á spá um verðbólgu næstu mánaða í stað þess að líta einvörðungu á verðbólgu liðins tíma.

Á þeim tíma féll árshraði þriggja mánaða breytingar vísitölu neysluverðs úr 25% í eins stafs prósentutölu á örfáum mánuðum. Þótt tímarnir séu breyttir og önnur umgjörð sé um peningamálin þá gilda svipuð sjónarmið og þá. Verðbólgan mun hjaðna hratt á næstu mánuðum og ástæða er til þess að vextirnir fylgi þeirri þróun án ónauðsynlegra tafa.

Samtök atvinnulífsins