23. Maí 2022

Leiguþak eða sprengjuárás?

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Leiguþak eða sprengjuárás?

Undanfarin tvö ár hefur verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 36% á meðan leiguverð hefur hækkað um 6%. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 18%. Þrátt fyrir að leiguverð hafi hvorki haldið í við almennt verðlag, laun né húsnæðisverð dúkka nú upp endurvaktar hugmyndir um verðstýringu á leigumarkaði.

Hugmyndin um leiguþak sem lausn á íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda byggir á þeirri skammsýnu ranghugmynd að yfirvöld geti stýrt verði á leigumarkaði án þess að það hafi áhrif á magn eða gæði íbúða á markaði. Hún er hins vegar skólabókardæmi um það hvernig vanhugsaðar stefnur leiða til þess að ástandið sem ætlað er að bæta úr verður enn verra – nema hugsanlega til skamms tíma fyrir þau fáu útvöldu sem hreppa hin verðstýrðu gæði. Þetta segja bæði fræðin og reynsla okkur.

Nýleg þróun íbúðaverðs og fyrirséður aðflutningur fólks gefur til kynna að frekari verðhækkana sé að vænta á leigumarkaði. Eina skynsamlega lausnin við því er að stórauka framboð íbúða. Leiguþak hefði þveröfug áhrif með því að draga úr fjárhagslegum hvata til að bæði byggja og leigja út íbúðir. Ávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis er ekki mikil sem stendur og yrði enn minni ef leiguþak yrði innleitt. Augljós afleiðing þess er að leiguíbúðum á þegar smáum markaði myndi fækka og dregið yrði úr viðhaldi og endurbótum á því húsnæði sem eftir stæði.

Sænski hagfræðingurinn Assar Lindbeck gagnrýndi hugmyndir um leiguþak með fleygum orðum fyrir um hálfri öld: „Í mörgum tilvikum virðist leiguþak vera skilvirkasta leiðin til að eyðileggja borg, fyrir utan sprengjuárásir.” Orð Lindbeck eiga enn vel við. Því er með miklum ólíkindum að þessi afleita hugmynd sé ekki geymd á sorphaugum sögunnar þar sem hún á réttilega heima.

Greinin birtist fyrst sem endahnútur Viðskiptablaðsins, 19. maí 2022

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins