Samkeppnishæfni - 

17. Febrúar 2011

Úrskurðarnefnd virðir ekki lög

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Úrskurðarnefnd virðir ekki lög

Samtök atvinnulífsins hafa kannað hversu langan tíma það tekur úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að kveða upp úrskurði í þeim málum sem þangað er beint. Þau mál sem nefndin fjallar um tengjast meðal annars starfsleyfum fyrirtækja og ýmsum þáttum sem umrædd lög taka til. Aðeins í eitt skipti af 20 hefur úrskurðarnefndin kveðið upp úrskurð innan lögbundinna tímamarka en að meðaltali tók það nefndina 40 vikur að kveða upp úrskurð sinn eða sem nemur tíföldum lögbundnum fresti (4 vikur) í hefðbundum málum.

Samtök atvinnulífsins hafa kannað hversu langan tíma það tekur úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að kveða upp úrskurði í þeim málum sem þangað er beint. Þau mál sem nefndin fjallar um tengjast meðal annars starfsleyfum fyrirtækja og ýmsum þáttum sem umrædd lög taka til. Aðeins í eitt skipti af 20 hefur úrskurðarnefndin kveðið upp úrskurð innan lögbundinna tímamarka en að meðaltali tók það nefndina 40 vikur að kveða upp úrskurð sinn eða sem nemur tíföldum lögbundnum fresti (4 vikur) í hefðbundum málum.

Í viðameiri málum er lögbundinn hámarksfrestur 8 vikur en sá úrskurður sem næstskemmstan tíma tók var kveðinn upp 9 vikum frá kæru. Úrskurðir í 7 málum voru kveðnir upp eftir 3-6 mánuði, í 5 tilvikum eftir 6-9 mánuði, í þremur málum eftir 9-12 mánuði, í einu eftir 16 mánuði, í öðru eftir 27 mánuði og í enn einu eftir 39 mánuði.

Um úrskurðarnefndina, sem skipuð er af umhverfisráðherra, gilda sérstök lagaákvæði um tímafresti sem finna má í 3. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 en þar segir:

"Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að henni berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en átta vikur."

Skoðaðir voru síðustu 20 úrskurðir nefndarinnar sem birtir eru á vefnum (www.rettarheimild.is) og hve langur tími leið frá dagsetningu kæru þar til úrskurður var kveðinn upp.

Umboðsmaður Alþingis kannaði fyrir nokkrum árum þann tíma sem það tók ýmsar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir að komast að niðurstöðu í kærumálum (mál nr. 4193/2004). Þar kom meðal annars fram að það tók úrskurðarnefnd skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir rúmar 30 vikur að kveða upp úrskurði. Svo virðist því sem úrskurðartíminn hafi verið að lengjast og sé nú um 10 vikum lengri en þá.

Það er atvinnulífinu mjög mikilvægt að sá tími sem tekur að fá úrskurði stjórnsýslunnar í einstökum málum sé eins skammur og unnt er. Í því tilviki sem hér er rakið er úrskurðartíminn allt of langur og alveg ljóst að nefndin virðir alls ekki ákvæði laga sem um hana gildir. Það er ljóst að þessi langi afgreiðslutími er verulega íþyngjandi fyrir alla þá sem sækja mál fyrir þessum aðilum. Nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða og tryggi að farið sé að lögum. Ástandið er óviðunandi.

Samtök atvinnulífsins