Samkeppnishæfni - 

12. september 2013

Unnt að hagræða og draga úr kostnaði við eftirlit og leyfisveitingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Unnt að hagræða og draga úr kostnaði við eftirlit og leyfisveitingar

Enginn vafi er á því að miklir möguleikar liggja í hagræðingu hjá þeim stofnunum sem hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Fjölmargir aðilar gera út af örkinni eftirlitsmenn sem taka út ákveðinn hluta af starfseminni. Eftirlitið er meira eða minna sambærilegt og beinist að því að skoða hvort tiltekinn búnaður, vara eða þjónusta uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglum. Beinn kostnaður við eftirlitsstofnanir er af stærðargráðunni 15 - 20 milljarðar króna á ári eða rúmt 1% af landsframleiðslu. Stór hluti þessa kostnaðar er innheimtur af fyrirtækjunum í landinu.

Enginn vafi er á því að miklir möguleikar liggja í hagræðingu hjá þeim stofnunum sem hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Fjölmargir aðilar gera út af örkinni eftirlitsmenn sem taka út ákveðinn hluta af starfseminni. Eftirlitið er meira eða minna sambærilegt og beinist að því að skoða hvort tiltekinn búnaður, vara eða þjónusta uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglum. Beinn kostnaður við eftirlitsstofnanir er af stærðargráðunni 15 - 20 milljarðar króna á ári eða rúmt 1% af landsframleiðslu. Stór hluti þessa kostnaðar er innheimtur af fyrirtækjunum í landinu.

Það er fjölmennur hópur eftirlitsfólks sem heimsækir fyrirtækin. Einn tekur út lyftuna í húsinu, annar kaffistofu starfsmanna, þriðji athugar almennt hreinlæti, fjórði skoðar hvort vogir séu rétt stilltar, sá fimmti hvort afurðirnar séu hæfar til manneldis og sá sjötti hvort þær megi flytja úr landi. Sá sjöundi skoðar hvort búnaður vinnuvélanna sé í lagi og svo þarf að færa til þess áttunda ökutækin sem staðfestir að þau megi aka á vegum landsins. Sá níundi kemur og athugar hvort tækin sem seld eru séu með CE- merkingu og sá tíundi hvort mengunin sé innan marka, sá ellefti hvort matvælin séu rétt merkt og sá tólfti hvort fjarskiptatækin starfi eins og þeim er ætlað.

Öðru hverju koma svo sendinefndir frá Eftirlitsstofnun EFTA sem athuga hvort allt eftirlitið sé fullnægjandi.

Leyfi sem sækja þarf um eru ótal mörg og reglurnar sem uppfylla þarf eru fleiri en komið verði á tölu. Enginn veit hve margar þær eru en þær skipta tugum þúsunda. Á hverju ári þurfa fyrirtækin að laga sig að fjölmörgum nýjum og breyttum reglum. Að auki þurfa fyrirtækin að svara ýmsum fyrirspurnum frá yfirvöldum, skila skýrslum og láta af hendi töluleg gögn. Það er þörf á reglum og allar hafa þær jákvæð markmið en heildaráhrif þeirra eru mikill kostnaður og mikill tími fer í að sinna þeim hjá fyrirtækjunum.

Þetta leiðir til þess að við þeim, sem vilja stofna til nýs reksturs, blasir oftar en ekki ókleifur veggur þar sem sækja þarf um leyfi hjá mörgum aðilum. Einungis í undantekningartilvikum er unnt að sækja um leyfi á einum stað. Ekki er heldur að finna á einum stað upplýsingar um þær kröfur sem fyrirtækin þurfa að uppfylla í starfsemi sinni. Smám saman hefur þróunin orðið sú að hvergi á Vesturlöndum er jafn stór hluti atvinnustarfseminnar leyfisbundinn og hér á landi. Með sama áframhaldi verður atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hjóm eitt.

Liður í því að greiða fyrir nýjum fyrirtækjum er að samræma, einfalda og fækka leyfum. Í flestum tilvikum ætti að nægja að tilkynna um nýja starfsemi á einum stað. Þeir opinberu aðilar sem telja sig þurfa að fylgjast með starfseminni geta þá gripið til viðeigandi aðgerða.

Það blasir við að hátt flækjustig regluverksins dregur úr vexti fyrirtækja og heldur aftur af stofnun nýrra. Þess vegna er svo brýnt að minnka ónauðsynlegt flækjustig og kostnað fyrirtækja við að fylgja reglum.

Allar eftirlitsstofnanir hafa verið settar á fót með lögum, ein af annarri, og starfsemi þeirra heyrir undir hin ýmsu ráðuneyti. Beinn kostnaður við stofnanirnar er af stærðargráðunni 15 - 20 milljarðar króna á ári eða rúmt 1% af landsframleiðslu. Stór hluti þessa kostnaðar er innheimtur af fyrirtækjunum í landinu. Samt er þá ótalinn kostnaður fyrirtækja við að sinna fólkinu við eftirlitið  þegar það kemur í heimsókn og þeirri skriffinnsku sem í kjölfarið fylgir. Það verður ekki séð að starfsemi eftirlitsins hafi dregist mikið saman frá bankahruninu. Þvert á móti virðist sem heimildir þeirra til að innheimta gjöld af fyrirtækjum hafi aukist og að margar hafi hækkað gjaldskrár sínar verulega.

Dæmi má nefna af tímagjaldi einnar stofnunar sem var 7.084 krónur við eftirlitsheimsókn í apríl 2012. Við heimsókn í sama fyrirtæki í janúar á þessu ári var tímagjaldið komið í 20.870 krónur. Gjaldið hafði þrefaldast á þessum 9 mánuðum.

Samtök atvinnulífsins hafa lengi kallað eftir því að eftirlit með atvinnulífinu  verði endurskoðað, stofnanir verði sameinaðar og dregið úr kostnaði. Það er ekki verið að kalla eftir því að dregið verði úr efnislegum kröfum til fyrirtækjanna heldur að beitt verði nútímalegum aðferðum við eftirlitið, dregið úr skörun og reynt að gæta ýtrustu hagkvæmni.

Það eru atvinnurekendurnir sjálfir sem bera ábyrgð á sínum rekstri, framleiðslu sinni og þjónustu. Það eru þeir

sem verða fyrir tjóni ef eitthvað bregður út af í rekstrinum og það er þeirra hagur að starfa í samræmi við lög og reglur. Það er hins vegar mikill misskilningur að opinbert eftirlit, sama hve umfangsmikið það er, geti komið í veg fyrir alla ágalla í búnaði, vöru eða þjónustu.

Íslenskt samfélag þarf á því að halda að sem flestir vilji stofna fyrirtæki og að gata þeirra sé greidd. Fólk þarf að geta hafið rekstur og tekið áhættu með uppbyggingu nýrrar starfsemi.  Þannig þróast samfélagið áfram, ný verðmæti verða til og störf skapast.

Samtök atvinnulífsins