Vaxtahækkun verði dregin til baka

Samtök atvinnulífsins mótmæla harðlega 0,25% vaxtahækkun Seðlabankans og hvetja bankann til þess að draga hana til baka við næstu vaxtaákvörðun. Vaxtahækkunin gengur þvert á viðleitni til þess að auka fjárfestingar og hagvöxt í landinu og gerir það erfiðara að ná niður atvinnuleysi og bæta lífskjör almennings.

Versnandi horfur 2012
Seðlabankinn hækkaði vexti í morgun um 0,25% þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi verið 6,6% í júlí og bankinn spái 7,1% atvinnuleysi á árinu í heild. Samkvæmt spá bankans nú verður atvinnulífið áfram í hægagangi og þrátt fyrir meiri bjartsýni um hagvöxt á þessu ári, eða 2,8% aukningu landsframleiðslu í stað 2,3% í aprílspá, hefur útlitið fyrir árið 2012 versnað mjög að mati bankans. Hann spáir nú aðeins 1,6% vexti landsframleiðslu á næsta ári en gerði ráð fyrir 2,9% vexti í apríl sl. 


Vaxtahækkun viðheldur kreppunni
Vaxtahækkun nú, þegar horft er fram á svo slakar horfur á árinu 2012, er því í senn ótrúleg og óhugguleg og stuðlar að því að viðhalda kreppuástandinu í íslensku atvinnulífi. Rökstuðningur Seðlabankans um nauðsyn vaxtahækkunar á grundvelli aukinnar verðbólgu er afar hæpinn þar sem verðlagshækkanir á fyrri hluta þessa árs eiga sér að stærstum hluta skýringu í þróun verðlags á erlendum mörkuðum, hækkun húsnæðisverðs og slöku gengi íslensku krónunnar.

Hækkun vaxta skaðleg
Vaxtahækkun í því skyni að draga úr eftirspurn og vinna á þann hátt gegn verðbólgu er því beinlínis skaðleg nú þegar brýnasta verkefnið í efnahags- og atvinnumálum er að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og innviðum samfélagsins. Fjárfestingar á Íslandi eru hættulega litlar og ná engan veginn að uppfylla eðlilega endurnýjunarþörf atvinnulífsins og skapa sóknarfæri til framtíðar. Seðlabankinn spáir engum raunverulegum breytingum þar á og það er langt í að fjárfestingarmarkmið kjarasamninga náist.

Aðgangur að lánsfé á eðlilegum kjörum nauðsynlegur
Nú kvarta fjölmörg fyrirtæki undan því að bankar hafi við fjárhagslega endurskipulagningu sniðið þeim þröngan stakk hvað varðar fjárfestingarmöguleika á næstu árum. Fjárfestingargeta atvinnulífsins í heild er því minni en ella og ekki bætir úr skák takmarkaður aðgangur fyrirtækja að erlendu lánsfé vegna gjaldeyrishaftanna sem stjórnað er af Seðlabankanum sjálfum. Því liggur fyrir að aðgangur að innlendu lánsfé á eðlilegum kjörum er lykilatriði til þess að almennar fjárfestingar í atvinnulífinu aukist í þeim mæli sem nauðsynlegt er.

Tengt efni:

Rætt við Vilmund Jósefsson, formann SA, í kvöldfréttum RÚV útvarps

Rætt við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í fréttum Stöðvar 2

Umfjöllun í kvöldfréttum RÚV sjónvarps