Efnahagsmál - 

19. Maí 2006

Vaxtahækkun framlenging á fortíðinni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vaxtahækkun framlenging á fortíðinni

Bankastjórn Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 0,75% í gærmorgun úr 11,5% í 12,25%. Þetta er fjórtánda vaxtahækkun Seðlabankans frá því í maí 2004. Í samtali við Morgunblaðið lýsir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, efasemdum um að vaxtahækkun Seðlabankans skili tilætluðum árangri.

Bankastjórn Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 0,75% í gærmorgun úr 11,5% í 12,25%. Þetta er fjórtánda vaxtahækkun Seðlabankans frá því í maí 2004. Í samtali við Morgunblaðið lýsir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, efasemdum um að vaxtahækkun Seðlabankans skili tilætluðum árangri.

Samtök atvinnulífsins sendu Seðlabankanum bréf á dögunum þar sem lýst var verulegum efasemdum um að vaxtahækkun nú muni skila tilætluðum árangri. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði þar að gengi krónunnar hefði fallið þrátt fyrir að vextir hefðu verið mjög háir. Það reiknaði enginn með því að gengið myndi hækka á ný í svipað horf og það var fyrir gengisfellingu. Vaxtahækkun nú yrði ekki til þess að menn fengju einhverja trú á að gengið hækkaði til frambúðar.

"Menn eru bara að telja mánuðina í samdrátt"

Vilhjálmur sagði í samtali við Morgunblaðið að það væru allir að spá samdráttarskeiði. "Menn eru bara að telja mánuðina í samdrátt. Ég tel sjálfur að sú spá sem fjármálaráðuneytið hefur unnið út frá, um 1-2% hagvöxt á næsta ári, sé bjartsýn spá. Ég tel að það séu talsverðar líkur til þess að samdrátturinn verði meiri, jafnvel að það sé spurning hvort það verði nokkur hagvöxtur." Fjármálaráðuneytið spáir því að íbúðabyggingar verði svipaðar á næsta ári og á þessu ári. Vilhjálmur sagðist hafa efasemdir um að þetta gengi eftir. Líklegra væri að það drægi verulega úr þeim. "Því segi ég; að hækka vextina þegar menn eru að fara inn í samdráttarskeið er ekki viðeigandi aðgerð. Með þessu eru menn bara að framlengja fortíðina."

Vilhjálmur sagðist reikna með að á næsta ári yrði ekki fyrir hendi eftirspurnarþrýstingur, sem að undanförnu hefði átt mestan þátt í að keyra upp verðbólgu. Það sem kæmi til með að ráða mestu um verðbólgu á næsta ári væru laun og aðrir kostnaðarþættir.

Samtök atvinnulífsins