1 MIN
Varað við íþyngjandi áhrifum plastvörureglugerðar ESB á íslenskan markað
Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað umsögn um drög að reglugerð um plastvörur (mál nr. S-143/2025). Reglugerðinni er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar ESB nr. 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið og framkvæmdarreglugerð nr. 2020/2151 um samræmdar merkingar á einnota plastvörum.
Í reglugerðardrögunum er kveðið á um skyldu til að merkja ákveðnar vörur, svo sem tíðavörur, blautþurrkur, tóbaksvörur með plasti og drykkjarumbúðir. Merkingarnar eiga samkvæmt framkvæmdarreglugerðinni að vera á opinberu tungumáli þess aðildarríkis þar sem varan er sett á markað.
Óraunhæf krafa á íslenskan markað
Samtökin vara við því að framleiðendur muni ekki sjá sér hag í að framleiða sérmerkingar á íslensku fyrir örmarkað á borð við Ísland. Afleiðingin verði aukinn kostnaður, hærra vöruverð og skert framboð. Þau minna á að íslensk stjórnvöld hafi áður óskað eftir aðlögun vegna reglugerðarinnar en fengið synjun.
Í umsögninni er bent á að tungumálakrafan eigi sér ekki stoð í tilskipuninni sjálfri heldur sé hún ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Því telja samtökin álitamál hvort framkvæmdastjórnin hafi farið út fyrir valdmörk sín og hvort rétt mat hafi verið lagt til grundvallar þegar aðlögunarbeiðni Íslands var hafnað.
Séríslenskar aðstæður hunsaðar
Samtökin leggja áherslu á að taka verði mið af séríslenskum aðstæðum. Fámennur markaður og mikill hluti neytenda sem skilur ensku eða önnur Norðurlandamál geri sérstakar merkingar á íslensku óraunhæfar. Að þeirra mati er ekki réttlætanlegt að reglur sem settar eru fyrir stærri markaði valdi vöruskorti eða óhóflegum verðhækkunum hér á landi.
Þau benda einnig á að áhrifin muni koma sérstaklega illa niður á ákveðnum hópum, t.d. konum sem nota tíðavörur, þar sem um er að ræða nauðsynjavörur sem ekki er hægt að sleppa. Hækkandi verð og mögulegur vöruskortur á slíkum vörum væri alvarlegur misbrestur í jafnréttissjónarmiðum.
Kallað eftir hagsmunagæslu Íslands
Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að láta reyna á lögmæti tungumálakrafnanna fyrir EFTA-dómstólnum. Þau telja að meðalhófsregla og meginregla um valddreifingu innan ESB hafi ekki verið virt. Sérstaklega sé óásættanlegt að ekki hafi verið tekið mið af hagsmunum smárra málsvæða og eyríkja.
Tillaga samtakanna
Í niðurstöðu sinni leggja samtökin til að Ísland innleiði reglugerðina með þeim hætti að merkingar plastvara verði heimilar á ensku eða öðru Norðurlandamáli (utan finnsku). Slík lausn tryggi að markmið reglugerðarinnar – að upplýsa neytendur um innihald plastvara – nái fram að ganga, án þess að íþyngja íslenskum markaði óhóflega.
„Það er brýnt að gætt sé hagsmuna Íslands við innleiðingu EES-reglna. Smæð markaðarins gerir það að verkum að kröfur sem kunna að vera eðlilegar á stærri mörkuðum geta haft ósanngjarnar og jafnvel skaðlegar afleiðingar hér á landi,“ segir í umsögninni.