Efnahagsmál - 

09. Júní 2008

Útstreymistilskipun ESB hefur mikil áhrif á flugsamgöngur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Útstreymistilskipun ESB hefur mikil áhrif á flugsamgöngur

Samgönguráðuneytið hefur nú birt skýrslu sem fjallar um áhrif á hagkerfið hér á landi verði tilskipun ESB um að fella flugsamgöngur undir svokallaða útstreymistilskipun sambandsins að veruleika. Skýrslan er samin af starfshópi ráðuneytisins og er meginniðurstaðan sú að áhrifin verði veruleg og hlutfallslega meiri hér en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Í tillögum að tilskipun er gert ráð fyrir að flugfélög fái úthlutað ákveðnum hluta af þeim útstreymisheimildum sem þau þurfa á að halda en verði að kaupa stóran hluta á almennum markaði.

Samgönguráðuneytið hefur nú birt skýrslu sem fjallar um áhrif á hagkerfið hér á landi verði tilskipun ESB um að fella flugsamgöngur undir svokallaða útstreymistilskipun sambandsins að veruleika. Skýrslan er samin af starfshópi ráðuneytisins og er meginniðurstaðan sú að áhrifin verði veruleg og hlutfallslega meiri hér en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Í tillögum að tilskipun er gert ráð fyrir að flugfélög fái úthlutað ákveðnum hluta af þeim útstreymisheimildum sem þau þurfa á að halda en verði að kaupa stóran hluta á almennum markaði.

Gert ráð fyrir að fargjöld hækki og farþegum fækki

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður íslenskra flugrekenda geti orðið á bilinu 36 - 71 milljarðar króna í heild á tímabilinu 2012 - 2020 og ræðst munurinn af því að annars vegar er miðað við að verð á tonni af útstreymisheimildum sé 30 evrur á tonnið og hins vegar 60 evrur á tonn (verðið er nú um 25 evrur á tonn). Líklegt er að hluta af þessum kostnaði verði viðskiptavinir flugfélaganna að bera, bæði flugfarþegar og eins þeir sem kaupa flutning á vörum með flugi. Miðað við þær forsendur sem gefnar eru í skýrslunni geta áhrifin orðið þau að fargjöld hækki um allt að 5% og að farþegum fækki einnig um allt að 5%. Búist er við sambærilegum áhrifum á vöruflutninga.

Áhrif á landsframleiðslu

Í skýrslunni kemur fram að beint og óbeint framlag flugsamgangna til landsframleiðslu er um 2,8% og með afleiddum áhrifum hækkar þetta hlutfall í 5,5%. Bent er á að fækkun ferðamanna geti haft í för með sér töluverð þjóðhagsleg áhrif. Ekki er fjallað um áhrif á þær atvinnugreinar sem beinlínis eru háðar flugsamgöngum til að koma afurðum sínum á erlendan markað. Hér er t.d. átt við útflytjendur á ferskum fiski en ljóst virðist að samkeppnisstaða þeirra versni frá því sem verið hefur þegar þetta kerfi ESB tekur gildi.

Hagsmunir Íslands varðir

Ástæða er til að fagna þessari skýrslu samgönguráðuneytisins og einbeittri viðleitni stjórnvalda til að koma á framfæri hve mjög íslenskt þjóðfélag er háð greiðum, örum og öruggum flugsamgöngum. Mikilvægt er að stjórnvöld haldi þeirri baráttu áfram bæði gagnvart Evrópuþinginu, ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB.

Sjá nánar:

Skýrsla samgönguráðneytisins (PDF)

Fyrri fréttir SA um málið:

ESB hyggst auka álögur á flugsamgöngur (21.12.2006)

Hætta á að flugfargjöld hækki umtalsvert: (6.12.2007)

Samtök atvinnulífsins