Efnahagsmál - 

04. apríl 2002

Útspil Ögmundar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Útspil Ögmundar

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í morgunfréttum útvarps þann 3. apríl að skynsemin mætti ekki gleymast í baráttu manna fyrir að verðbólgan yrði undir rauða strikinu svokallaða. Ástandið væri sumpart farið að minna á þá vísitöluleikfimi sem var stunduð hér í kringum 1980, þegar menn hengu í hitamælinum en gleymdu hitastiginu í herberginu.

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í morgunfréttum útvarps þann 3. apríl að skynsemin mætti ekki gleymast í baráttu manna fyrir að verðbólgan yrði undir rauða strikinu svokallaða. Ástandið væri sumpart farið að minna á þá vísitöluleikfimi sem var stunduð hér í kringum 1980, þegar menn hengu í hitamælinum en gleymdu hitastiginu í herberginu.

Léleg samlíking við 1980
Samlíking við ástand verðlagsmála fyrir tveimur áratugum er ekki sérlega vel til fundin og fátt sameiginlegt nú og þá.   Á þeim tíma geisaði 50% verðbólga á landinu og laun hækkuðu sjálfvirkt um 10-15% á þriggja mánaða fresti til samræmis við verðbólguna.  Verðlagsvísitalan var mæld á þriggja mánaða fresti með mun ófullkomnari aðferðum er nú er beitt.  Aðferðir Hagstofunnar við mælingar á vísitölu neysluverðs einkennast af fagmennsku og sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart stjórnvöldum og hagsmunaaðilum er hafið yfir allan vafa.

Desembersamningur SA og ASÍ
Í desember síðastliðnum sömdu SA og ASÍ um tilteknar breytingar á kjarasamningum.  Breytingarnar eru í meginatriðum þær að ef vísitala neysluverðs verður hærri en 222,5 í mælingunni sem fram fer fyrstu dagan í maí og birt verður 14. maí nk., þá er einstökum stéttarfélögum heimilt að segja upp kjarasamningum sínum og verða þeir þá lausir frá 1. september.  Vísitalan er nú 221,8 og er því aðeins 0,3% frá strikinu.  Ef rauða strikið heldur þá munu tilteknar breytingar verða á lífeyrisframlögum vinnuveitenda í júlí og launahækkun um næstu áramót verður 0,4% hærri en ella.   Í kjarasamningum BSRB eru ákvæði  sem fela í sér að samningar BSRB eru lausir ef samningar losna á almennum markaði og ef um breytingar semjist á almennum markaði þá muni þær teknar til skoðunar.  

Forsendur jafnvægis
Gildandi kjarasamningar hafa það bæði sem forsendu og markmið að verðbólga náist niður á svipað stig og í okkar nágranna- og viðskiptalöndum.   Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa með samkomulagi sínu í desember sl. og samstarfi síðan lagt allt kapp á að það markmið náist sem fyrst.   Samstarfið hefur tvímælalaust átt þátt í þeim árangri að gengi krónunnar hefur styrkst verulega frá því í byrjun desember og verðbólgan fer hratt minnkandi.  Ef samningum verður ekki sagt upp standa allar líkur til þess að við munum ná markmiðinu um svipaða verðbólgu og í viðskiptalöndunum þegar á þessu ári.  Rætur verðbólgu og gengislækkana, spennan í hagkerfinu og viðskiptahallinn eru á undanhaldi, og forsendur jafnvægis hafa skapast á ný.  

Tilgangur Ögmundar
Útspil formanns BSRB er ekki athugasemd frá hlutlausum áhorfanda úti í bæ.  Hún er þvert á móti yfirlýsing af hálfu forystumanns stærstu heildarsamtaka opinberra starfsmanna sem er til þess fallin að varpa rýrð á hið þríhliða samstarf sem tekist hefur milli ASÍ, SA og stjórnvalda um framgang uppsettra markmiða.  Þetta útspil nú minnir hins vegar á þann fleyg sem rekinn var í þríhliða samstarf aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda að sameiginlegum markmiðum í febrúar árið 1991.  Þá komst sú launanefnd sem starfaði á grundvelli samninga á almennum vinnumarkaði að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða af hennar hálfu, enda hefðu forsendur kjarasamninga staðist.  Launanefndir sem störfuðuð á grundvelli samninga opinberra starfsmanna, með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar, komust hins vegar að allt annarri niðurstöðu sem leiddi til meiri kauphækkana og verðbólgu en ella hefði orðið.

Mikilvægi friðar á vinnumarkaði
Mesta ógnunin við það að verðbólgan verði svipuð og í nálægum löndum á næstu misserum og árum eru lausir samningar og átök á vinnumarkaði. Ef það gerist er næsta víst að styrking krónunnar gangi til baka og glíman við verðbólguna muni dragast á langinn.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins