Vinnumarkaður - 

06. Oktober 2008

Upplýsingar um innheimtu vegna Endurhæfingarsjóðs

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Upplýsingar um innheimtu vegna Endurhæfingarsjóðs

Í kjarasamningum milli ASÍ og SA sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. var samið um nýtt fyrirkomulag endurhæfingar þar sem skipuleggja á þjónustu og veita úrræði fyrir þá einstaklinga á vinnumarkaði sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta skerðist. Til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu var Endurhæfingarsjóður stofnaður og samkvæmt ofangreindum kjarasamningum þá ber atvinnurekendum að greiða 0,13% af heildarlaunum í sjóðinn frá og með 1. júní 2008.

Í kjarasamningum milli ASÍ og SA sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. var samið um nýtt fyrirkomulag endurhæfingar þar sem skipuleggja á þjónustu og veita úrræði fyrir þá einstaklinga á vinnumarkaði sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta skerðist. Til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu var Endurhæfingarsjóður stofnaður og samkvæmt ofangreindum kjarasamningum þá ber atvinnurekendum að greiða 0,13% af heildarlaunum í sjóðinn frá og með 1. júní 2008.

Í heild sinni miðast samkomulagið við að heildartekjur Endurhæfingarsjóðs verði í framtíðinni 0,39% af öllum launum þar sem ríkissjóður mun leggja til sömu upphæð og launagreiðendur frá 1. Janúar 2009 og stefnt er að því að lífeyrissjóðir bætist síðan við með sama framlag í ársbyrjun 2010.

Þetta samningsákvæði nær til allra félagsmanna í landsamböndum og þeim aðildarfélögum ASÍ sem voru aðilar að ofangreindum samningum, um er að ræða um 80 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði og fleiri eiga væntanlega eftir að bætast við með nýjum samningum. Atvinnurekendum er hins vegar heimilt að greiða fyrir alla starfsmenn sína - óháð félagsaðild og það er nauðsynlegt að gera það ef menn vilja tryggja starfsmönnum sínum rétt til aðstoðar úr sjóðnum. Sjá nánari upplýsingar um aðila þessa samninga á vefsíðum ASÍ og SA.

Innheimta hjá lífeyrissjóðum

Ákveðið var í upphafi að óska eftir því að lífeyrissjóðir taki að sér að innheimta gjaldið.  Ástæða þess að sú leið var farin er m.a. eftirfarandi:

 • Að halda kostnaði og umsýslu við framkvæmd í lágmarki og nýta það innheimtukerfi sem þegar er til staðar hjá lífeyrissjóðunum

 • Til framtíðar er stefnt að því að gjaldið verði lögbundið fyrir alla launamenn og þá munu lífeyrissjóðir vera þeir aðilar sem hafa hvað bestar upplýsingar og forsendur til að innheimta og ganga á eftir greiðslu á þessu gjaldi á sama hátt og innheimtu á eigin iðgjöldum.

 • Lífeyrissjóðir munu taka beinan þátt í verkefninu með framlagi sínu til Endurhæfingarsjóðs frá 1. janúar 2010.

Það hafa komið upp vandamál vegna þessa fyrirkomulags innheimtu og er það einkum tvennt sem veldur:

1.     Það hafa ekki allir lífeyrissjóðir verið tilbúnir til að taka á móti gjaldi í Endurhæfingarsjóð. Hér er um að ræða hluta af þeim lífeyrissjóðum sem ekki tilheyra samningssviði ASÍ og SA. Hins vegar þá er unnið að því þessa dagana að semja við þessa lífeyrissjóði og það bætast sífellt fleiri í hóp þeirra sem taka á móti gjaldi í Endurhæfingarsjóð. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir þá sjóði sem eru farnir að taka á móti gjaldinu m.v. mánaðamótin sept.-okt. 2008. Fleiri sjóðir munu væntanlega bætas við á næstu vikum og tilkynna það þá sérstaklega til launagreiðenda. Á væntanlegri heimasíðu Endurhæfingarsjóðs mun líka verða uppfærður listi yfir þá lífeyrissjóði sem taka á móti gjaldi í Endurhæfingarsjóð á hverjum tíma

