Efnahagsmál - 

09. Febrúar 2010

Umhverfisráðherra gegn almenningi og atvinnulífi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umhverfisráðherra gegn almenningi og atvinnulífi

Á undanförnum árum hefur umhverfisráðherra ítrekað staðfest skipulagstillögur sveitarfélaga þar sem framkvæmdaaðilar hafa greitt kostnað vegna breytinga á aðalskipulagi. Þessi háttur hefur tíðkast í mörg ár og aldrei verið gerð við það athugasemd. Dæmi eru um sveitarfélög sem gert hafa sérstakar samþykktir í þessum efnum þannig að kostnaður við breytingu á aðalskipulagi falli á þann sem breytingarinnar óskar. Þann 29. janúar skrifaði umhverfisráðherra hins vegar tveimur sveitarfélögum bréf og synjaði staðfestingar aðalskipulagi þeirra vegna þess að hrepparnir gerðu samkomulag um að framkvæmdaaðili greiddi hluta kostnaðar við gerð aðalskipulags.

Á undanförnum árum hefur umhverfisráðherra ítrekað staðfest skipulagstillögur sveitarfélaga þar sem framkvæmdaaðilar hafa greitt kostnað vegna breytinga á aðalskipulagi. Þessi háttur hefur tíðkast í mörg ár og aldrei verið gerð við það athugasemd. Dæmi eru um sveitarfélög sem gert hafa sérstakar samþykktir í þessum efnum þannig að kostnaður við breytingu á aðalskipulagi falli á þann sem breytingarinnar óskar. Þann 29. janúar skrifaði umhverfisráðherra hins vegar tveimur sveitarfélögum bréf og synjaði staðfestingar aðalskipulagi þeirra vegna þess að hrepparnir gerðu samkomulag um að framkvæmdaaðili greiddi hluta kostnaðar við gerð aðalskipulags.

Vilji stjórnvalda hefur staðið til þess að staðfesta með lögum að framkvæmdaaðilar greiði fyrir skipulag enda hefur umhverfisráðherra í tvígang lagt fram á Alþingi frumvarp til skipulagslaga þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti innheimt gjald til að standa straum af kostnaði við skipulagsvinnu. Síðast var þetta lagt til í frumvarpi umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þann 6. febrúar 2008. Þar áður var það Jónína Bjarmarz, umhverfisráðherra, sem lagði þetta til þann 27. febrúar 2007. Ekki verður annað séð af umfjöllun á Alþingi og í umsögnum sem bárust en að um þetta ríkti full samstaða.

Ofangreind synjun umhverfisráðherra á aðalskipulagi tveggja sveitarfélaga felur því í sér nýja stefnu frá því sem tíðkað hefur verið og sveitarfélögin í landinu hafa getið gengið út frá. Það hefur verið vilji löggjafans og komið ítrekað fram að þeir sem njóta sérstakrar þjónustu sveitarfélaga og stofnana greiði fyrir hana í samræmi við raunverulegan kostnað.

Að auki má nefna að það er ekkert í skipulagslögum sem bannar sveitarfélögum að innheimta áfallinn kostnað vegna breytinga á skipulagi sem kominn er til vegna einstakrar framkvæmdar. Það er jafnframt eðlilegt að þessi háttur sé hafður á í stað þess að leggja þennan kostnað á íbúa sveitarfélaga í formi almennra skatta.

Ákvörðun umhverfisráðherra að synja umræddum skipulagstillögum staðfestingar eftir 11 og 14 mánuði er þannig í andstöðu við fyrri afstöðu ráðuneytisins, þá stefnu sem ríkt hefur og þau vinnubrögð sem sveitarfélögin hafa geta gengið út frá.

Áhrif synjunarinnar
Synjun ráðherra á aðalskipulagstillögunum getur haft margvísleg áhrif. Það vakna spurningar um gildi skipulagstillagna sem þegar hafa hlotið staðfestingu. Engin umfjöllun er um þetta í bréfi ráðherra þótt ljóst sé að verið er að breyta venju sem tíðkast hefur í mörg ár og hefur tekið til fjölmargra skipulagstillagna sem staðfestar hafa verið af ráðuneytinu.  Einnig hljóta sveitarfélög að velta fyrir sér stöðu þeirra fjölmörgu mála sem unnið er að og hvaða áhrif synjunin hafi.

Áhrif synjunar umhverfisráðherra eru þó mun víðtækari en þetta. Landsvirkjun hefur þegar sagt að frestað verði viðræðum við mörg erlend fyrirtæki um orkusölu. Ekki munu heldur hefjast undirbúningsframkvæmdir við neðri hluta Þjórsár á næstunni.  Þannig mun hægja á atvinnuuppbyggingu í landinu.

Nauðsynlegt er að knýja á um að Alþingi samþykki breytingar á skipulagslögum svo ljóst verði að innheimta megi útlagðan kostnað við gerð skipulagstillagna frá þeim sem þjónustunnar óskar.

Órökstuddar ásakanir
Umhverfisráðherra leggur lykkju á leið sína í bréfinu til hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps til að bera fram ásakanir um að hreppsnefndarmenn hafi þegið beinar greiðslur frá Landsvirkjun. Þessum ásökunum var svarað af hreppsnefndinni sjálfri, lögmanni hennar og Landsvirkjun löngu áður en bréf ráðherra var ritað og þeim hafnað með öllu. Það er alveg ótrúlegt að ráðherra skuli bera fram slíkar ásakanir án þess að færa nokkur rök fyrir þeim. Athygli vekur einnig að umhverfisráðherra hafnaði því að eiga fund með hreppsnefndinni um margra mánaða skeið og hefur ekki staðið við það þrátt fyrir að hafa sagt á Alþingi í byrjun nóvember að "það geti gerst fyrr en síðar". 

Blásið til stöðnunarátaks?
Það blasir við að ákvörðun ráðherra er ómálefnaleg og í andstöðu við margra ára venju og góða stjórnsýsluhætti. Það er til samræmis við önnur vinnubrögð ráðherra að tefja mál. Synjunin er einungis til þess fallin að geðjast þröngum flokkshagsmunum Vinstri grænna sem ályktuðu í ágúst sl. um virkjanir við Þjórsá og fólu "þingflokki og ráðherra VG að sjá til þess að ekki verði í þær ráðist". Um leið tryggir ráðherra minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarkar getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu.

Samtök atvinnulífsins