Samkeppnishæfni - 

20. Janúar 2006

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda og alþjóðlegt samhengi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda og alþjóðlegt samhengi

Með loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna hafa ríki heims sameinast um að bregðast við þeim vanda sem fylgir útstreymi gróðurhúsalofttegunda með almennum aðgerðum. Með Kyoto-bókuninni við samninginn var að því stefnt að vestræn ríki og nokkur fyrrum austantjaldsríki tækju á sig lögformlegar skuldbindingar um að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá sér á árunum 2008 til 2012 um 5,2% miðað við árið 1990.

Með loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna hafa ríki heims sameinast um að bregðast við þeim vanda sem fylgir útstreymi gróðurhúsalofttegunda með almennum aðgerðum. Með Kyoto-bókuninni við samninginn var að því stefnt að vestræn ríki og nokkur fyrrum austantjaldsríki tækju á sig lögformlegar skuldbindingar um að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá sér á árunum 2008 til 2012 um 5,2% miðað við árið 1990.

Bandaríkin og Ástralía fullgiltu ekki bókunina. Þetta þýðir að raunverulegt markmið um samdrátt losunar er lægra en gert var ráð fyrir þegar um Kyoto-bókunina var samið. Auk þess hafa fyrrum austantjaldsríki rúmar heimildir til losunar sem unnt er að nýta til viðskipta milli ríkja þannig að áhrif Kyoto-bókunarinnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verða næsta lítil þegar upp verður staðið. Áhrif bókunarinnar felast kannski fyrst og fremst í því að vandinn er nú almennt viðurkenndur og að þekking manna á því hve brýnt er að takast á við hann hefur aukist mikið.

Stóraukinni losun spáð

Því er spáð að á næstu árum og áratugum muni útstreymi gróðurhúsalofttegunda aukast mjög mikið í heiminum. Mestur hluti aukningarinnar er talinn verða hjá þeim ríkjum sem ekki tókust á hendur neinar skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Þannig er talið að útstreymið til ársins 2050 aukist um meira en 100% eða úr 34000 milljón tonnum á ári í 72000 milljón tonn. Hlutur þeirra ríkja sem nú eru háð ákvæðum Kyoto-bókunarinnar mun minnka úr um 50% í um 26%. Þótt Evrópuríkjum takist að draga úr útstreymi hjá sér um 100% á tímabilinu þá gæti losun í heiminum samt aukist um rúm 90% ef engir aðrir gera neitt. Áætlanir eða spár sem þessar eru vissulega háðar margs konar óvissu og eru ekki nákvæm vísindi en gefa enga síður góða mynd af því hvert stefnir ef ekki er gripið til aðgerða.

Í töflunni hér að neðan er að finna grófa hlutfallslega skiptingu á útstreymi gróðurhúsaloftegunda eftir svæðum árið 2000 og áætlun fyrir árið 2050.

Útblástur og spá

Upplýsingar í töflunni eru teknar úr skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 9. febrúar 2005. Commission staff working paper. Winning the battle against global climate change. Background paper.

Vandinn sem við er að etja er mikill og vegna þess að almenna reglan hefur verið sú að hagvexti fylgir aukin orkunotkun og um leið aukið útstreymi gróðurhúsalofttegunda þá er erfitt að sjá fyrir sér að ríki sem tiltölulega skammt eru komin á þróunarbrautinni fallist á einhvers konar kvótakerfi þar sem sett er þak á útstreymi þeirra. Tony Blair, forsætisráðherra Breta orðaði þetta reyndar svo þann 1. nóvember sl. í lauslegri þýðingu að "bitur sannleikur um stefnumótun varðandi loftslagsbreytingar er sá að ekkert ríki mun vilja fórna efnahag sínum til að takast á við þennan vanda".

