Umsögn SA um drög að frumvarpi um almannatryggingar

Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að frumvarpið verði samþykkt. Frumvarpið felur annars vegar í sér brýnar umbætur á bótakerfi ellilífeyrisþega, hægfara hækkun lífeyrisaldurs, sveigjanleika við töku hans og möguleika á hálfum lífeyri með frestun hins hlutans og hins vegar þriggja ára aðlögun að upptöku starfsgetumats í stað örorkumats sem löngu er orðin tímabær. Tillögur frumvarpsins byggja á samfelldu, fjölskipuðu nefndarstarfi í rúman áratug og tímabært að Alþingi ljúki því með lögfestingu niðurstöðu þessa mikla starfs. Verði frumvarpið ekki lögfest á þessu þingi er líklegt að málefni þess lendi enn á ný í hringuiði kosniongabarátturnnar fyrir komandi kosningar til Alþingis og þeim langtímamarkmiðum sem frumvarpinu er ætlað að ná verði fórnað.   

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir miklum áskorunum vegna hækkandi lífaldurs og mikillar tíðni örorku. Erfitt verður að manna öll störf sem verða til á vinnumarkaðnum næstu árin og áratugina með náttúrulegri fjölgun íbúa landsins. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast varanlega um 5 milljarða króna á ári en ávinningur ríkissjóðs og samfélagsins alls af hækkun lífeyrisaldurs og aukinni atvinnuþátttöku eldri starfsmanna vegna hlutabóta vegur þar á móti, en hann kemur fram á löngum tíma. 

Þá mun upptaka starfsgetumats leiða til aukinnar atvinnuþátttöku og minni greiðslna örorkulífeyris og draga þannig úr útgjöldum ríkissjóðs til lengri tíma. Samtök atvinnulífsins eru algerlega andvíg því að fjármagna auknar lífeyrisgreiðslur með hækkun tryggingagjalds og telja að afleiðingar breyttrar aldurssamsetningar og mikillar tíðni örorku eigi ekki að leggja á þennan skattstofn. Framlög atvinnulífsins til lífeyrisgreiðslna hafa stóraukist á undanförnum árum með hækkunum iðgjalda til uppbyggingar lífeyrissparnaðar; fyrst með kjarasamningum um 2% mótframlag launagreiðenda vegna séreignasparnaðar árið 2003, síðan með hækkun iðgjalds launagreiðenda til samtryggingarlífeyrissjóða úr 6% í 8% árið 2004 og síðan hækkun þess úr 8% í 11,5% með kjarasamningi í janúar síðastliðnum.

Sjá umsögn Samtaka atvinnulífsins (PDF)