Efnahagsmál - 

26. janúar 2010

Umsögn SA til Samkeppniseftirlitsins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umsögn SA til Samkeppniseftirlitsins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja

Samtök atvinnulífisins hafa sent Samkeppniseftirlitinu umsögn um umræðuskjal stofnunarinnar sem fjallar um banka og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, skuldavanda íslenskra fyrirtækja og samkeppnisleg álitaefni tengd honum. SA telja jákvætt að Samkeppniseftirlitið hafi sett fram góða greiningu á flóknu úrlausnarefni en benda á að svör skorti við því hvernig leysa eigi úr raunverulegum málum. Þá telja SA óviðeigandi að stofnunin óski eftir auknum valdheimildum í umræddu umræðuskjali til að skipta upp fyrirtækjum en fyrir því eru engar efnislegar forsendur.

Samtök atvinnulífisins hafa sent Samkeppniseftirlitinu umsögn um umræðuskjal stofnunarinnar sem fjallar um banka og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, skuldavanda íslenskra fyrirtækja og samkeppnisleg álitaefni tengd honum. SA telja jákvætt að Samkeppniseftirlitið hafi sett fram góða greiningu á flóknu úrlausnarefni en benda á að svör skorti við því hvernig leysa eigi úr raunverulegum málum. Þá telja SA óviðeigandi að stofnunin óski eftir auknum valdheimildum í umræddu umræðuskjali til að skipta upp fyrirtækjum en fyrir því eru engar efnislegar forsendur.

Í umsögn SA segir m.a. að samtökin taki undir þá skoðun Samkeppniseftirlitsins að einungis eigi að koma til aðstoðar fyrirtækjum sem eigi sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur og forðast beri að endurreisa eða halda gangandi óhagkvæmum fyrirtækjum. Jafnframt sé nauðsynlegt að bregðast hratt við skuldavanda rekstrarhæfra fyrirtækja og það geti verið atvinnulífi og almenningi til hagsbóta að bankar afskrifi skuldir eða dragi með öðrum hætti úr skuldabyrði rekstrarhæfra fyrirtækja enda sé slík ákvörðun almennt ekki gagnrýnisverð út frá ákvæðum samkeppnislaga svo framarlega sem hún er byggð á málefnalegum og viðskiptalegum forsendum.

Þá taka SA undir það sjónarmið að bankar verði að gera skýra arðsemiskröfu til endurskipulagðra fyrirtækja og nauðsynlegt sé að bankar fylgi skýrum verklagsreglum sem byggi á faglegum vinnubrögðum og jafnræði. Þá beri bönkum að selja endurskipulögð fyrirtæki sem þeir eignast hlut í svo fljótt sem auðið er í gagnsæju ferli og nýta eftir því sem mögulegt er skráningu í kauphöll í því sambandi.

Samtök atvinnulífsins gera hins vegar eftirfarandi athugasemd:

"Samtök atvinnulífsins eru sammála því að samkeppnislögin eigi fyrst og fremst að vernda samkeppni en ekki keppinauta. Það er hins vegar alvarlegur misskilningur sem fram kemur í umræðuskjalinu að þar með beri að taka kvörtunum og kröfum fyrirtækja um jafnræði eða eðlileg samkeppnisskilyrði "með fyrirvara". Samkeppnisyfirvöld eiga þvert á móti að hlýða með athygli á umkvartanir fyrirtækja um brot á samkeppnislögum og leitast eftir föngum við að bæta þar úr, þegar slíkar umkvartanir eru á rökum reistar. Til þess að auka tiltrú á framkvæmd samkeppnislaga er raunar mikilvægt að samkeppnisyfirvöld upplýsi án óeðlilegrar tafar þá sem til þeirra beina kvörtunum hvort eða hvernig þau hyggist bregðast við þeim."

Þá eru SA algjörlega ósammála þeim sjónarmiðum Samkeppniseftirlitsins að heimildir skorti til handa Samkeppniseftirlitinu til þess að skipta upp fyrirtækjum. Um þetta segir í umsögninni:

"Samtök atvinnulífsins eru algjörlega ósammála þessum sjónarmiðum. Engan rökstuðning er að finna fyrir þeim í 2. kafla skýrslunnar, þ.e. þeim kafla sem leitað er umsagnar um, en röksemdirnar koma hins vegar fram í kafla 4.5. Að mati Samtaka atvinnulífsins standast þær hins vegar ekki skoðun. Minnt er á að löggjafinn ákvað eftir ítarlega skoðun við setningu nýrra samkeppnislaga árið 2005 að fella niður nákvæmlega þá heimild sem nú er á ný kallað eftir af hálfu Samkeppniseftirlitsins, en samkvæmt c-lið 17. gr. eldri samkeppnislaga var samkeppnisráði heimilt að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni, án þess að krafa væri gerð um að slík íhlutun byggðist á broti á bannákvæðum samkeppnislaga. Þess í stað var lögfest í 16. gr. gildandi samkeppnislaga að Samkeppniseftirlitinu er heimilt að grípa til aðgerða vegna brota á bannákvæðum samkeppnislaga, auk möguleika á setningu skilyrða við samruna fyrirtækja. Ástæða lagabreytingarinnar var skýr; ákvæði c-liðar 17. gr. þágildandi samkeppnislaga var vægast sagt mjög umdeilt og þótti óeðlilega opið. Kemur þetta skýrt fram í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 44/2005, þar sem segir um helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér:

"Lagt er til að Samkeppniseftirlitið fái skýrar lagaheimildir til þess að krefjast þess að fyrirtæki sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga breyti skipulagi sínu. Jafnframt er lagt til að c-liður 17. gr. gildandi samkeppnislaga sem veitir samkeppnisráði heimild til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni verði felldur brott þar sem talið er að ef ákvæðið yrði óbreytt í lögum yrðu heimildir Samkeppniseftirlitsins til að krefjast skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum of víðtækar."

Í umræðuskjalinu er viðurkennt að ákvæði 16. gr. gildandi samkeppnislaga séu í samræmi við Evrópurétt og heimildir samkeppnisyfirvalda í ýmsum Evrópulöndum. Hins vegar hafi samkeppnisyfirvöld í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi víðtækari heimildir og ákvæði EES-samningsins komi ekki í veg fyrir að íslensk samkeppnisyfirvöld fái einnig víðtækari heimildir en Evrópuréttur kveður á um. Upplýsingar um þetta efni lágu hins vegar allar fyrir og voru færðar fram þegar samkeppnislög nr. 44/2005 voru sett, enda er það svo að tilvísanir Samkeppniseftirlitsins í kafla 4.5 í umræðuskjalinu eru nánast allar í skjöl sem eru eldri en gildandi samkeppnislög. Frá setningu gildandi samkeppnislaga í maí 2005 hafa m.ö.o. engar mikilvægar breytingar átt sér stað á samkeppnisrétti tilgreindra landa sem mæla með þeirri breytingu sem Samkeppniseftirlitið leggur til. Engar aðrar efnislegar röksemdir er að finna í umræðuskjalinu sem mæla með þeim auknu valdheimildum sem Samkeppniseftirlitið óskar eftir. Í ljósi þessa vekur tillaga Samkeppniseftirlitsins undrun. Með hliðsjón af fyrri ákvörðun löggjafans getur hún ekki talist viðeigandi."

Sjá nánar:

Umsögn SA til samkeppniseftirlitsins (PDF)

Sjá einnig:

Frétt SA um málið 28. 12. 2009

Samtök atvinnulífsins