Efnahagsmál - 

30. Mars 2001

Vaxtalækkun fagnað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vaxtalækkun fagnað

Samtök atvinnulífsins fagna ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti og telja að sú ákvörðun hafi verið orðin tímabær, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðar-framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Morgunblaðið. Þá segir hann gengislækkanir undanfarinna daga ekki vera af efnahagslegum ástæðum.

Samtök atvinnulífsins fagna ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti og telja að sú ákvörðun hafi verið orðin tímabær, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðar-framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Morgunblaðið. Þá segir hann gengislækkanir undanfarinna daga ekki vera af efnahagslegum ástæðum.

"0,5% lækkun er varfærnislegt skref og við eigum von á að það verði framhald á þessari þróun. Við teljum að það séu nægjanlegar vísbendingar um að það hafi hægt það mikið á efnahagslífinu  að rétt sé að taka upp vaxtalækkunarferli fram eftir þessu ári. Staðan er sú að vextir hér eru afar háir og það er leitun að þeirri fjárfestingu sem skilar arði við þetta vaxtastig. Við teljum að vaxtalækkanir séu til þess fallnar að auka bjartsýni í efnahagslífinu og það ætti til lengri tíma litið að tryggja undirstöður gengisins.

   Það sem skiptir máli er að ekki hægi of hratt á hagvexti og vaxtalækkanir geta stuðlað að því að þróunin verði jafnari en annars. Vaxtalækkanir gætu stuðlað að væntingum um aukna arðsemi í atvinnulífinu og virkað sem nauðsynleg vítamínsprauta á hlutabréfamarkaðinn," segir Hannes í viðtalinu.

   Loks segir Hannes Samtök atvinnulífsins telja að niðurfelling vikmarka krónunnar hafi verið tímabær. "Það er vissulega hætta á að gengissveiflur verði meiri en fyrir afnám vikmarkanna en við teljum hins vegar að gengislækkanir undanfarna daga séu ekki af efnahagslegum ástæðum. Atvinnulífið hefur ekki kallað eftir frekari gengislækkun heldur þvert á móti vænst stöðugleika á þessu sviði svo verðbólga fari ekki vaxandi," að sögn Hannesar.

Samtök atvinnulífsins