Vaxandi áhyggjur af þróun peningamála

Samtök atvinnulífsins hafa vaxandi áhyggjur af þróun peningamála í landinu og ekki síst þróun gengis og raunstýrivaxta að undanförnu, eins og fram kemur í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins. Gengi krónunnar hefur hækkað það mikið að verulega þrengir að samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Telja samtökin nauðsynlegt að stuðla að lækkun á gengi krónunnar með því að lækka stýrivexti Seðlabankans, sem nú eru alltof háir. Verðbólga er nánast engin og mikill slaki á vinnumarkaði. Verði ekkert að gert getur atvinnuástandið orðið mjög slæmt síðar á árinu og á næsta ári.

Verðbólgan á síðasta ári án húsnæðis var 0,3% en var 1,4% með húsnæði, miðað við breytingar á vísitölu frá upphafi til loka ársins 2002. Á sama tíma hækkuðu raunvextir úr 2% í rúm 4% en lækkuðu í Noregi og á evru-svæðinu. Þá styrktist gengi krónunnar um 13,5% á síðasta ári og hefur haldið áfram að styrkjast frá áramótum. Gengisvísitala krónunnar lækkaði að sama skapi og var í byrjun árs komin niður í um 124 stig.

Sláandi þróun
Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að þróun raunvaxta hér í samanburði við önnur lönd hljóti að koma mörgum á óvart. Um sláandi þróun sé að ræða. Raunar megi halda því fram að raunstýrivextir Seðlabankans séu nú hærri en 5%, ef horft sé t.d. sex mánuði fram í tímann. Samtökin hafi orðið miklar áhyggjur af þróun rekstrarskilyrða samkeppnisgreina atvinnulífsins. Gengishækkunin að undanförnu sé orðin ískyggilega mikil og þörf sé á vaxtalækkun. Umræðan um þetta meðal forsvarsmanna atvinnulífsins sé mikil og fari vaxandi, ekki síst þar sem staðan hafi breyst hratt á síðustu vikum. Aðeins frá því í nóvember hafi gengi krónunnar styrkst um 5%.

"Við teljum það nauðsynlegt að þeir sem hafa tæki til að hafa áhrif á þessa þætti beiti þeim til að hamla gegn styrkingu krónunnar," segir Ari og er þar einkum að vísa til Seðlabankans og stjórntækis hans með stýrivexti til viðskiptabanka og sparisjóða. Hann segir að samtökin vilji einnig ýta undir umræðu í þjóðfélaginu um þessa þróun mála. Umræðan um þessa grunnþætti efnahagslífsins geti haft mikil áhrif.

"Við leggjum mikla áherslu á þetta í ljósi þess hve verðbólgan er lág. Hún er aðeins 0,3% á síðasta ári ef húsnæðið er tekið frá. Borið saman við Evrópu þá er alveg ljóst að vaxtastigið hér á landi er gríðarlega hátt. Við teljum aðhald peningastefnunnar hér á landi, eins og það birtist í mjög háum raunstýrivöxtum Seðlabankans og miklum vaxtamun gagnvart útlöndum, allt of mikið og ekki í samræmi við aðstæðurnar í efnahagslífinu. Við teljum óeðlilegt að halda vöxtum það háum að þeir stuðli að háu og hækkandi gengi krónunnar. Þetta gerist í umhverfi þar sem verðbólga er lítil og nánast engin, eiginlega er stefnan í átt til verðhjöðnunar. Mikill slaki er á vinnumarkaði og atvinnuástandið fer því miður mjög hratt versnandi. Við höfum töluverðar áhyggjur af þeirri þróun á næstu vikum og mánuðum og að það geti versnað enn frekar. Vissulega bendir sitthvað til meiri umsvifa í samfélaginu síðar en nokkur tími er þangað til að það gerist," segir Ari og á þar við fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir.

Gengið verður að veikjast
Hann segir að meðalgengisvísitala krónunnar á síðasta ári hafi verið 131,4 stig. Gengi í námunda við það virðist samrýmast þokkalegri afkomu í atvinnulífinu og jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Frá þeim tíma hafi krónan styrkst verulega og afkoma margra fyrirtækja því versnað. Ari segir að þetta sé megináhyggjuefnið. Gengið sé að styrkjast það mikið að þær atvinnugreinar sem búi við erlenda samkeppni eigi mjög í vök að verjast. Gengið verði að veikjast.

"Auðvitað ræðst gengið að verulegu leyti á markaði og menn verða að búast við sveiflum á því, líkt og við höfum kynnst, og verið bæði undir og yfir því sem ýmsir telji efnahagslegar forsendur fyrir. Ákvarðanir eru ekki teknar um hvert gengið eigi að vera eins og áður fyrr, en þeir sem starfa á markaðnum þurfa að átta sig á að núverandi staða krónunnar er einfaldlega að herða miklu meira að atvinnulífinu heldur en að nokkrar forsendur eru fyrir."

Ari bendir á að vaxtaákvarðanir Seðlabankans séu ekki eini þátturinn sem geti haft þarna áhrif. Fjölmargir aðrir á markaðnum komi vonandi til með að íhuga sín mál. Vonast Ari m.a. til þess að fyrirtæki geti nú farið að greiða niður erlendar skuldir sínar og bæti þá frekar við sig hér innanlands. Þetta geti haft áhrif á þróunina til hins betra.

Erfið skilyrði í sjávarútvegi
Ari segir að á fyrri hluta síðasta árs hafi verið mikil framlegð í starfsemi útflutningsfyrirtækja. Gengishækkunin hafi falið í sér lækkun erlendra skulda en reksturinn sjálfur ekki batnað að sama skapi. Nú sé atvinnulífið að hefja starfsemi á þessu ári við hátt gengi, og margar greinar séu að skila lítilli sem engri framlegð, t.d. ýmsar greinar sjávarútvegsins. Því sé ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að raungengi krónunnar fáist ekki staðist til lengdar.

Hann segir að gengisvísitala krónunnar hafi lægst farið niður í 108 stig í apríl árið 2000. Það hafi verið styrking á krónunni sem ekki hafi fengist staðist, enda hafi hún fallið hratt eftir þetta. Nú hafi atvinnulífið búið við hlutfallslega meiri kostnaðarhækkanir en í öðrum löndum þannig að gengisvísitala sambærileg við maí 2000 sé núna yfir 115 stigum. "Þannig að ég tel að við séum komin ansi nærri þeirri styrkingu krónunnar sem ekki fékkst staðist þá, og fær heldur ekki staðist nú. Ég óttast að frekari styrking krónunnar geti bara skapað ójafnvægi sem leiði á ný til erfiðrar aðlögunar sem okkur ætti að vera í fersku minni," segir Ari Edwald að lokum, í samtali við Morgunblaðið.