Vaxtalækkun strax

Miklar umræður hafa nú spunnist um ný jákvæð teikn í efnahagsmálum Íslendinga og hvað megi verða til að ýta undir jákvæða þróun á næstu mánuðum. Sú staða sem við erum í nú er gjörólík þeirri sem við var að glíma fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan og við ákvarðanir um framhaldið er mikilvægast að horfa fram í tímann en ekki aftur á bak. Sérstaklega þarf að hafa í huga að það tekur aðgerðir eins og vaxtalækkun a.m.k. 6 mánuði að hafa veruleg áhrif og jafnvel lengur.

Sú verðbólga sem mælst hefur upp á síðkastið vegna hækkunar innflutningsverðs út af gengisbreytingum er allt annars eðlis en sú eftirspurnarþensla sem við hefur verið að glíma. Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur bent á það í greinum í Viðskiptablaðinu að efnahagslífið sé að skipta um farveg. Aukning sé í útflutningi og fjárfestingu á meðan einkaneysla stendur í stað. Spurningin er í raun hvort vöxtur í því fyrrnefnda getur vegið upp að einhverju leyti samdrátt vegna minnkandi umsetningar og neyslu. Ef það á að verða þarf að hlúa að starfsskilyrðum fyrirtækja. Auk vaxtalækkana er þar einkum horft til áforma ríkisstjórnarinnar um lækkun fyrirtækjaskatta.

Ásgeir hefur jafnframt bent á að miklar sveiflur í neyslu almennings aðgreini Ísland sérstaklega frá öðrum ríkjum. Samtök atvinnulífsins drógu einmitt í efa þegar síðasta þjóðhagsspá var birt, að viðskiptahalli yrði eins mikill og spáð var, vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í einkaneyslu. Lækkun olíuverðs og vaxtalækkanir erlendis munu þar einnig hafa jákvæð áhrif. Enn frekari samdráttur einkaneyslu er líklegur, m.a. vegna minnkandi atvinnu á næstu mánuðum. Sú holskefla erlendrar lántöku sem peningamálastefna síðasta árs leiddi af sér ýtti undir umsetningu sem nú dregur úr. Og mörg fyrirtæki munu þurfa að hagræða og rifa seglin vegna versnandi afkomu.

Samtök atvinnulífsins hafa margítrekað þá skoðun að við þessar aðstæður væri rétt að lækka vexti myndarlega. Styrking krónunnar síðustu daga bendir til að gengisvæntingar séu að breytast og menn telji að botninum sé náð. Vaxtalækkun myndi styðja við þá auknu tiltrú á efnahagslífið og möguleika fyrirtækjanna til að spjara sig. Erfitt er að sjá hvaða eldsneyti verðbólgan á að hafa á næstu mánuðum. Fremur væri ástæða til að óttast að fjárfestingar og aukinn útflutningur muni ekki ná að vega nægilega upp á móti samdrætti í eftirspurn og samdrátturinn gæti því orðið meiri en æskilegt væri. Vaxtalækkun gæti aftur á móti dregið úr þrýstingi kostnaðarhækkana í fyrirtækjum, mildað áhrif gengislækkunar á kjör almennings og stuðlað að ró á vinnumarkaði.

Frekari dráttur á ákvörðun um vaxtalækkun er hins vegar líklegur til að hafa neikvæð áhrif á framvinduna á næstu mánuðum. Vexti á því að lækka strax.