Full þátttaka forsenda árangurs

Það er hins vegar alveg augljóst að það mun enginn árangur nást á þessu sviði nema öll ríki taki þátt í að draga úr útstreymi og mjög mikilvægt að ekki verði einblínt á eina aðferð eins og gert var með Kyoto- bókuninni til að leysa vandann. Ef öll þau ríki sem mest losa og mest koma til með að losa taka ekki þátt í að ná tökum á vandanum er borin von að árangur náist. Þess vegna er það afar mikilvægt að náðst hefur samkomulag um það á fundi aðildarríkja loftslagssamningsins að hefja undirbúning að einhvers konar viðræðum um hvernig skuli taka á málum til lengri tíma.

Eins er það jákvætt að G8-ríkin svokölluðu hafa tekið málið upp á sínum fundum og haldið sameiginlega ráðstefnu með Kína, Indlandi og fleiri ríkjum þar sem hefur komið fram vilji til að tengja það baráttu gegn fátækt í heiminum og auknum alþjóðaviðskiptum. Bandaríkin, Ástralía, Indland, Japan, Kína og Suður Kórea hafa einnig stofnað til samstarfs um að leita að tæknilausnum og deila þeim með öðrum en þar fara ríki sem eru með um helming landsframleiðslu alls heimsins og helming útstreymis gróðurhúsalofttegunda.  

Misjafnt hvaða leiðir henta

Það er einnig ljóst að sams konar aðferðir henta ekki öllum ríkjum. Sum byggja orkuöflun sína að mestu á endurnýjanlegum orkulindum eins og Brasilía og svo Ísland en í flestum öðrum ríkjum verður meginútstreymið til við brennslu kola, olíu og gass til orkuframleiðslu. Í nokkrum ríkjum skiptir kjarnorka miklu máli. Í mörgum ríkjum er breyting á landnotkun sá þáttur sem mestu útstreymi veldur svo sem við að ryðja nýtt land til akuryrkju eða annars landbúnaðar.

Fólksfjölgun skiptir miklu máli því almennt fylgir aukið útstreymi með fjölgun íbúa. Þannig voru þær kröfur sem gerðar voru til Bandaríkjanna í Kyoto-bókuninni um 5% minnkun útstreymis mun strangari en sama krafa á hendur Evrópusambandinu þar sem Bandaríkjamönnum fjölgar mun hraðar en íbúum Evrópusambandsins.

Verðmæt þekking hérlendis

Hlutur Íslendinga í heildarútsreymi gróðurhúsalofttegunda er vissulega smár eða um 0,001% en Íslendingar hafa þó hlutverki að gegna til dæmis með þekkingu sinni á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eins og jarðhita og vatnsafli. Með því að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði geta Íslendingar tekið þátt í og átt frumkvæði að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda langt umfram það sem nemur innlendri losun.

Framlag Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda felst ekki síst í nýtingu innlendra orkulinda til framleiðslu áls og járnblendis. Einungis lítill hluti framleiðslunnar kemur svo til notkunar hér á landi og engin ástæða til að ætla annað en að þessi framleiðslufyrirtæki gætu allt eins verið annars staðar og nýtt þá orkugjafa eins og kol eða annað jarðefnaeldsneyti. Þegar núverandi áform um aukningu þessarar framleiðslu verða komin til framkvæmda eftir þrjú ár eða svo má ætla að útstreymi gróðurhúsalofttegunda gæti verið um 10-13 milljónum tonna meira á ári ef kol væru notuð sem orkugjafi. Hér er um að ræða magn sem er 3,5 sinnum meiri en losun á Íslandi árið 2003.

Víst er að samningar um það sem taka skuli við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur árið 2012 verða vissulega flóknir og erfitt verður að finna eina niðurstöðu sem hentar öllum. Mikilvægast hlýtur þó að verða að ná samstöðu meðal allra stærstu ríkja og efnahagskerfa heimsins um að taka á vandanum og beita til þess pólitískum, tæknilegum, efnahagslegum og viðskiptalegum aðferðum auk þess sem mikilvægt er að búa sig undir áhrif þau sem fylgt geta síauknu útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Samtök atvinnulífsins