Efnahagsmál - 

05. Oktober 2009

Varasamar tillögur um að skerða lífeyrissparnað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Varasamar tillögur um að skerða lífeyrissparnað

Tillögur hafa verið lagðar fram um að breyta formi á skattlagningu lífeyrissparnaðar þannig að inngreiðslur í lífeyrissjóði verði ekki frádráttarbærar til skatts heldur myndi skattskyldar tekjur hjá viðkomandi einstaklingi, hvort heldur það er hann sjálfur eða launagreiðandi sem innir þær af hendi. Á móti verði greiðslur úr lífeyrissjóðum skattfrjálsar. Áhrif þessara breytinga yrðu margþætt og myndu hafa umtalsverð þjóðhagleg áhrif. Sparnaður þjóðarinnar myndi t.a.m. minnka og eignamyndun yrði minni. Loka þyrfti núverandi lífeyrissjóðum, skerða lífeyrisgreiðslur og opna nýja sjóði. Séreignasjóðsfyrirkomulagið þyrfti að endurskoða og samspil lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga yrði flóknara auk þess sem mismunur lífeyrisréttinda í almenna og opinbera lífeyriskerfinu myndi aukast.

Tillögur hafa verið lagðar fram um að breyta formi á skattlagningu lífeyrissparnaðar þannig að inngreiðslur í lífeyrissjóði verði ekki frádráttarbærar til skatts heldur myndi skattskyldar tekjur hjá viðkomandi einstaklingi, hvort heldur það er hann sjálfur eða launagreiðandi sem innir þær af hendi. Á móti verði greiðslur úr lífeyrissjóðum skattfrjálsar. Áhrif þessara breytinga yrðu margþætt og myndu hafa umtalsverð þjóðhagleg áhrif. Sparnaður þjóðarinnar myndi t.a.m. minnka og eignamyndun yrði minni. Loka þyrfti núverandi lífeyrissjóðum, skerða lífeyrisgreiðslur og opna nýja sjóði. Séreignasjóðsfyrirkomulagið þyrfti að endurskoða og samspil lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga yrði flóknara auk þess sem mismunur lífeyrisréttinda í almenna og opinbera lífeyriskerfinu myndi aukast.

Lífeyrissjóðakerfið engin tilviljun

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman stutt minnisblað um skattlagningu lífeyrissparnaðar þar sem farið er yfir þróun lífeyrissjóðakerfisins, hugsunina að baki kerfinu og áhrif fyrrgreindra breytinga. Þar segir m.a. að núverandi fyrirkomulag lífeyrissjóðakerfisins sé engin tilviljun heldur niðurstaða mikillar yfirlegu og ígrundaðra umræðna árum saman og hafi verið ætlað að standast til áratuga, enda sé uppbygging lífeyrissjóða langtímaverkefni sem þurfi að ná út yfir þarfir einnar kynslóðar. Hinir almennu lífeyrissjóðir aðila vinnumarkaðarins hafi verið í þróun í meira en 40 ár og það hafi þurft festu og framsýni að byggja þá upp.
 

Auk fyrrgreindra áhrifa af breytingu á skattlagningu lífeyrissparnaðar segir m.a. í minnisblaðinu að lakari lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðum hafi í för með sér hærri lífeyrisgreiðslur almannatrygginga vegna tekjutenginga á milli þessara tveggja stoða lífeyriskerfis landsmanna. Þetta samspil verði að hafa í huga þegar breytingar eru gerðar sem skerði lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða.

Með skattlagningu lífeyrisgreiðslna væri skref stigið til baka frá kerfi sjóðssöfnunar í átt til gegnumstreymiskerfis, sem er þveröfugt  við það sem þörf er á í ljósi breyttrar aldurssamsetningar landsmanna. Undanfarin ár hefur einn lífeyrisþegi (65+) verið á móti hverjum 6 íbúum á vinnualdri (15-64 ára). Árið 2020 verður þetta hlutfall komið í 1 á móti 4, árið 2030 1 á móti 3 og árið 2050 1 á móti 2. Við slíkar aðstæður fær gegnumstreymiskerfi ekki staðist og lífeyrir byggður á sjóðssöfnum forsenda þess að skattbyrði vinnandi kynslóðarinnar verði þolanleg.

Þá er vakin á því athygli að huga verði í þessu sambandi að frjálsri för fólks á EES-svæðinu þar sem gildi ákveðnar grundvallarreglur um flutning lífeyrisréttinda á milli landa. Ísland gæti mögulega orðið skattaparadís erlendra lífeyrisþega.

Í niðurlagi minnisblaðsins segir m.a.:

"Tillaga um að breyta kerfinu og skattleggja iðgjöld núna vegna yfirstandandi erfiðleika er slæm og slík breyting á margan hátt skaðleg. Ef vilji er til þess að flá sjóðina er skárra að ganga beint til verks fremur en að flá sjóðina innan frá.

Einfaldara er að ákveða með lögum að hluti af iðgjaldi launagreiðenda skuli um einhvern tiltekinn tíma renna beint í ríkissjóð sem skattur. Það kemur þá fyrst og fremst niður á réttindum þeirra einstaklinga sem nú eru að afla sér réttinda með eigin iðgjaldagreiðslum og greiðslum launagreiðenda en aðeins að litlu leyti á þeim sem eru að fá greiðslur úr sjóðunum og hringlar ekki með uppbyggingu sjóðanna.


Minni sparnaður í lífeyrissjóðum kemur þá beint fram í minni sparnaði þjóðarinnar einmitt á tímum sem nauðsynlegt er að sparnaður sé til fjárfestinga til þess að hefja nýja sókn upp úr kreppunni.  Afl lífeyrissjóðanna til þess að taka þátt í uppbyggingarstarfinu minnkar og kreppan framlengd eftir því sem minna er fjárfest og atvinnuleysið eykst. Því er rétt að varast mjög öll áform um að skerða  lífeyrissparnaðinn."

Sjá nánar:

Minnisblað SA um skattlagningu lífeyrissparnaðar (PDF)

Samtök atvinnulífsins