Samkeppnishæfni - 

17. október 2018

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2018

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2018

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent í dag við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Toyota en framtak ársins á sviði umhverfismála á Skinney-Þinganes.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent í dag við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Toyota en framtak ársins á sviði umhverfismála á Skinney-Þinganes.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota tók við verðlaununum í Hörpu.

„Þessi verðlaun eru okkur mikils virði og starfsfólki okkar góð hvatning. Stofnendur fyrirtækisins sýndu mikla framsýni í umhverfismálum og hófu stuðning við skógrækt fyrir tæpum þremur áratugum. Með því var lagður grunnurinn að þeirri umhverfisstefnu sem við fylgjum í dag. Toyota styður enn við skógrækt og við höfum fylgt því eftir með stuðningi við endurheimt votlendis.

Öll erum við á sama báti og berum saman ábyrgð á umhverfi okkar. Þetta á jafnt við um daglegt líf einstaklinga, starfsemi fyrirtækja og stefnumörkun opinberra aðila. Við hjá Toyota höfum verið með alþjóðlega umhverfisvottun í 10 ár og högum starfsemi okkar samkvæmt þeim ströngu viðmiðunum sem þar eru settar. Sá rammi utan um starfsemina sem vottunin setur er öflugt tæki til að takast á við þær áskoranir í umhverfismálum sem blasa við á hverjum degi.“Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota, Ágústa Steingrímsdóttir umhverfis- og öryggisstjórn Toyota, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Bjartur Máni Sigurðsson umhverfis- og öryggisstjórn Toyota, Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar og Kristján Þorbergsson, fjármálastjóri Toyota og annar eigenda.

Hjá Toyota vinna um 200 starfsmenn og fyrirtækið velti 21 milljarði síðasta ári. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að regluleg þjálfun er notuð til að auka áhuga starfsfólks á umhverfismálum.

„Umhverfisstefna Toyota er endurskoðuð á hverju ári og markmiðið er að ná meiri árangri ásamt því að tryggja öryggi og velferð starfsfólks sem tekur virkan þátt.“

Endurvinnsla er mikilvæg og fer hlutfall óflokkanlegs sorps hjá Toyota stöðugt minnkandi og er nú komið niður í 13% af heildarúrgangi. Það er gott bæði fyrir umhverfið og reksturinn en bæði starfsmenn og viðskiptavinir eru hvattir til að flokka úrgang og tekur Toyota þátt í kostnaði við grænar tunnur starfsmanna. Í fyrstu voru lítil skref stigin en þáttaskil urðu þegar vottað umhverfisstjórnunarkerfi var innleitt árið 2008.

Á undanförnum árum hefur margt verið gert til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið hjá Toyota eins og sjá má í meðfylgjandi stiklu sem sýnd var við afhendingu verðlaunanna.

Í dómnefnd sátu Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar, Bryndís Skúladóttir efnaverkfræðingur og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

 Skinney – Þinganes á umhverfisframtak ársins


Skinney – Þingnes fékk verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og veitti Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar - Þinganess þeim viðtöku.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að fyrirtækið hafi haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sýnt frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda t.d. með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess og með tilraun til að framleiða nýja orkugjafa á skip félagsins.

„Við þökkum af heilum hug fyrir þessa viðurkenningu sem okkur er veitt hér í dag,“ sagði Gunnar.

Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Sandra Rán Ásgrímsdóttir Mannviti, Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jón Bernódusson Samgöngustofu og Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Skinney-Þinganes á og rekur eitt stærsta kúabú landsins, Flatey á Mýrum, en á ökrum Flateyjar er ræktuð repja sem er góð fyrir kýrnar, búið sjálft og útgerðina. Repjan nýtist á búinu en Skinney mun einnig nýta hana til að hefja framleiðslu á umhverfisvænni skipaolíu og er framleiðsla á henni að hefjast.

„Það er mikill heiður sem okkur er sýndur með þessum verðlaunum sem við ætlum að nota sem hvatningu til frekari þróunar á umhverfismálum hjá félaginu. Repjan er mjög áhugavert verkefni, þar sem við höfum yfir að ráða miklu landrými í Flatey og að geta nýtt afurðir repjunnar ýmist sem orkugjafa fyrir skipin okkar og fóður fyrir kýrnar,“ segir Hjalti Vignisson, framkvæmdastjóri sölu Skinneyjar Þinganess.

Í meðfylgjandi stiklu sem sýnd var við afhendingu verðlaunanna er dregin upp mynd af umhverfisstarfi Skinneyjar-Þinganess sem stjórnendur leggja mikla áherslu á.

Repjuverkefnið er  unnið í samstarfi við Samgöngustofu og Mannvit en repjuolíu má nota sem íblöndunarefni á allar olíuvélar og krafturinn er sá sami og í jarðefnaolíu.  Útblásturinn sem verður til við brennsluna er hins vegar hreinni og loftslagið græðir. Frumkvöðlar í landbúnaði á Suðurlandi lögðu til fyrstu íslensku olíuna sem var prófuð á skip vorið 2017.

Tekist hefur að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til sjávarútvegs en eldsneytisnotkun hefur minnkað um 43% frá 1990 með fjárfestingu í nýjum skipum og tækni. Með því að nýta repjuolíu getur staðan orðið enn betri. Þeir sem eru allra bjartsýnastir telja að hægt væri að rækta næga repju á Íslandi til að framleiða olíu til að knýja allan fiskiskipaflotann.

Stjórnarformaður Skinneyjar Þinganess tók við verðlaununum ásamt Jóni Bernódussyni frá Samgöngustofu og Söndru Rán Ásgrímsdóttur frá Mannviti sem áttu frumkvæði að verkefninu en þau hvöttu Skinney-Þinganes til að hefja ræktun repjunnar og frameiðslu á eigin olíu.

„Það hefur verið sérstaklega gott samstarf á milli okkar, Samgöngustofu og Mannvits í þessu verkefni og eiga þau mikið hrós skilið fyrir sína aðkomu. Í raun og veru má segja að við höfum fengið að stökkva upp á vagninn þegar þau voru búin að koma honum af stað.“

Þá nefndi Gunnar að til skoðunar væri á Flatey að framleiða rafmagn úr metani sem berst frá kúamykjunni. Það væri því aldrei að vita nema að fjósið á jörðinni verði knúið af rafmagni sem kýrnar framleiði sjálfar!

Samtök atvinnulífsins