Efnahagsmál - 

02. Febrúar 2010

Umhverfisráðherra á móti framförum og orkunýtingu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umhverfisráðherra á móti framförum og orkunýtingu

Með bréfum dagsettum 29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra aðalskipulagi tveggja hreppa staðfestingar. Annars vegar aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem beðið hafði staðfestingar ráðherra í 14 mánuði og hins vegar aðalskipulagi Flóahrepps sem lá í ráðuneytinu óafgreitt í 11 mánuði. Talsmenn launþega og atvinnulífs eru undrandi á þessum úrskurði umhverfisráðherra, þar sem skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár er synjað staðfestingar.

Með bréfum dagsettum 29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra aðalskipulagi tveggja hreppa staðfestingar. Annars vegar aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem beðið hafði staðfestingar ráðherra í 14 mánuði og hins vegar aðalskipulagi Flóahrepps sem lá í ráðuneytinu óafgreitt í 11 mánuði. Talsmenn launþega og atvinnulífs eru undrandi á þessum úrskurði umhverfisráðherra, þar sem skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár er synjað staðfestingar.

Ástæða synjunarinnar er sögð sú að þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði vegna breytinganna standist ekki skipulags- og byggingarlög. Þetta kemur  fram í Morgunblaðinu í dag.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir ákvörðun umhverfisráðherra sýna andstöðu við framfarir og orkunýtingu auk þess sýni úrskurðurinn skilningsleysi á stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni. Kostnaður vegna skipulagsvinnu vegna stórra framkvæmda sé of mikill fyrir lítil sveitarfélög.

Í frétt blaðsins 2. febrúar segir:

"Ég skil ég ekki hvers vegna umhverfisráðherra telur ólögmætt að sá aðili sem veldur kostnaði taki þátt í að greiða hann," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. "Ég veit ekki hvaða hagsmuna ráðherrann er að gæta."

Um er að ræða skipulagsbreytingar sem sveitarstjórnir Flóahrepps annars vegar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps hins vegar réðust í að beiðni Landsvirkjunar vegna áhuga fyrirtækisins á að virkja í neðri hluta Þjórsár, sem verið hefur til umræðu í lengri tíma.

Gylfi bendir á að beiðandi breytts skipulag sé í raun ríkið, sem eigandi Landsvirkjunar. Ljóst sé að lítil sveitarfélög ráði illa við kostnaðinn við slíkar breytingar. Því þýði úrskurður umhverfisráðherra í reynd að sveitarfélög geti lent í vandræðum með að standa undir skyldum sínum gagnvart íbúum, sökum þess að kostnaður af beiðni ríkis sé of mikill.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir með Gylfa. Kostnaður við skipulagsvinnu vegna stórra framkvæmda sé of mikill fyrir lítil sveitarfélög, og því sýni úrskurðurinn skilningsleysi á stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni.

Það kemur Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, einnig á óvart að þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði við skipulagsvinnu skuli vera metin ólögmæt "En við bara skoðum þetta, og finnum leið sem allir aðilar eru sáttir við." Hann segir úrskurðinn ekki hafa áhrif á þau verkefni sem áformuð eru næstu mánuðina, enda hafi ekki staðið til að ráðast í virkjanirnar strax. Þá liggi ekki fyrir hver kaupandi orkunnar sé. Engu að síður sé alveg ljóst að úrskurðurinn tefji undirbúningsferli virkjananna.

Á ekki að fara til álvera

Stjórn Landsvirkjunar hefur ákveðið að taka orkuna frá umræddum virkjunum frá fyrir aðra uppbyggingu en álver. Hafa t.d. gagnaver og sólarkísilverksmiðja verið nefnd í því samhengi.

Vilhjálmur segir slæmt að stjórnvöld skuli bregða fæti fyrir umræddar virkjanir í ljósi þess hve margt sé á döfinni í vistvænni, orkufrekri starfsemi af ýmsu tagi. "Úrskurðurinn dregur fram andstöðu ráðherrans við framfarir og orkunýtingu," segir Vilhjálmur í Morgunblaðinu.

Í Fréttablaðinu í dag segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að fyrirtækið hafi fengið lagalegt álit um aðra niðurstöðu. Úrskurðurinn tefji málið og það verði fyrir vikið kostnaðarsamara. Skipulagsferlið verði endurtekið á einhvern hátt. Á endanum hljóti Landsvirkjun að greiða umræddan kostnað, varla sé hægt að ætlast til að sveitarfélögin geri það.

Undarleg lagatúlkun
Samtök atvinnulífsins vilja benda á að ekkert í skipulags- og byggingarlögum bannar sveitarfélögum að afla tekna til að standa straum af gerð aðalskipulags. Það er í meira lagi undarleg lagatúlkun ráðherra að þar sem þetta sé ekki sérstaklega heimilt samkvæmt lögum, þá hljóti það að vera bannað. Þarna er langt seilst til að framfylgja persónulegum skoðunum ráðherra og hefur lítið með að gera málefnalega afgreiðslu á efni skipulagstillagna sveitarfélaganna.

Samtök atvinnulífsins