27. Maí 2022

Vandanum slegið á frest

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vandanum slegið á frest

Stjórnvöld kynntu nýverið fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027. Eins og kemur fram í umsögn SA reynir ekki á þær fjármálareglur sem lagðar voru til grundvallar við upptöku laga um opinber fjármál árið 2016 þar sem þær hafa tímabundið verið felldar úr gildi. Ekki er gert ráð fyrir að þær taki aftur gildi fyrr en í lok tímabilsins og er næstu ríkisstjórn þannig eftirlátið að takast á við þann vanda sem hefur skapast í opinberum fjármálum.

Þrátt fyrir undirliggjandi ójafnvægi í ríkisrekstri eru í áætluninni ekki boðaðar miklar breytingar á tekju- eða útgjaldahlið né er mótaður skýr farvegur í átt að endurupptöku fjármálareglnanna að öðru leyti en því að treyst er á hagvöxt á komandi árum. Þá er fjallað með almennum hætti um umbætur í ríkisrekstri. Útfærslur og greiningar skortir hins vegar á mikilvægum aðgerðum, svo sem á sérstökum ráðstöfunum á tekju- og útgjaldahlið sem enn er þörf fyrir, þrátt fyrir bættar efnahagshorfur. Þá er talað um nauðsyn hagræðingar og að fjármögnun nýrra verkefna þurfi að fara fram með breyttri forgangsröðun og bættri nýtingu fjármuna vegna lítils svigrúm til útgjaldaaukningar. Samtök atvinnulífsins taka undir þau sjónarmið en ákjósanlegt hefði verið að ítarlegri útfærslur á þessum metnaðarfullu markmiðum fylgdu með í áætluninni í anda gagnsæis.

Bættur rekstur skapar tækifæri

Eins og SA hafa áður bent á er tilefni til að skoða hvort útgjaldaregla, til viðbótar við þær reglur sem þegar eru til staðar, væri ekki til þess fallin að skapa aukið aðhald í uppsveiflum. Er það ekki síst mikilvægt nú, þegar útlit er fyrir að hagkerfið starfi við fulla framleiðslugetu og verðbólguþrýstingur að ágerast úr ýmsum áttum. Þá má hið opinbera ekki halda áfram að leiða launaþróun. Forsendur áætlunarinnar sem snúa að launakostnaði verða að halda svo opinber fjármál stuðli að jafnvægi í opinberum fjármálum og stöðugu verðlagi.

Með bættum rekstri ætti að skapast aukið svigrúm til hagvaxtarhvetjandi fjárfestinga, hjá hinu opinbera og einnig í atvinnulífinu. Enn liggja sóknartækifæri í að styðja við íslenskt atvinnulíf í formi bætts regluverks, betra fjárfestingarumhverfis og lægri álaga. Þó treyst sé á atvinnulífið til að knýja hagvöxt komandi ára leikur hið opinbera lykilhlutverk þegar kemur að því að skapa hagfelldara rekstrarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki.

Umsögn Samtaka atvinnulífsins í heild sinni má finna hér.

Samtök atvinnulífsins