2.     Gjaldið á sér stoð í kjarasamningum stéttarfélaga en ekki er alltaf beint samband á milli aðildar að stéttarfélagi og tilteknum lífeyrissjóði. Þetta getur eðlilega valdið nokkurri flækju. Vegna þessa þá hafa sumir atvinnurekendur farið þá leið að skila gjaldi til stéttarfélags starfsmanna í stað lífeyrissjóðs. Það er hins vegar ekki rétt og það er mjög mikilvægt að atvinnurekendur skili gjaldi til lífeyrissjóðs viðkomandi starfsmanns en ekki til stéttarfélagsins. Það eru engir samningar til staðar á milli Endurhæfingarsjóðs og stéttarfélaga um innheimtu.

Fyrirkomulag ef lífeyrissjóður tekur ekki við greiðslu

Ef lífeyrissjóður starfsmanns tekur ekki við gjaldi í Endurhæfingarsjóð þá ber að skila því beint til Endurhæfingarsjóðs samkvæmt eftirfarandi upplýsingum:

 • Bankareikningur

  Endurhæfingarsjóðs: 515-4-251520.

 • Kennitala

  Endurhæfingarsjóðs: 440608-0510

 • Mikilvægt er að skilagrein fylgi greiðslu

  og henni má skila til Endurhæfingarsjóðs í tölvupósti á netfangið soffia@virk.is eða senda hana í pósti til Endurhæfingarsjóðs, Sætúni 1, 105 Reykjavík. Skilagreinar þurfa að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

 • Nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns

 • Fjárhæð greiðslu

 • Tímabil greiðslu

Einungis skila greiðslum beint til Endurhæfingarsjóðs ef lífeyrissjóður viðkomandi starfsmanns tekur ekki við greiðslum.

Nú þegar hefur verið samið við langflesta stóru lífeyrissjóði landsins um móttöku eða innheimtu á gjaldi til Endurhæfingarsjóðs og eins og áður hefur komið fram er stefnt að því að ná slíkum samningum við alla lífeyrissjóði landsins.

Lífeyrissjóðir sem taka á móti greiðslum í Endurhæfingarsjóð

Hér á eftir eru taldir upp þeir lífeyrissjóðir sem taka á móti greiðslum í Endurhæfingarsjóð:

 • Lífeyrissjóður Verslunarmanna

 • Gildi lífeyrissjóður

 • Stapi lífeyrissjóður

 • Sameinaði lífeyrissjóðurinn

 • Stafir lífeyrissjóður

 • Festa lífeyrissjóður

 • Eftirlaunasjóður F.I.A

 • Lífeyrissjóður Vestfirðinga

 • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja

 • Lífeyrissjóður Rangæinga

 • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

 • Almenni lífeyrissjóðurinn

 • Lífeyrissjóður Bænda

 • Lífeyrissjóður verkfræðinga

Unnið er að semja við fleiri sjóði og stefnt að því að allir lífeyrissjóðir muni í framtíðinni taka á móti gjaldið í Endurhæfingarsjóð.

Nánari upplýsingar

Ef launagreiðendum vantar nánari upplýsingar varðandi gjald í Endurhæfingarsjóð þá eru þeir hvattir til að snúa sér beint til sjóðsins.  

Upplýsingar um heimilisfang, símanúmer, póstföng og helstu tengiliði eru eftirfarandi:

Heimilisfang: Sætún 1, 105 Reykjavík

Símanúmer: 5355700

Umsjón með innheimtu hefur Soffia Vernharðsdóttir, tölvupóstfang: soffia@virk.is

Framkvæmdastjóri er Vigdís Jónsdóttir, tölvupóstfang: vigdis@virk.is

Unnið er að gerð heimasíðu fyrir Endurhæfingarsjóð. Virk.is verður það lén sem sjóðurinn mun nota (einnig verður hægt að komast á síðuna með því að skrá endurhaefingarsjodur.is). Stefnt er að því að heimasíðan verði gangsett í október. Á heimasíðunni verða uppfærðar upplýsingar er varða innheimtuna á hverjum tíma.

Samtök atvinnulífsins