Umönnunarbil og barnafjölskyldur

Rannsóknir sýna að barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð á laun kvenna. Lagfæra þarf þessa skekkju og styðja betur við barnafjölskyldur á vinnumarkaði. Mikilvægt er að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög búi íbúum sínum þannig aðstæður að foreldrar hafi raunverulegt val um það hvernig fjölskylduábyrgð og þátttöku foreldra í vinnumarkaði er háttað.

Í kom út í maí síðastliðnum, eru áhugaverðar niðurstöður um atvinnuþátttöku foreldra í kjölfar barneigna. Þær sýna að eftir barneignir eru konur talsvert lengur frá vinnu en karlar. Mæður barna, sem fá innritun í leikskóla við 12 mánaða aldur, eru níu og hálfan mánuð frá vinnumarkaði en karlar tvo og hálfan. Börn innritast á leikskóla við 20 mánaða aldur að jafnaði.

Jöfn tækifæri
Á undanförnum árum hafa Samtök atvinnulífsins lagt kapp á að stuðla að jafnri stöðu kynjanna. Mikilvægur þáttur þess er aðgangur barna að leikskóla frá níu mánaða aldri. Fyrr á árinu gerði SA þetta mikla hagsmunamál foreldra að áherslumáli í tengslum við umræður um fæðingarorlof.

Lengri fjarvera kvenna en karla frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna hefur afleiðingar fyrir starfsframa þeirra. Í samfélagi jafnra tækifæra ættu foreldrar að geta valið hvernig þau haga fjarveru frá vinnumarkaði vegna barneigna. Jafna ætti stöðu kynjanna með því að auka dagvistunarþjónustu frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólavist hefst. Það myndi stuðla að jafnari launum kynjanna, auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum og gera þeim kleift að sækja fram á fleiri sviðum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga munu nálgast þennan málaflokk.

Grunnskóli við fimm ára aldur
SA hafa lagt til að grunnskólaganga hefjist við fimm ára aldur. Með því skapast svigrúm til lækkunar á dagvistunaraldri sem tryggir öllum börnum dagvistun að afloknu fæðingarorlofi. Við núverandi aðstæður neyðast foreldrar oft til að taka launalaust leyfi frá störfum. Reynslan sýnir að oftar eru það konur en karlar sem taka leyfið, þær missa af tækifærum og dragast aftur úr varðandi starfsframvindu og laun. Þessi breyting skapar raunveruleg tækifæri til að jafna stöðu kynjanna. Breytingin gerir kröfu til stjórnmálamanna um að forgangsraða í fjármálum hins opinbera og krefst aðkomu bæði sveitarfélaga og ríkis.

Foreldrar bíða í allt að tvö ár
Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvenær börn innritast á leikskóla, þar sem börn dvelja við leik og nám fram að sex ára aldri þegar skólaskylda hefst. Þrátt fyrir að í flestum sveitarfélögum fái börn aðgang að leikskólum við 12 mánaða aldur þurfa börn í mörgum stærstu sveitarfélögunum að bíða til 24 mánaða aldurs.

Í Reykjavík fá börn inngöngu í leikskóla tveggja ára. Það liggur í augum uppi að starfandi foreldrar búa við verri aðstöðu en þau sem fá leikskólapláss ári fyrr fyrir börnin sín. Foreldrar í Reykjavík búa þannig við mun lakari aðstæður en í öðrum sveitarfélögum.

Er æskilegt að miða að gjaldfrjálsum leikskólum?
Æskilegt er að stóru sveitarfélögin leggi aukinn metnað í málaflokkinn og bjóði fyrr upp á leikskólapláss. Því verður eingöngu náð fram með skynsamlegri forgangsröðun fjármuna, en tekjur sveitarfélaga hafa vaxið hratt með aukinni velmegun og hækkandi fasteignaverði sem hefur haft bein áhrif á tekjur þeirra í gegnum fasteignagjöld.

Stefna um gjaldfrjálsa leikskóla getur dregið verulega úr getu sveitarfélaga til að loka umönnunarbilinu, enda hafa leikskólarnir þar með úr minni fjármunum að spila en ella. Stefna um gjaldfrjálsan leikskóla er til þess fallin að breikka umönnunarbilið í stað þess að minnka það. Þar að auki er líklegt að fjársveltir leikskólar eigi erfitt með að laða til sín hæft starfsfólk með rétta menntun.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga munu nálgast þennan málaflokk. Samtök atvinnulífsins vilja sjá skynsamlegar lausnir til að loka umönnunarbilinu. Það er hagur allra.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2017