Vaxandi hagkerfi og vaxandi sprengigleði

Íslendingar heilsuðu nýju ári að gömlum sið með hávaða og látum. Flutt voru til landsins 662 tonn af flugeldum skv. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og vinna landsmenn nú hörðum höndum að því að tendra síðustu kílóin á þrettánda og jafnframt síðasta degi jóla. Af nógu er að taka en 662 tonn af flugeldum gera tæplega 2 kíló á hvern Íslending, þó ætla megi að dreifingin sé ekki alveg svo jöfn. Ávallt bera einhverjir meiri byrðar en aðrir.

Stígandi hefur verið í sprengingum landsmanna undanfarin ár og er svo komið að ekki hefur verið flutt inn meira magn af flugeldum að undanskildum árunum 2006 og 2007. Á mann er magnið svipað nú og árið 2005 og vöxturinn mjög sambærilegur og á því hagvaxtarskeiði. Það er nefnilega svo að sprengigleði landsmanna, vilji þeirra til að eyða háum fjárhæðum í stundargleði, hefur mikla fylgni við almenna efnahagsþróun. Því meiri hagvöxtur, því meiri sprengingar.

Það er í okkar höndum að halda vel á góðri stöðu, forðast kollsteypur og byggja undir sjálfbæra kaupmáttaraukningu til lengri tíma. Með því styrkjum við stoðir íslensks flugeldamarkaðar, eflum björgunarsveitirnar og höldum áfram að lýsa enn frekar upp myrkasta skammdegið.

Að því sögðu er þó rétt að taka fram að þó við megum vera stolt hver áramót af glæsilegustu dreifstýrðu flugeldasýningu meðal þróaðra ríkja, þá eru púðursprengingar ekki drifkraftur íslensks efnahagslífs. Auknar sprengingar skila nefnilega ekki auknum hagvexti þó það liggi í augum uppi að aukinn hagvöxtur skili auknum sprengingum.

undefinedSmelltu á myndina til að stækka