Umhverfisráðherra afturkalli ólögmætan úrskurð

Samtök atvinnulífsins skora á umhverfisráðherra að afturkalla ólögmætan úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 29. september um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009, um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrkingar raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Að öðrum kosti munu samtökin bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis og/eða leita leiða til þess að fá úrskurðinum hnekkt fyrir dómstólum.

Í bréfi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóri SA, til Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, segir að Samtök atvinnulífsins telji fyrrgreindan úrskurð umhverfisráðuneytisins ólögmætan af þeirri ástæðu að hann var kveðinn upp rúmum þremur mánuðum eftir að tilskilinn tímafrestur var útrunninn. Þar að auki hafi reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málsmeðferð og andmælarétt ekki verið virtar við meðferð málsins.

Í bréfinu minna Samtök atvinnulífsins á aðild ríkisstjórnarinnar, og þar með umhverfisráðherra, að stöðugleikasáttmálanum sem undirritaður var 25. júní 2009, þar sem segir: "Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009."

"Úrskurður ráðherra gengur í berhögg við þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og setur sáttmálann í uppnám þar sem ljóst er að málið tefst svo mörgum mánuðum skiptir," segir Vilhjálmur Egilsson í bréfinu en það má nálgast hér að neðan þar sem málsatvikum er lýst nánar. Afrit bréfsins var sent forsætisráðherra.

Sjá nánar:

Bréf SA til umhverfisráðherra 1. október 2009 (PDF)