Umtalsverðar launahækkanir á Norðurlöndunum

Kjarasamningar á öllum Norðurlöndum hafa verið endurnýjaðir á þessu ári að Íslandi undanskildu. Launabreytingar á Norðurlöndum hafa undanfarin ár verið nokkuð meiri en í samkeppnisríkjunum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd:

 Smelltu á myndina

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Samtök atvinnurekenda í hverju landi fyrir sig settu sér þau markmið í samningaviðræðunum að launabreytingar yrðu svipaðar og verið hafa á meginlandi Evrópu undanfarin ár en vegna aðstæðna á vinnumarkaði, einkum mikillar eftirspurnar eftir starfsfólki í mörgum greinum, tókst það ekki. Hækkanir urðu meiri en stefnt var að af þeirra hálfu og munu launabreytingar að öllum líkindum halda áfram í svipuðum takti og undanfarin ár. Það skipti einnig máli í þessu sambandi að kjarasamningar í Þýskalandi vorið 2007, sem gerðir voru til eins árs, fólu í sér 3,5% hækkun launa.

Svíþjóð

Samningalotan náði að þessu sinni til næstum alls vinnumarkaðarins, bæði hins almenna og opinbera. Samningar á almenna markaðnum runnu út 31. mars síðastliðinn en 30. júní hjá sveitarfélögunum. Samningar ríkisstarfsmanna renna út 30. september næstkomandi.

Sænsku samtök atvinnulífsins og aðildarfélög þess höfðu fyrir samningsgerðina sameinast um markmið og leiðir. Sænska alþýðusambandið og aðildarfélög þess höfðu einnig sameinast um markmið og aukið samstarf miðað við það sem fyrr hafði verið.

Þau markmið sem sænsku samtök atvinnulífsins settu voru þau að breyting launakostnaðar yrði til þess að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja og auka svigrúm til hækkana á einstökum vinnustöðum í stað almennra launahækkana. Sérstökum hækkunum lægstu launataxta var hafnað ásamt styttingu vinnutíma og hækkun launakostnaðar fyrir óunninn tíma, s.s. lengra orlof.

Verkalýðshreyfingin krafðist 3,9% árlegrar launahækkunar og launaþróunartryggingar á  einstaklingsgrundvelli. Þá var krafist jafnlaunapotts fyrir konur og sérstakrar hækkunar lægstu launataxta.

Niðurstaða samninganna varð samningstími til þriggja ára sem rennur út 31. mars 2010 hjá öllum stéttarfélögum. Þó er unnt að segja upp samningum síðasta árið. Samið var um eins mánaðar lengingu foreldraorlofs en vinnutími var ekki styttur. Launakostnaður eykst að jafnaði um 3,4% á ári eða um 10,2% á samningstímanum í heild. Til samanburðar jókst kostnaður um 2,6% jafnaði í samningunum 2004 og 2,8% í samningunum 2001. Lægstu taxtarnir hækkuðu frá 8% til 16% á þriggja ára samningstíma.

Að mati sænsku samtaka atvinnulífsins náðust markmið samtakanna ekki þar sem launakostnaður eykst of mikið að þeirra mati, lægstu laun hækka of mikið og of lítið svigrúm var skilið eftir fyrir launamyndun innan fyrirtækja. Afskipti sáttasemjara voru tíð, 14 verkföll voru boðuð og 3 verkföll skullu á.

Danmörk

Í Danmörku voru gerðir samningar á almenna markaðnum í apríl 2007 til þriggja ára og renna þeir út í lok mars 2010. Auk hækkana launataxta var samið um aukin framlög í lífeyrissjóði (1,2%), aukið launað frí, og greiðslur í fæðingarorlofi og veikindum.  Launataxtarnir hækka um 2,7% á ári að jafnaði eða um 8,4% á þremur árum en að viðbættum óbeinum launakostnaði hækkar heildarlaunakostnaður um 3,6% að jafnaði árlega eða 11,3% á þriggja ára samningstíma.

Finnland

Í Finnlandi var almennt samið til rúmlega 2 ½ árs og er samningstíminn frá júní 2007 til fyrsta ársfjórðungs 2010. Fjármálageirinn samdi þó til fjögurra ára, til maíloka 2011, en með uppsagnarheimildum eftir tvö og þrjú ár. Samningarnir, sem gerðir eru á atvinnugreinagrundvelli, voru almennt á þeim nótum að fyrst kemur til eingreiðsla, 250 evrur (liðlega 20.000 kr.) en síðan kemur almenn launahækkun 2,4% þann 1. október 2007. Árið 2008 verður almenn hækkun 2,5% þann 1. september og að auki 0,4% launapottur sem deilt er út innan fyrirtækja. Ef ekki næst samkomulag þá fer helmingurinn í almenna hækkun og hinn helmingurinn skiptist samkvæmt ákvörðun fyrirtækis. Þann 1. maí 2009 verður almenn hækkun 2,4% og 0,4% launapottur að auki. 

 Smelltu á myndina

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Noregur

Í Noregi eru í gildi samningar milli heildarsamtakanna á vinnumarkaðnum sem gilda frá ársbyrjun 2006 til ársloka 2009 en samningar eru gerðir á samningstímanum um launabreytingar, svokölluð milliuppgjör. Árið 2006 var almenn hækkun 1,5% og 1,8% árið 2007 og að meðtöldu launaskriði er áætlað að launabreytingar í heild verði 4,5% árið 2007.