Efnahagsmál - 

07. Júlí 2011

Vaxtahækkun skaðar efnahagslífið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vaxtahækkun skaðar efnahagslífið

Undanfarna 5 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,4% eða álíka mikið og 17 mánuði þar á undan. Á sama tíma hefur gengisvísitalan hækkað um 4,3%. Það er því ekki að ástæðulausu að fari fram umræða um hvernig sporna megi við áframhaldandi vexti verðbólgu og verðbólguvæntinga. Að mati SA skiptir mestu að grípa nú þegar til ráðstafana í ríksfjármálum sem tryggi jákvæðan frumjöfnuð á árinu 2011 og að hvatt verði til fjárfestinga á öllum sviðum efnahagsstarfseminnar.

Undanfarna 5 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,4% eða álíka mikið og 17 mánuði þar á undan. Á sama tíma hefur gengisvísitalan hækkað um 4,3%. Það er því ekki að ástæðulausu að fari fram umræða um hvernig sporna megi við áframhaldandi vexti verðbólgu og verðbólguvæntinga. Að mati SA skiptir mestu að grípa nú þegar til ráðstafana í ríksfjármálum sem tryggi jákvæðan frumjöfnuð á árinu 2011 og að hvatt verði til fjárfestinga á öllum sviðum efnahagsstarfseminnar.


Hvað veldur hækkun verðlags?

Í þeirri umræðu sem er framundan þarf að kanna gaumgæfilega þá þætti sem valdið hafa verðhækkunum síðustu mánuði og hvers sé að vænta að óbreyttu á næstu mánuðum áður en gripið er til aðgerða.

Þeir þættir sem hvað mest hafa haft áhrif á hækkun vísitölunnar umliðið ár eru alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð, húsnæði, opinber þjónusta og gengislækkun krónunnar. Af þessu má ráða að verðhækkanir eru ekki vegna aukinnar eftirspurnar í þjóðfélaginu. Hækkun húsnæðisliðarins stafaði einkum af hækkun greiddrar og reiknaðrar húsaleigu, en hluta hennar má rekja til leiðréttingar á vísitölu byggingarkostnaðar sem hafði áhrif á kostnað vegna viðhalds húsnæðis. Hækkun á húsnæðisverði skýrist fremur af fábreyttum möguleikum landsmanna til fjárfestingar en að skortur sé á íbúðar- eða skrifstofuhúsnæði. Mikið magn húsnæðis stendur autt um þessar mundir og veltan er lítil.

Það er athyglisvert að hækkun á innfluttum vörum, að undanskyldu eldsneyti, áfengi og tóbaki, hefur einungis hækkað um 2,5% undanfarna 12 mánuði á sama tíma og almennt verðlag hefur hækkað um 4,2%. Verðhækkana er því ekki að leita í aukinni álagningu verslunar nema síður sé.

Vísbendingar um halla á ríkissjóði

Þrátt fyrir að fjárlög 2011 hafi verið afgreidd með jákvæðum frumjöfnuði eru vísbendingar um að tekjuaukning ríkissjóðs verði ekki í samræmi við fjárlög og að útgjöldin verði talsvert umfram þau. Talið er að nýir kjarasamningar og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun bóta leiði til 9-11 milljarða króna aukins halla á ríkissjóði í ár. Lífeyrissjóðir munu ekki greiða neinn hluta af 6 ma.kr. sérstökum og tímabundnum vaxtabótum í ár og á næsta ári, eins og ríkisstjórnin áformaði, og því mun sá kostnaður lenda á ríkissjóði. Þá á ríkið eftir að leggja fram tugi milljarða króna til þess að standa við ýmsar skuldbindingar á árinu. Ber þar hæst kostnað vegna yfirtöku Landsbankans á SpKef og endurfjármögnunar Íbúðalánasjóðs.

Hækkun vaxta getur hækkað verðlag

Áætlað er að launakostnaður í einkageiranum á gildistíma nýgerðs þriggja ára kjarasamnings muni hækka um rúm 4% að meðaltali á ári. Ljóst er að mörg fyrirtæki á innanlands markaði, t.d. í verslun og þjónustu þar sem áhrif kjarasamninganna vega hvað þyngst, munu eiga erfitt með að mæta auknum launakostnaði nema með aukinni framleiðslu og sölu. Náist það ekki fram munu launahækkanir annað hvort leiða til hækkunar á vöruverði eða til samdráttar í framleiðslu og sölu og til uppsagna á fólki.

Hækkun vaxta við þessar aðstæður mun einungis auka á verðbólguþrýstinginn. Aukinn vaxtakostnaður fyrirtækja til viðbótar við aukinn launakostnað takmarkar svigrúm fyrirtækja til að bregðast við með öðru en verðhækkunum, sérstaklega í ljósi þess að fátt bendir til aukinnar eftirspurnar að óbreyttu. Eina vonin til þess að hækkun vaxta geti stuðlað að hjöðnun verðbólgu er að gengi krónunnar myndi styrkjast í kjölfarið. Við skilyrði gjaldeyrishafta er líkur á að svo verði afar litlar.

Samtök atvinnulífsins