Umtalsverð lækkun stýrivaxta nauðsynleg (1)

 "Ef við fáum ekki umtalsverða vaxtalækkun þýðir ekkert að tala um launahækkanir," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í Fréttablaðinu í dag. Viðræður um stöðugleikasáttmála héldu áfram milli SA, ASÍ og hins opinbera í gær. Rætt var við fulltrúa sveitarfélaga og forystumenn ríkisstjórnarinnar. Vilhjálmur segist hafa lagt áherslu á að fjárlagahallanum verði náð hraðar niður og fjárhagsáætlanir gerðar til þriggja ára. Einnig hafi verið talað um aðkomu lífeyrissjóða að atvinnulífinu. Beðið er ákvörðunar Seðlabankans um stýrivexti.

Fréttastofa RÚV ræddi við Vilhjálm í gær fyrir fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar í gærkvöld. Vilhjálmur lagði mikla áherslu á að starfsumhverfi fyrirtækja á næstu mánuðum og misserum verði bætt. Ákvörðun Seðlabankans um stýrivexti á fimmtudaginn skipti sköpum um framhald viðræðna. Vilhjálmur undirstrikaði að fyrirtækin í landinu verði að fá einhvern grundvöll til þess að starfa á og þeir stýrivextir sem landsmenn búi við í dag ásamt vaxtastigi sé ekki sá grundvöllur. Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að mörg fyrirtæki séu uggandi yfir óvissu á vinnumarkaði og sjái ekki hvernig hægt verði að greiða út launahækkanir.

Á fundi aðila í gær var rætt um stöðu sveitarfélaganna en hún er mjög erfið um þessar mundir. Svo virðist að það sé undantekning fremur en regla að rekstur sveitarfélaga á síðasta ári hafi verið ásættanlegur. Viðbúið er að bregðast verði við hallarekstri sveitarfélaga með afgerandi hætti. Mikill niðurskurður bíður jafnframt í ríkisfjármálunum, en samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins þarf að skera niður um 20 milljarða á þessu ári, um 56 milljarða árið 2010 og 43 milljarða árið 2011.

Sjá nánar:

Sjónvarpsfrétt RÚV 2. júní

Frétt Stöðvar 2- 2. júní

Vefútgáfa Fréttablaðsins 3. júní

Sjá einnig:

Frétt SA 30. maí: Óbreyttar launahækkanir ekki í myndinni