Efnahagsmál - 

14. Júní 2006

Væntingar um áframhaldandi þenslu en bætta stöðu útflutnings

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Væntingar um áframhaldandi þenslu en bætta stöðu útflutnings

Niðurstöður liggja nú fyrir úr ársfjórðungslegri könnun IMG Gallup á stöðu og framtíðarhorfum í atvinnulífinu, sem gerð var í maí. Svör stjórnenda benda almennt til þess að aðstæður í efnahagslífinu séu tiltölulega góðar. Útkoman er þó lakari en var í samsvarandi könnun í febrúar og aðstæður fara versnandi þegar litið er hálft ár fram í tímann. Áfram er spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki í flestum atvinnugreinum.

Niðurstöður liggja nú fyrir úr ársfjórðungslegri könnun IMG Gallup á stöðu og framtíðarhorfum í atvinnulífinu, sem gerð var í maí. Svör stjórnenda benda almennt til þess að aðstæður í efnahagslífinu séu tiltölulega góðar. Útkoman er þó lakari en var í samsvarandi könnun í febrúar og aðstæður fara versnandi þegar litið er hálft ár fram í tímann. Áfram er spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki í flestum atvinnugreinum.

Könnunin leiðir í ljós verulegar breytingar á stöðu og horfum eftir atvinnugreinum. Dregið hefur úr væntingum um aukna innlenda eftirspurn en aukinnar erlendrar eftirspurnar er vænst. Ólíkt því sem fram kom í hliðstæðri könnun í febrúar er þróun EBITDA-framlegðar síðustu sex mánuði áberandi hagstæðust í sjávarútvegi og horfur næstu sex mánuði eru þar einnig bestar, sem og í iðnaði ásamt samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu. Gengisþróun undanfarna mánuði skiptir hér greinilega sköpum, enda er það mat stjórnenda í 97% fyrirtækja í sjávarútvegi að gengisþróun frá áramótum hafi verið jákvæð fyrir afkomuna fyrirtækjanna.

Núverandi aðstæður í efnahagslífinu

Um 57% svarenda telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu góðar, um 13% telja þær slæmar en um 30% álíta þær hvorki góðar né slæmar. Þetta er ágæt niðurstaða en þó talsvert lakari en í sambærilegri könnun í febrúar, þegar um þrír fjórðu töldu aðstæður í efnahagslífinu góðar.

Aðstæður eftir sex mánuði

Svör stjórnenda um ætlaðar aðstæður í efnahagslífinu eftir sex mánuði gefa til kynna að þær verði heldur lakari en nú er. Telja um 33% fyrirtækjanna að aðstæður verði verri, 17% að þær verði betri en helmingur álítur að þær verði óbreyttar. Lakastar horfur eru í ýmissi sérhæfðri þjónustu þar sem 46% vænta lakari aðstæðna eftir sex mánuði, og í fjármála- og tryggingastarfsemi vænta 43% lakari aðstæðna. Ekki kemur þó fram mikill munur á horfum eftir atvinnugreinum.

Skortur á starfsfólki

Röskur helmingur svarenda eða 53,2% telja að skortur sé á starfsfólki en 46,8% að nægt framboð sé. Í könnun í febrúar var hlutfall fyrirtækja sem skorti starfsfólk ívið lægra eða 47,6%. Árstíðasveiflur eru í eftirspurn eftir vinnuafli og er líklegt að aukinn skort megi rekja til meiri eftirspurnar í byrjun sumars. Á höfuðborgarsvæðinu er skortur á starfsfólki hjá 58% svarenda, en hjá 45% á landsbyggðinni. Starfsfólk skortir í flestum atvinnugreinum, mest í ýmissi sérhæfðri þjónustu, iðnaði, samgöngum, flutninga- og ferðaþjónustu, byggingastarfsemi og verslun. Sú breyting kemur þó fram miðað við fyrri könnun að í fjármála- og tryggingastarfsemi er nú að mestu nægt framboð starfsfólks.

Starfsmannafjöldi næstu sex mánuði

Góðar horfur koma fram um starfsmannafjölda næstu sex mánuði og í heild mjög áþekkar og fram komu í könnun í febrúar. Telja stjórnendur hjá um 44% þátttökufyrirtækja að starfsmönnum muni fjölga, um 6% vænta fækkunar en um helmingur telja að starfsmannafjöldi verði óbreyttur eftir hálft ár. Þannig er ljóst að atvinnulífið reiknar með áframhaldandi þenslu á vinnumarkaði. Óbreytts starfsmannafjölda er vænst að miklum meirihluta í verslun (75%), sjávarútvegi (67%) og fjármála- og tryggingastarfsemi (57%). Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu vænta 19% fyrirtækja fækkunar, en á móti vænta 46% svarenda í þessari atvinnugrein nokkurrar fjölgunar.

Breytingar á innlendri eftirspurn næstu sex mánuði

Könnunin gefur til kynna að dregið hafi úr væntingum um aukna eftirspurn í efnahagslífinu. Í hliðstæðri könnun í febrúar töldu um 48% þátttakenda að innlend eftirspurn myndi aukast á næstu sex mánuðum. Nú væntir hins vegar tæplega 31% þátttakenda aukningar innlendrar eftirspurnar á næstu sex mánuðum, um 13% búast við samdrætti en um 56% búast við óbreyttri eftirspurn. Væntingar um samdrátt eru mestar í verslun, en þar búast um 28% þátttakenda við minnkandi innlendri eftirspurn næstu sex mánuði, um 25% vænta aukningar en um 47% búast við óbreyttri eftirspurn.

