Efnahagsmál - 

05. september 2002

Væntanlegar stóriðjuframkvæmdir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Væntanlegar stóriðjuframkvæmdir

Nú í sumar hafa aukist mjög líkur á því að veruleg uppbygging muni eiga sér stað í ál- og orkuiðnaði hér á landi. Í júlí var undirrituð viljayfirlýsing um hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni fyrir austan milli Alcoa, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra og í ágúst var undirritað samkomulag um orkusölu vegna tvöföldunar framleiðslugetu Norðuráls. Þá hefur Skipulagsstofnun fallist á stækkun álvers Alcan í Straumsvík.

Nú í sumar hafa aukist mjög líkur á því að veruleg uppbygging muni eiga sér stað í ál- og orkuiðnaði hér á landi. Í júlí var undirrituð viljayfirlýsing um hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni fyrir austan milli Alcoa, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra og í ágúst var undirritað samkomulag um orkusölu vegna tvöföldunar framleiðslugetu Norðuráls. Þá hefur Skipulagsstofnun fallist á  stækkun álvers Alcan í Straumsvík. 

Aukinn útflutningur forsenda hagvaxtar
Veruleg aukning útflutningstekna íslenska þjóðarbúsins á næstu árum er forsenda þess að hagvöxtur byggður á traustum grunni geti átt sér stað og lífskjör landsmanna þannig haldið áfram að batna. Einungis með aukningu útflutningstekna geta Íslendingar haldið stöðu sinni í fremstu röð meðal þjóða hvað lífskjör varðar. Fyrir liggur að tiltölulega hröð nýting orkuauðlindanna og arðbær uppbygging orkuframleiðslu hér á landi mun fyrst og fremst eiga sér stað í tengslum við orkusölu til álfyrirtækja. Fram til þessa hefur gjarnan verið haft á orði að útlendingar standi ekki í röðum og bíði eftir tækifæri til að fjárfesta hér á landi. Nú hefur skipast þannig veður í lofti að margir fjárfestar sýna áhuga á stóriðjuframkvæmdum, en ónógt framboð á orku er orðið flöskuhálsinn.

Nauðsyn mótvægisaðgerða
Hvort sem ráðist verður í byggingu annars af þeim tveimur stóriðjuverkefnum sem lengst eru komin í undirbúningi eða bæði samtímis liggur fyrir að áhrif svo mikilla framkvæmda á þjóðarbúskapinn verða umtalsverð á mörgum sviðum, hvort sem litið er til eftirspurnar eftir vörum, þjónustu eða á vinnumarkaði og síðan afleidd áhrif aukins eftirspurnarþrýstings á verðbólgu, vexti, laun og kaupmátt. Jafnvægi kann að raskast af völdum þessa búhnykks og það verður viðfangsefni hagstjórnar að draga úr neikvæðum hliðarverkunum. Fyrst og fremst verða opinberir aðilar að draga úr framkvæmdum og öðrum umsvifum sínum til að skapa rými fyrir auknar stóriðjuframkvæmdir. Aðrar mótvægisaðgerðir felast í mikilli notkun erlends starfsfólks við byggingarframkvæmdir og peningamálaaðgerðum Seðlabanka.

Ýmsir hafa orðið til þess að láta í ljós áhyggjur af neikvæðum aukaverkunum stóriðjuframkvæmda og jafnvel látið í ljós andstöðu við uppbyggingu stóriðju og orkuframleiðslu af þeim sökum. Það er hins vegar algengur misskilningur að þeir framreikningar sem gerðir hafa verið af hálfu Þjóðhagsstofnunar sálugu og Seðlabanka um aukna verðbólgu og hærri vexti af völdum framkvæmdanna séu óumflýjanlegar staðreyndir. Gagnsemi framreikninga af þessu tagi felst fyrst og fremst í því að menn geta betur gert sér ljóst eðli og umfang þessa máls og nauðsyn þess að gripið sé til allra tiltækra mótvægisaðgerða á sviði opinberra fjármála, peningamála og á vinnumarkaði. Varðandi það síðast talda má segja að áhrif stærri vinnumarkaðar og þess sveigjanleika sem hann skapar hafa verið vanmetin í umræðunni, sem og möguleikar fyrirtækja til að bregðast við með nýjum tæknilegum lausnum. Án þessa hefði þensluástandið verið enn verra á síðustu misserum.

