Fréttir - 

07. nóvember 2019

Varðmennirnir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Varðmennirnir

Öllu valdi fylgir ábyrgð og miklu valdi fylgir mikil ábyrgð. Valdi verður ávallt að setja mörk því þau sem fara með völd hafa tilhneigingu til að seilast alltaf aðeins lengra og lengra. Eftirlitsstofnanir okkar gegna mikilvægu hlutverki og hafa um leið mikil völd. Þær vernda almenning og önnur fyrirtæki gegn ólögmætri háttsemi, sem er blessunarlega fátíð á Íslandi.

Öllu valdi fylgir ábyrgð og miklu valdi fylgir mikil ábyrgð. Valdi verður ávallt að setja mörk því þau sem fara með völd hafa tilhneigingu til að seilast alltaf aðeins lengra og lengra. Eftirlitsstofnanir okkar gegna mikilvægu hlutverki og hafa um leið mikil völd. Þær vernda almenning og önnur fyrirtæki gegn ólögmætri háttsemi, sem er blessunarlega fátíð á Íslandi.

Það verður seint sagt að lögfræði sé kýrskýrt fræðasvið. Oft greinir fólk á um hvað sé lögmætt og hvað ekki. Til þess að eftirlitsstofnanir geti sinnt hlutverki sínu sem best er mikilvægt að þær búi við einfalt og skýrt lagaumhverfi. Það auðveldar líka fólki og fyrirtækjum að fara að lögum. Þegar kemur að samkeppnislögum bætist hagfræðilegt mat við hið lögfræðilega. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að útskýra að hagfræði er heldur ekki nákvæmnisvísindi. Það er því sérstaklega mikilvægt að samkeppnislög séu skýr.

Í þessu eins og öðru ættum við ekki að vera að reyna að finna upp hjólið heldur líta til þess hvernig menn haga hlutunum á Norðurlöndum og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Með nýju frumvarpi sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt er einmitt verið að gera þetta. Færa samkeppnislögin nær Evrópu um leið og þau eru einfölduð og Samkeppniseftirlitinu gefið svigrúm til að sinna betur því sem skiptir mestu máli.

Rómverska skáldið Juvenal spurði hver gætti varðmannanna. Á Íslandi er svarið við því einfalt: Það er ríkisstjórnar og Alþingis að setja eftirlitsaðilum skorður og skilgreina mörk fyrir þá til að fara eftir.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóvember 2019.

Samtök atvinnulífsins