Breytingar á erlendri eftirspurn næstu sex mánuði

Niðurstaða um breytingar á erlendri eftirspurn er fremur afdráttarlaus og skýrari en í könnun í febrúar. Um 73% þátttakenda vænta þess að eftirspurn eftir vöru eða þjónustu á erlendum mörkuðum aukist á næstu sex mánuðum, um 25% búast við óbreyttri stöðu og aðeins um 2% vænta samdráttar. Í sjávarútvegi býst um 71% þátttakenda við aukningu, um 26% búast við óbreyttri erlendri eftirspurn en um 3% gera ráð fyrir samdrætti. Í framleiðsluiðnaði væntir um 74% þátttakenda aukinnar erlendrar eftirspurnar, en um 26% búast við óbreyttri stöðu. Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu gera um 69% ráð fyrir aukningu, um 6% vænta samdráttar en óbreyttar stöðu er vænst hjá um 25%.

EBITDA-framlegð síðustu sex mánuði

Í könnuninni er spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna 6 mánuði og líklegar breytingar næstu 6 mánuði. Í heild er niðurstaðan jákvæð og telja um 64% fyrirtækjanna að framlegð hafi aukist, 12% að hún hafi dregist saman, en staðan var óbreytt hjá um 24% þátttakenda.

Fróðlegt er að skoða niðurstöður eftir atvinnugreinum. Útkoman er hagstæðust í sjávarútvegi. Þar töldu um 84% fyrirtækja að EBITDA-framlegð hefði aukist, hjá um 12% hafði framlegð minnkað en staðan var óbreytt hjá um 3% svarenda. Þessi niðurstaða er mjög ólík því sem fram kom í könnun í febrúar, en þá töldu um 55% þátttakenda í sjávarútvegi að framlegð hefði minnkað síðustu sex mánuði og aðeins 23% að aukning hefði orðið. Veiking krónunnar undanfarna mánuði virðist því hafa bætt stöðu útflutningsgreina og leitt til þess að reksturinn skilar flestum fyrirtækjum betri framlegð. Útkoman er einnig hagstæð í ýmissi þjónustu, samgöngum og ferðaþjónustu, iðnaði og byggingastarfsemi, þar sem framlegð jókst hjá meirihluta (58-72%) fyrirtækja en dróst saman hjá minnihluta (0-17%). Í öðrum atvinnugreinum jókst framlegð síðustu sex mánuði hjá um eða innan við helmingi fyrirtækja.

EBITDA-framlegð næstu sex mánuði

Tæpur helmingur svarenda (48,1%) telur að framlegð muni aukast á næstu sex mánuðum, 32% að hún standi í stað og um 20% að hún minnki. Horfurnar eru þó mjög breytilegar eftir atvinnugreinum. Mestrar bjartsýni gætir í sjávarútvegi, þar sem um 72% fyrirtækja búast við aukningu, um 22% vænta óbreytts ástands og aðeins um 5% búast við samdrætti. Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu væntir einnig meirihluti þátttakenda (60%) nokkurrar aukningar og tiltölulega lítill hluti býst við samdrætti ((8%). Í iðnaði og framleiðslu vænta 58% þátttakenda aukinnar framlegðar, en samdráttar er vænst hjá 21% þeirra og óbreyttrar stöðu hjá 21%. Í byggingastarfsemi væntir um helmingur svarenda aukinnar framlegðar. Í öðrum atvinnugreinum eru horfur um framlegð á næstu sex mánuðum lakari, og vænta t.d. 39% þátttakenda í verslun samdráttar en 28% búast við aukningu. Í fjármála- og tryggingastarfsemi búast 36% þátttakenda við samdrætti en 21% við aukningu.

Áhrif gengisþróunar á afkomu

Að þessu sinni voru forráðamenn fyrirtækja sérstaklega spurðir um áhrif gengisþróunar frá áramótum á afkomu fyrirtækis þeirra. Í heild telur helmingur þátttakenda áhrifin neikvæð, um 32% álíta þau jákvæð en um 18% að áhrifin séu hvorki jákvæð né neikvæð. Niðurstaðan er þó mjög ólík eftir atvinnugreinum. Þannig telja um 97% fyrirtækja í sjávarútvegi áhrifin hagstæð. Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu taldi sama hlutfall þátttakenda áhrifin jákvæð (44%) og neikvæð (44%). Sama gildir um fjármála- og tryggingastarfsemi, þar sem 29% töldu áhrifin jákvæð og 29% neikvæð. Í verslun, iðnaði, byggingastarfsemi og þjónustu eru áhrifin hins vegar talin vera neikvæð (45-72%).

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum IMG Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð í maí og með einfaldara sniði. Í úrtaki voru 400 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 389 fyrirtæki. Svarhlutfall var 65,3%. Svör fyrirtækja eru vegin eftir launagreiðslum. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda.

Samtök atvinnulífsins