Efnahagsmál - 

04. janúar 2002

Útgjöld utanríkisráðuneytisins hækka mest

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Útgjöld utanríkisráðuneytisins hækka mest

Útgjöld ríkissjóðs hækka um 9% frá fjárlögum fyrir árið 2001 til fjárlaga fyrir árið 2002. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að verðlag samneyslu hækki um 6% frá 2001 til 2002, og miðað við það eru umsvif ríkisins að aukast.

Útgjöld ríkissjóðs hækka um 9% frá fjárlögum fyrir árið 2001 til fjárlaga fyrir árið 2002. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að verðlag samneyslu hækki um 6% frá 2001 til 2002, og miðað við það eru umsvif ríkisins að aukast.

Mest hækka útgjöld utanríkisráðuneytis, eða um 27%. Tæpur helmingur hækkunarinnar stafar af gengis- og launabreytingum, en einnig má nefna fund utanríkisráðherra NATO í vor, íslensku friðargæsluna og aukið framlag til Þróunarsamvinnustofnunar. 

(smellið á myndina)

Þá hækka útgjöld vegna æðstu yfirstjórnar ríkisins um 24%. Auk launa og verðlagshækkana munar mest um smíði þjónustuskála alþingis og aukins rekstrar þess.
 

Útgjöld menntamálaráðuneytis hækka um 19% frá fyrri fjárlögum. Mestu munar um kjarasamninga við framhaldsskólakennara og endurskoðun launa annarra kennara í framhaldi af þeim, en einnig má nefna framlag til þess að efla stjórnun í framhaldsskólum, aukið fé til kennslu og rannsókna í háskólum, til húsaleigu framhaldsskóla, og framlag til ríkisútvarps (vegna hækkaðra afnotagjalda).

Útgjöld dómsmálaráðuneytis hækka um 14% frá fyrri fjárlögum.  Fyrir utan launa- og verðlagshækkanir munar þar um aukið framlag til flutnings opinberra mála.

Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið fer með lang umfangsmesta málaflokkinn, með rúman þriðjung ríkisútgjalda.  Útgjöld þess vaxa um 13% frá fyrri fjárlögum.  Útgjöld félagsmálaráðuneytis vaxa um 12% frá fyrri fjárlögum.

Útgjöld fjármálaráðuneytis lækka um 6% frá fyrri fjárlögum vegna lækkunar lífeyrisskuldbindinga sem kom í ljós á lokadögum þings fyrir jól.

Samtök atvinnulífsins