Tímasetning framkvæmda
Það skiptir miklu við hvaða aðstæður framkvæmdir fara af stað, hvort spenna eða slaki er í hagkerfinu. Á þessu ári hefur slaki myndast í hagkerfinu og hann mun að líkindum aukast á næstu misserum ef ekki verður af stóriðjuframkvæmdum. Eftir því sem slakinn er meiri við upphaf framkvæmda þeim mun minni óæskilegum hliðarverkunum má búast við og þar af leiðandi er minni þörf fyrir mótvægisaðgerðir.   Forsendur síðustu þjóðhagsspár fyrir hagvexti á næsta ári að óbreyttu eru afar veikar. Einkum forsendur um verulega aukna fjárfestingu. Miklu frekar er ástæða til að ætla að hagvöxtur verði lengur að ná sér á strik en spáð hefur verið og að atvinnuástand t.d. haldi áfram að versna.

Ruðningsáhrif
Í umræðum um efnahagslegar afleiðingar framkvæmdanna hefur mest verið rætt um það mat Seðlabankans að ef af framkvæmdum yrði fyrir austan þyrftu stýrivextir bankans að vera 2½% hærri en ella í aðdraganda mesta framkvæmdatímans, til að verðbólgumarkmið bankans næðist. Þetta mat byggðist á því að ekki yrði um neinar mótvægisaðgerðir af hálfu opinberra aðila að ræða. Bankinn hefur enn sem komið er ekki látið frá sér fara mat á þörf fyrir hækkaða stýrivexti miðað við að bæði Norðurál og smækkuð Reyðarálsframkvæmd eigi sér stað á sama tíma án mótvægisaðgerða, en vonast er eftir því í nóvember. Ljóst er að annað atvinnulíf myndi líða fyrir það ef vaxtastig þarf að vera verulega hærra en ella. Samdráttur í öðrum atvinnugreinum vegna hækkunar vaxta og annars framleiðslukostnaðar er það sem átt er við með hugtakinu ruðningsáhrif af völdum framkvæmdanna. 

Nauðsyn niðurskurðar hjá hinu opinbera
Þá kröfu verður því að gera til stjórnvalda að þau vinni að því að ruðningsáhrif af völdum stóriðjuframkvæmda á annað atvinnulíf verði sem allra minnst. Þess vegna þarf hið opinbera að skera niður á framkvæmdatímanum. Samkvæmt þjóðhagsspá var ætlað að opinberar framkvæmdir myndu nema um 30 milljörðum í ár og nú er rætt um ýmsar stórframkvæmdir, svo sem jarðgöng. Hér þurfa stjórnvöld að gá vel að sér því það er miklu auðveldara fyrir opinbera aðila að auka umsvif sín á ný en að byggja upp atvinnulíf aftur sem þurft hefur að hopa vegna þenslu í þjóðfélaginu og versnandi stöðu samkeppnisgreinanna.

Vaxtahækkun eða minni opinber umsvif
Á undanförnum árum og áratugum hefur oft verið rætt um sambýlisvanda sjávarútvegs og annars atvinnulífs. Á árum áður leiddi góðæri í sjávarútvegi til þess að launakostnaður og verðbólga jukust með þeim afleiðingum að aðrar samkeppnisgreinar sem ekki höfðu orðið fyrir neinum búhnykk þurftu að líða fyrir. Mjög hefur dregið úr áhrifum sveiflna í sjávarútvegi á þjóðarbúskapinn á síðustu árum en fyrirhuguðum  stóriðjuframkvæmdum má jafna við mestu búhnykki sem orðið hafa í sjávarútvegi. Stjórnvöld standa því frammi fyrir mikilli áskorun varðandi hagstjórn á næstu misserum og það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra aðila að sem allra minnstur þungi af hagstjórninni verði lagður á peningamálastefnu Seðlabankans. Valið getur staðið um minni opinber umsvif eða hærri vexti.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins