Efnahagsmál - 

29. mars 2011

Umhverfisráðherra fer rangt með

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umhverfisráðherra fer rangt með

Umhverfisráðherra hefur á Alþingi og víðar kvartað yfir því að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins sýni ekki nægan metnað í umhverfismálum fyrir hönd fyrirtækja landsins. Þessi staðhæfing ráðherra er röng. Samtökin hafa lagt áherslu á að hér gildi sambærilegar reglur og rekstrarskilyrði og hjá öðrum Evrópuþjóðum og hafa hvatt fyrirtækin til að sýna fulla ábyrgð í umhverfismálum.

Umhverfisráðherra hefur á Alþingi og víðar kvartað yfir því að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins sýni ekki nægan metnað í umhverfismálum fyrir hönd fyrirtækja landsins. Þessi staðhæfing ráðherra er röng. Samtökin hafa lagt áherslu á að hér gildi sambærilegar reglur og rekstrarskilyrði og hjá öðrum Evrópuþjóðum og hafa hvatt fyrirtækin til að sýna fulla ábyrgð í umhverfismálum.

SI og SA hafa haldið fundi, ráðstefnur, gefið út prentað efni um umhverfismál og haldið úti öflugum vefmiðlum þar sem ítarlega er fjallað um þessi mál ásamt því að hafa í mörg ár átt gott samstarf við stjórnvöld um innleiðingu nýrra reglna. Samtökin líta á það sem hlutverk sitt að hjálpa til við að allir geti unnið eftir þeim leikreglum sem settar eru. Samtökin hafa því hvatt fyrirtæki til að taka upp kerfisbundna stjórn á umhverfismálum.

Þorri fyrirtækja til fyrirmyndar
Samtökin hafa alla tíð hvatt fyrirtæki til að fara að lögum og reglum og uppfylla þau skilyrði sem stjórnvöld setja þeim og í ákveðnum tilvikum beitt sér sérstaklega til að fylgja því eftir. Þorri fyrirtækja leggur metnað sinn í að starfa innan þess ramma sem settur er. Það skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna ef samkeppnisaðilar þeirra geta farið fram hjá reglunum. Það er kappsmál samtakanna að allir sitji við sama borð og að eftirlitsaðilar bregðist við ef út af ber. Sterkar og skilvirkar eftirlitsstofnarnir eru lykilinn að þessu.  Það er hins vegar aldrei hægt að koma í veg fyrir að einhvers staðar sé pottur brotinn. Sem betur fer eru líkur á því að ekki verði neinn skaði af þeim atburðum sem urðu tilefni þessarar umræðu en ábyrgðin liggur alltaf hjá stjórnendum fyrirtækjanna.

Breytingar á eftirliti nauðsynlegar
Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa um árabil kallað eftir breytingum á eftirliti hins opinbera. Kerfið er barn síns tíma og atvinnurekstur hefur tekið miklum breytingum frá því kerfið var byggt upp. Í dag sjá tíu sjálfstæð heilbrigðiseftirlitsumdæmi um eftirlit með flestum fyrirtækjum og lúta hvorki boðvaldi Umhverfisstofnunar né umhverfisráðuneytisins. Umhverfisstofnun sér hins vegar um eftirlit með nokkrum stórum fyrirtækjum. Þannig eru eftirlitsumdæmin í raun ellefu talsins.

Gallar á þessu kerfi eru augljósir. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefur eftirlit með starfsemi sveitarfélaganna sem reka umfangsmikla starfsemi sem valdið getur mengun. Nægir þar að nefna sundlaugar. Auk þess reka sveitarfélögin sorpbrennslustöðvar sem  fengið hafa undanþágur frá mengunarkröfum um árabil. Samtökunum er ekki kunnugt um að almenn atvinnufyrirtæki hafi fengið slíkar undanþágur.

Samtökin hafa lengi bent á leiðir til að gera eftirlitið skilvirkara, beitt verði rafrænu eftirliti, dregið úr eftirliti með þeim sem standa sig vel og eftirlitinu verði í meira mæli beint þangað sem áhættan er mest. Þannig megi bæði ná fram betri árangri í umhverfismálum og hagræðingu í eftirlitinu. Auk þess að einn aðili eins og Umhverfisstofnun beri alla ábyrgð á eftirlitinu og samræmingu þess í stað þess að því sé skipt í 11 umdæmi.

Fyrirmyndarfyrirtæki verðlaunuð í samstarfi við umhverfisráðuneyti
Langflest fyrirtæki landsins standa sig mjög vel í umhverfismálum og hafa SA og SI tekið þátt í því með umhverfisráðuneytinu að verðlauna á hverju ári þau fyrirtæki sem talin eru skara fram úr. Samtökin hafa raunar um langt árabil átt í mjög góðu samstarfi við umhverfisráðuneytið og stofnanir þess um þessi mál. Haldnir hafa verið sameiginlegir fundir og ráðstefnur, sérfræðingar ráðuneytisins hafa ótal sinnum verið kallaðir á fundi samtakanna, fulltrúar SI og SA hafa setið í fjölmörgum nefndum til innleiðingar á reglum og undirbúnings lagasetningar.

Það er áhyggjuefni þegar umhverfisráðherra lætur sem sér sé ókunnugt um allt þetta starf og heldur fram staðhæfingum sem ekki eiga sér stað í raunveruleikanum.

Samtök atvinnulífsins