Efnahagsmál - 

30. september 2009

Úrskurður ráðherra stenst ekki lög

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Úrskurður ráðherra stenst ekki lög

Í fréttum í gær var haft eftir umhverfisráðherra að einungis væri verið að framfylgja lögum og viðhafa góða stjórnsýslu með því að fela Skipulagsstofnun að úrskurða að nýju um hvort fram skuli fara sameiginlegt umhverfismat á suðvesturlínu og tengdum virkjunum og öðrum framkvæmdum.

Í fréttum í gær var haft eftir umhverfisráðherra að einungis væri verið að framfylgja lögum og viðhafa góða stjórnsýslu með því að fela Skipulagsstofnun að úrskurða að nýju um hvort fram skuli fara sameiginlegt umhverfismat á suðvesturlínu og tengdum virkjunum og öðrum framkvæmdum.

Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti er úrskurður ráðherra ekki samkvæmt lögum og virðist vart geta haft neina þýðingu því Skipulagsstofnun hefur þegar gefið út álit sitt um mat á umhverfisáhrifum suðvesturlínu.

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er kærufrestur einn mánuður vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum línulagnarinnar og tengdum framkvæmdum. Úrskurður stofnunarinnar gekk 25. mars og kærufrestur því til 25. apríl. Samkvæmt lögunum hefur umhverfisráðherra síðan tvo mánuði til að kveða upp úr um gildi kærunnar. Þannig átti úrskurður ráðuneytisins lögum samkvæmt að liggja fyrir í lok júní. Það gerðist ekki.

Umhverfisráðherra tók rúmum þremur mánuðum lengri tíma til þess að kveða upp úrskurð en áskilið er í lögum um mat á umhverfisáhrifum (nr. 106/2000).

Þann 17. september sl. gaf Skipulagsstofnun út álit sitt á mati á umhverfisáhrifum suðvesturlínu. Þar kemur fram að matsskýrsla framkvæmdaaðila uppfylli skilyrði laga en að rétt sé leyfisveitendum að setja tiltekin skilyrði fyrir framkvæmdum til þess að draga úr meintum neikvæðum áhrifum þeirra.

Þegar Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt er ekkert í vegi fyrir því að hefja framkvæmdir að fengnum leyfum sveitarfélaga og annara sem leyfi kunna að þurfa að veita. Álit Skipulagsstofnunar er samkvæmt lögum endanlegt og engar heimildir til þess að endurskoða álitið að því gefnu að framkvæmdir hefjist innan 10 ára frá því álitið kom fram.

Þannig virðist blasa við að úrskurður umhverfisráðherra sé dæmi um stjórnsýslu sem ekki virðir tímamörk sem bundin eru í lögum. Ekkert í lögunum heimilar Skipulagsstofnun að taka upp álit sitt á mati á umhverfisáhrifum og sjálfsagt virðist að framkvæmdaaðilar haldi sínu striki óháð þessum úrskurði ráðherra sem er til þess fallinn að tefja, skapa óvissu og um leið spilla fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs.

Það er óviðunandi að fyrirtæki sem undirbúa framkvæmdir, og fara í einu og öllu að lögum, skuli verða fyrir því að ráðherra skuli breyta skilyrðum eftir á og tefla þannig í tvísýnu öllum undirbúningi framkvæmda og valda með ákvörðunum sínum ómældum kostnaði.

Samtök atvinnulífsins