Efnahagsmál - 

30. Apríl 2008

Umsátrinu um Ísland verði aflétt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umsátrinu um Ísland verði aflétt

Íslenska hagkerfið er lokað um þessar mundir og íslenskt atvinnulíf hefur ekki lengur aðgang að erlendu lánsfé nema á afarkjörum. Við þessi skilyrði geta íslensk fyrirtæki ekki vikið sér undan háum vöxtum innanlands og kjör þeirra hafa versnað verulega. Það er líkt og vextir hafi hækkað um nálægt 10% á stuttum tíma og það virkar eins og sleggja á atvinnulífið. Ástandið birtist í raun sem umsátur um Ísland sem er nauðsynlegt að aflétta sem fyrst. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, á morgunfundi Viðskiptablaðsins í morgun.

Íslenska hagkerfið er lokað um þessar mundir og íslenskt atvinnulíf hefur ekki lengur aðgang að erlendu lánsfé nema á afarkjörum. Við þessi skilyrði geta íslensk fyrirtæki ekki vikið sér undan háum vöxtum innanlands og kjör þeirra hafa versnað verulega. Það er líkt og vextir hafi hækkað um nálægt 10% á stuttum tíma og það virkar eins og sleggja á atvinnulífið. Ástandið birtist í raun sem umsátur um Ísland sem er nauðsynlegt að aflétta sem fyrst. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, á morgunfundi Viðskiptablaðsins í morgun.

Rétt samhengi nauðsynlegt

Vilhjálmur minnti á að þrátt fyrir þann mótbyr sem þjóðin mætir nú þá yrði að horfa á hlutina í réttu samhengi. Íslenskt atvinnulíf væri sterkara en nokkru sinni fyrr og lífskjör þjóðarinnar hefðu aldrei verið betri. Sem dæmi um uppgang á liðnum misserum nefndi hann að eigið fé bankanna hafi farið úr 114 milljörðum króna í árslok 2003 í 920 milljarða í árslok 2007. Uppgangur bankanna hafi stutt við fjölmörg fyrirtæki og fjárfesta í uppbyggingu erlendis. Mikil verðmæti hafi verið sköpuð sem muni ekki tapast heldur skapa nýjan grunn.

Vilhjálmur kom víða við í erindi sínu og ræddi um kröftuga uppsveiflu síðustu ára, rangar hagtölur og mikilvægi þess að þær verði leiðréttar, bitlausa vaxtastefnu Seðlabankans, færar leiðir til að bregðast við stöðu mála, verðbólguhorfur og stöðuna á vinnumarkaði.

Uppsveiflan sterkari en talið var

Frá 31. desember 2003 til 30. september 2007 batnaði nettó skuldastaða þjóðarbúsins, en hún var -27% af vergri landsframleiðslu en ekki -120%. Vilhjálmur benti á að á þessu tímabili hafi í raun verið uppsafnaður afgangur á vöruskiptajöfnuði en ekki halli. Þjóðartekjur hafi aukist langt umfram verga landsframleiðslu sem skýri líka hin miklu þjóðarútgjöld. Opinberar hagtölur hafi ekki gefið rétta mynd af þróun mála og skellurinn núna sé líka miklu meiri en hagtölurnar gefi til kynna.

Vilhjálmur benti á og útskýrði hvers vegna hagtölurnar væru rangar og undirstrikaði mikilvægi þess að þær verði leiðréttar svo þær endurspegli raunveruleikann. Rangar tölur hafi valdið íslensku atvinnulífi skaða og kallað á endalausar skýringar á "sérstöðu Íslands".

Hvaða leiðir eru færar?

Til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp sagði Vilhjálmur nauðsynlegt að íslenska ríkið og Seðlabanki Íslands taki upp samstarf við seðlabanka annarra ríkja en slíkt taki tíma. Fjármálafyrirtæki verði einnig að taka frumkvæði líkt og þau hafi gert  með aukinni áherslu á innlánareikninga. Tækifæri séu fyrir hendi fyrir fjárfesta þ.á.m. lífeyrissjóði en allt sé þetta spurning um tíma og hver mánuður sem líði verði sífellt dýrari.

Verðbólgan og vinnumarkaðurinn

Um verðbólguna sagði Vilhjálmur að hún lýsi þeirri lífskjaraskerðingu sem gangi yfir ef ekki rætist úr með aðgang að erlendum fjármálamörkuðum. Verðlag hækki næstu mánuði vegna lágs gengis en síðan komi stöðugleikatímabil og hugsanlega verðhjöðnun þar sem eftirspurn dregst saman. Best væri að gengið hækkaði aftur með eðlilegum aðgangi að erlendu lánsfé og stöðugleiki kæmist á.

Varðandi vinnumarkaðinn sagði Vilhjálmur að kjarasamningarnir frá 17. febrúar hafi verið nauðsynlegir og lán að þeir skyldu takast á þeim tíma. Verðbólgan valdi atvinnulífinu tjóni, dregi úr verðmætasköpun og auki ekki getuna til að greiða hærri laun.

Upptökur ef erindum frummælenda eru á www.vb.is

Glærur Vilhjálms (PPT) 

Samtök atvinnulífsins