16. mars 2022

Umsóknir um veitinga-, viðspyrnu- og lokunarstyrki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umsóknir um veitinga-, viðspyrnu- og lokunarstyrki

Á þjónustuvef Skattsins hefur nú verið opnað fyrir umsóknir um svo kallaða veitingastyrki samkvæmt lögum nr. 8/2022 . Styrkirnir eru ætlaðir þeim rekstraraðilum sem starfrækja veitinga- eða gististað og eru með vínveitingaleyfi.

Rekstraraðili þarf að hafa fengið rekstrarleyfi og hafið starfsemi fyrir 1. desember 2021 og hafa sætt takmörkun á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Þá þarf tekjufall sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru að hafa verið a.m.k. 20% auk þess sem uppfylla þarf ýmis önnur skilyrði sem koma fram í 4. gr. laganna.

Veitingastyrkur er greiddur vegna rekstrar á tímabilinu nóvember 2021 til og með mars 2022.

Ef umsækjandi um veitingastyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu Skattsins og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum er verið að leggja lokahönd á leiðbeiningar við umsókn sem birtast mun á COVID-19 síðum Skattsins en umsóknin er alveg sambærileg við umsóknir um fyrri covid styrki. Umsóknir um veitingastyrki þurfa að berast eigi síðar en 30. júní 2022.

Viðspyrnustyrkir

Samtök atvinnulífsins fengu nokkrar ábendingar frá litlum og meðalstórum atvinnurekendum sem láðist að sækja um viðspyrnustyrki 2021. Samþykkt hefur verið að opna aftur fyrir umsóknir fyrir rekstrartímabilið ágúst til og með nóvember 2021. Þá var einnig samþykkt að framlengja heildartímabilið frá 1. desember 2021 til og með mars 2022, sjá samþykkt lög hér . Skilyrði viðspyrnustyrkja eru tilgreind í 4. grein samnefndra laga nr. 160/2020 . Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum verða umsóknir vegna þessa tilbúnar í lok þessa mánaðar eða í byrjun apríl.

Lokunarstyrkur

Opið er á umsóknir um lokunarstyrki til handa þeim rekstraraðilum sem gert var að stöðva starfsemi sína frá 15. til 28. janúar 2022. Kallað lokunarstyrkur 7. Aðferðin er alveg sú sama og áður, sótt um í gegnum þjónustusíðu hjá Skattinum – og umsóknin sambærileg við fyrri umsóknir. Nánari upplýsingar um lokunarstyrki má nálgast á heimasíðu Skattsins .

Ef einhverjar spurningar vakna um framangreind úrræði eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við Skattinn.

Samtök atvinnulífsins