Vinnumarkaður - 

10. Nóvember 2018

Uppsögnum fer fjölgandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Uppsögnum fer fjölgandi

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins sögðu upp 3.100 starfsmönnum síðustu 90 daga, ef marka má könnun sem Maskína gerði fyrir SA í lok október og úrvinnslu hennar. Fyrirtækin 600, sem þátt tóku í könnuninni, sögðu upp 900 starfsmönnum síðustu 30 daga fyrir gerð könnunarinnar og 1.100 síðustu 90 daga. Séu niðurstöður yfirfærðar á öll aðildarfyrirtæki SA má áætla að þau hafi sagt upp 2.600 starfsmönnum síðustu 30 daga og 3.100 síðustu 90 daga fyrir gerð könnunarinnar.

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins sögðu upp 3.100 starfsmönnum síðustu 90 daga, ef marka má könnun sem Maskína gerði fyrir SA í lok október og úrvinnslu hennar. Fyrirtækin 600, sem þátt tóku í könnuninni, sögðu upp 900 starfsmönnum síðustu 30 daga fyrir gerð könnunarinnar og 1.100 síðustu 90 daga. Séu niðurstöður yfirfærðar á öll aðildarfyrirtæki SA má áætla að þau hafi sagt upp 2.600 starfsmönnum síðustu 30 daga og 3.100 síðustu 90 daga fyrir gerð könnunarinnar.

Síðustu 90 dagarnir fyrir gerð könnunarinnar ná yfir mánuðina ágúst, september og október. Ætla má að uppsagnir yfir sumarmánuðina séu mun færri en aðra mánuði, eins og þessi könnun sýnir glögglega.

Aðildarfyrirtæki SA áforma uppsagnir 2.800 starfsmanna næstu 90 daga
Fyrirtækin sem þátt tóku áætla að 360 starfsmönnum verði sagt upp næstu 30 daga og 1.000 næstu 90 daga. Séu niðurstöðurnar yfirfærðar á öll aðildarfyrirtæki SA má ætla að þau áformi uppsagnir 1.000 starfsmanna næstu 30 daga og 2.800 næstu 90 daga eftir gerð könnunarinnar.

Aðildarfyrirtæki SA sem flokkast útflutningsfyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem flytja vörur og þjónustu til útlanda og fyrirtæki í ferðaþjónustu, hafa rúmlega þriðjung starfsmanna á almennum vinnumarkaði í þjónustu sinni. Útflutningsfyrirtæki eru mun líklegri til þess að fækka starfsfólki næstu 30 daga en fyrirtæki sem starfa einvörðungu á heimamarkaði, en áform þeirra og hinna sem einvörðungu starfa á heimamarkaði eru svipuð næstu 90 daga.

Fleiri uppsagnir nú en fyrir ári
Að mati fyrirtækjanna eru uppsagnir starfsfólks mun fleiri um þessar mundir en á sama tíma í fyrra. 25% fyrirtækjanna telja þær fleiri, 10% færri en 65% að þær séu svipaðar.

Hvorki bjartsýnir né svartsýnir á afkomu fyrirtækjanna
Forsvarsmenn aðildarfyrirtækja SA eru hvorki bjartsýnir né svartsýnir á afkomu fyrirtækjanna, sem þeir stýra, á næsta ári. Útflutningsfyrirtækin eru nokkuð svartsýnni en heimamarkaðsfyrirtækin. Mest svartsýni ríkir í farþega- og vöruflutningum en mest bjartsýni í veitu- og byggingarstarfsemi.

Meginniðurstöður
Meginniðurstöður eru þær að uppsagnir hafa verið miklar undanfarna mánuði og sú þróun haldi áfram næstu mánuði, auk þess að vera mun fleiri en fyrir ári síðan. Ekki er unnt að túlka niðurstöður sem nettófækkun starfa þar sem hvorki var spurt um nýráðningar síðustu mánuði né áform um ráðningar næstu mánuði.

Könnunin og úrvinnslan
Könnunin var gerð af Maskínu meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins í októberlok 2018. Rúmlega 1.700 forsvarsmenn fengu tölvupóst með hlekk á könnunina og svöruðu 612, sem gerir 36% svarhlutfall. Markmiðið var að kanna hvort uppsagnir starfsmanna fari vaxandi um þessar mundir og hvort breyting hafi orðið frá sama tíma í fyrra.

Lagðar voru 6 spurningar fyrir þátttakendur; hvort þeir væru bjartsýnir eða svartsýnir á afkomu fyrirtækjanna sem þeir stýra á næsta ári; hversu mörgum starfsmönnum hafi verið sagt upp síðastliðna 30 og 90 daga; hversu mörgum starfsmönnum áætlað væri að segja upp næstu 30 og 90 daga og hvort uppsagnir væru fleiri eða færri en fyrir ári síðan.

Svörum þátttakenda var skipt eftir atvinnugreinum og niðurstöður fengnar með því að vega svörin með raunverulegu vægi hverrar greinar. Sem dæmi voru 22% svara úr byggingarstarfsemi en vægi greinarinnar í útreikningi niðurstaðna 9%, sem endurspeglar vægi hennar á almennum vinnumarkaði bæði hvað starfsmannafjölda og launagreiðslur varðar.

Samtök atvinnulífsins