Valkostir flokkanna í efnahagsmálum

Viðskiptablaðið birtir í nýjasta tölublaði sínu yfirlit yfir valkosti stjórnmálaflokkanna í efnahagsmálum fyrir kosningarnar til Alþingis sem fram fara á morgun. Yfirlitið er einnig aðgengilegt á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, en rætt er við Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í blaðinu.

„Með það fyrir augum að gefa glögga mynd af stefnumálum stjórnmálaflokkanna í efnahags- og atvinnumálum hefur Viðskiptablaðið tekið saman helstu áherslur þeirra hvað málaflokkana varðar.

Við gerð úttektarinnar var leitast við að gera grein fyrir helstu áherslum stjórnmálaflokkanna í samræmi við upplýsingar og orðalag eins og það birtist á vefsvæðum framboða. Ekki er um er um ítarlega greiningu að ræða heldur aðeins stiklað á stóru og reynt að draga fram í dagsljósið helstu áherslur flokkanna í hverjum málaflokki fyrir sig. Vegna þess fjölda flokka sem eru í framboði var ákveðið að einblína á stefnu þeirra flokka sem mælst hafa með meira en 5% fylgi í könnunum og geta því talist líklegir til að fá fólk kosið inn á Alþingi í þingkosningunum sem fara fram 29. október, hér getur að sjá áherslur Pírata, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins,“ segir á vb.is en umfjöllun blaðsins má nálgast hér að neðan.

Misjafnir valkostir í efnahagsmálum - fyrri hluti
Smellið á myndina til að skoða á vb.is

undefined


Misjafnir valkostir í efnahagsmálum – seinni hluti
 Smellið á myndina til að skoða á vb.is

undefined

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að SA fagni aukinni umræðu um gjaldeyrismál og segja t.d. hugmyndir um myntráð um margt áhugaverðar.

„Það er hins vegar óábyrgt að leggja megináherslu á breytingar í gjaldeyrismálum, fastgengisstefnu eða upptöku annarrar myntar, nema um leið sé unnið að ábyrgri hagstjórn og breyttri hegðun við gerð kjarasamninga. Okkur hefur vegnað vel á undangengnum árum, hagvaxtarhorfur eru góðar, afgangur er í viðskiptum við útlönd, lánshæfi ríkissjóðs hefur batnað og gjaldeyrisforði Seðlabankans er rúmur. Þó eru enn óleyst stór mál sem setja þarf í forgang. Heildstæð endurskoðun þarf að eiga sér stað á vinnumarkaði og brýnt að óvissu um framhald Salek-samstarfsins verði eytt og þráðurinn tekinn upp á ný. Ríkisútgjöld eru mikil, bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði, og því þarf að auka aga og mæta auknum útgjöldum með forgangsröðun fremur en aukningu útgjalda.

Þrátt fyrir mikil ríkisútgjöld virðast allir flokkarnir stefna að enn auknum umsvifum ríkisins. Allir flokkar lofa auknum útgjöldum til heilbrigðismála en lítið fer fyrir tillögum er miða að því að auka skilvirkni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem renna þangað nú þegar. Í góðæri er mikilvægt að fjármálastefna hins opinbera sé ábyrg og ýti ekki undir þenslu með auknum útgjöldum. Gegndarlaus útgjaldaloforð flokkanna ganga í berhögg við þá stefnu að beita ríkisfjármálunum til sveiflujöfnunar og gangi þau eftir tefla þau efnahagslegum stöðugleika í tvísýnu,“ segir Hannes

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast rafrænt tölublað hér, 27. október 2016.

Tengt efni:

Upptaka frá kappræðum stjórnmálaflokkanna í Hörpu

undefined