Útlendingaumræða á villigötum

EES samningurinn felur ekki aðeins í sér frjálsa för launafólks. Hann felur einnig í sér frelsi fyrir fyrirtæki til að fara á milli landa með starfsfólk sitt til að veita þjónustu. Það á einnig við um fyrirtæki sem leigja tímabundið út starfsfólk til annarra fyrirtækja, svokallaðar starfsmannaleigur. Þetta frelsi er einn af hornsteinum EES samningsins. Aðildarríkjum EES er því óheimilt að hindra fyrirtækin í að notfæra sér þennan rétt. Vegna ummæla sem höfð hafa verið eftir formanni Verkalýðsfélags Akraness og framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins í fjölmiðlum er rétt að minna á þessar grunnreglur. Það vekur furðu ef talsmönnum stéttarfélaganna er ókunnugt um þær tæpum 12 árum eftir gildistöku EES-samningsins.

Gagnkvæmur réttur

Rétturinn til að veita þjónustu í öðru ríki innan EES er gagnkvæmur og nær því einnig til íslenskra fyrirtækja sem sækja sér verkefni erlendis og nota til þess íslenskt starfsfólk sitt. Hvernig horfa þessar reglur við þeim sem starfa tímabundið erlendis á vegum íslensks vinnuveitenda síns? Er eðlilegt að þess sé krafist að þeir greiði til erlends stéttarfélags eða að um þá gildi þarlendar veikinda- eða  uppsagnarreglur? Það eru þessi atriði sem kvartað hefur verið undan hvað varðar erlent starfsfólk í sömu stöðu hér á landi.

Skýrar reglur um lágmarkskjör

Jafnframt eru í gildi Evrópureglur sem hafa verið innleiddar hér á landi með lögum um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, þ.e. lögum um útsent starfsfólk. Þar er skýrt kveðið á um að um starfskjör þessa fólks gilda íslensk lög að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, vinnuvernd og fleira sem þar er upp talið. Það gildir án tillits til þeirrar erlendu löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband starfsfólksins og hlutaðeigandi fyrirtækis. Starfsfólk sem kemur hingað á vegum erlends vinnuveitanda síns á því að njóta sömu lágmarkskjara að þessu leyti og íslenskir launþegar.

Reglur um lágmarkslaun eru hins vegar fortakslausari hér á landi en í flestum nágrannalöndum okkar. Það helgast af þeirri reglu laga um starfskjör launafólks að laun samkvæmt kjarasamningum skulu vera lágmarkslaun fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein. Í Svíþjóð eru, til dæmis, ekki neinar reglur um lágmarkslaun.

Samningur SA og ASÍ  um meðferð ágreiningsmála

Með samkomulagi SA og ASÍ um útlendinga vorið 2004 var trúnaðarmönnum á vinnustað, eða fulltrúa stéttarfélags sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi, veitt heimild til upplýsinga um laun og önnur starfskjör útlendinga. Í samkomulaginu er einnig markaður ferill varðandi meðferð ágreiningsmála. Sé rökstuddur grunur um brot gegn viðkomandi kjarasamningi eða lögum á trúnaðarmaðurinn rétt á að fá að sjá afrit af viðkomandi gögnum. Samkomulaginu var gefið lagagildi með lögum nr. 154/2004 og tekur því til allra fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi og hafa útlendinga í sinni þjónustu.  SA hafa þó ítrekað borist ábendingar um að þessum leikreglum sé ekki fylgt. Stéttarfélög kalla beint eftir upplýsingum þótt trúnaðarmaður sé á vinnustað og krefjast þess að gögn séu send til stéttarfélagsins. Slíkar kröfur eiga sér ekki stoð í samkomulaginu. 

 

Umræða á villigötum

Danmörk er eitt þeirra ríkja sem horft hefur verið til sem fyrirmyndar og þar sem laun og önnur kjör eru góð á Evrópumælikvarða. Fyrirgangur fyrrgreindra verkalýðsforingja vekur því óneitanlega spurningar um það hvort menn séu tilbúinir til að fara að reglum EES samningsins þegar erlendir þjónustuaðilar eiga í hlut. Það getur ekki talist eðlilegt að íslenskt fyrirtæki sem er þekkt fyrir að fara að lögum og kjarasamningum sé nánast lagt í einelti sökum þess að þar séu starfsmenn danskrar starfsmannaleigu.

Meginágreiningsefnið er hvort íslenska fyrirtækið skuli sjá til þess að skilað sé stéttarfélagsgjöldum til íslensks stéttarfélags af launum hins erlenda starfsfólks. Að mati SA er slík skylda ekki fyrir hendi þegar um er að ræða starfsfólk sem fellur undir lögin um útsent starfsfólk og kemur hingað á vegum vinnuveitenda síns. Þar við bætist að meiri hluti umræddra starfsmanna mun vera í stéttarfélagi í Danmörku.

Afstaða SA

SA leggja áherslu á að erlendu fyrirtækin, hvort sem það eru starfsmannaleigur eða önnur þjónustufyrirtæki, fari að íslenskum reglum sem gilda um starfsemi þeirra hér á landi. Að mati SA er mikilvægt að íslensk fyrirtæki skipti einungis við traustar starfsmannaleigur sem virði lög og kjarasamninga á Íslandi. Gera verður þær kröfur til íslenskra fyrirtækja að þau átti sig á því ef endurgjald þeirra til starfsmannaleigunnar hrekkur bersýnilega ekki til að greiða laun samkvæmt kjarasamningum. Sé rökstuddur grunur um brot hafa SA beint því til aðildarfyrirtækja sinna að hafa milligöngu um að útvega nauðsynleg gögn frá viðkomandi starfsmannaleigu þannig að hægt sé að staðreyna hvort launakjör séu í samræmi við kjarasamninga. Krefjast verður tafarlausrar leiðréttingar ef í ljós kemur að laun eru undir kjarasamningum.

SA telja einnig brýnt að auka upplýsingagjöf til erlendra fyrirtækja. Það skortir einfaldar og skýrar upplýsingar um skyldur þeirra samkvæmt íslenskum lögum og hver þau lágmarkskjör eru sem þeim ber að virða. Fyrirtæki sem starfa á EES svæðinu eru óvön reglum af þessu tagi. Umræðan þarf einnig að verða markvissari og snúa að því sem raunverulega er ábótavant. Það er óþolandi fyrir fyrirtæki sem fara í einu og öllu að lögum og reglum að þurfa að sæta óvæginni og ósanngjarnri blaðaumfjöllunum eða jafnvel lögregluaðgerðum fyrir það eitt að þar starfi útlendingar.