Menntamál - 

30. maí 2001

Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi

Um 19% allra landsmanna á aldrinum 18-75 ára hafa komið að stofnun fyrirtækis, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar. Þetta er meira en tvöfalt hærra hlutfall en það sem hæst gerist í samanburðarlöndum. Í sambærilegri könnun sem gerð var á umhverfi til nýsköpunar í 21 landi var hlutfallið hæst í Bandaríkjunum, en þar hafa um 8,4% komið að stofnun fyrirtækis. Lægst var hlutfallið í Finnlandi en einungis 1,4% Finna hafa komið að stofnun fyrirtækis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ritinu Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi sem kynnt var í dag.

Um 19% allra landsmanna á aldrinum 18-75 ára hafa komið að stofnun fyrirtækis, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar. Þetta er meira en tvöfalt hærra hlutfall en það sem hæst gerist í samanburðarlöndum. Í sambærilegri könnun sem gerð var á umhverfi til nýsköpunar í 21 landi var hlutfallið hæst í Bandaríkjunum, en þar hafa um 8,4% komið að stofnun fyrirtækis. Lægst var hlutfallið í Finnlandi en einungis 1,4% Finna hafa komið að stofnun fyrirtækis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ritinu Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi sem kynnt var í dag.

Ritið er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Deloitte & Touche og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Markmiðið með útgáfu þess er að draga athyglina að aðstæðum til nýsköpunarstarfs og stuðla að bættum starfsskilyrðum frumkvöðla til hagsbóta fyrir íslenskt efnahagslíf. Stefnt er að reglulegri útgáfu slíkrar athugunar. Við undirbúning útgáfunnar var meðal annars gerð könnun á viðhorfi almennings til nýsköpunar. Úrtakið var 1200 manns á aldrinum 18 til 75 ára og í ritinu eru helstu niðurstöður könnunarinnar bornar saman við fyrrnefnda könnun sem gerð var í 21 landi. Þá var rætt við nokkra frumkvöðla og þeir beðnir að segja frá reynslu sinni af nýsköpun á Íslandi.

Almennt virðast viðhorf til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs vera jákvæðari hér á landi en í samanburðarlöndunum. Athygli vekur þó að viðhorf til nýsköpunar virðast vera jákvæðari meðal fólks á aldrinum 55 til 75 ára en í yngri aldurshópum, og að það sama virðist vera uppi á teningnum hvað varðar jákvæða afstöðu til tækifæra til nýsköpunar. Þá hafa um 47% karlmanna hugleitt að stofna fyrirtæki en einungis 29% kvenna.

Í ritinu kemur einnig fram að á síðustu 4 til 5 árum hefur aðgangur að fjármagni til nýsköpunar orðið mun greiðari hér á landi en áður var. Lánsfjármagn er þó enn frekar dýrt á Íslandi í samanburði við önnur lönd, sem dregur úr hagvexti þegar til lengri tíma er litið.

Íslensk fyrirtæki lögðu lengi vel minna í rannsóknir og þróunarstarf en erlendir keppinautar þeirra. Nýjar tölur, áætlanir og spár gefa til kynna að þetta sé að breytast og að framlag íslenskra fyrirtækja til rannsókna og þróunar nálgist það sem gerist á meðal fremstu þjóða. Mestallar rannsóknirnar fara þó fram í tiltölulega fáum fyrirtækjum. Þá eru útgjöld æðri menntastofnana til rannsókna og þróunar óvíða meiri á hvern íbúa en hér á landi. Aukin útgjöld til rannsókna og þróunar virðast þó ekki skila sér á markaði, en þannig sækja Íslendingar tíu sinnum sjaldnar um einkaleyfi en aðrar Norðurlandaþjóðir.

Stjórnvöld geta til dæmis bætt starfskilyrði frumkvöðla með breytingum á skattkerfinu. Eignarskattar, sem tíðkast óvíða annars staðar en á Íslandi, eru mjög óhagstæðir frumkvöðlum. Miklu skiptir að fjármagnið sé "þolinmótt", því að hagnaður er oftast lítill í upphafi. Fyrirtæki greiða ekki tekjuskatt fyrr en þau fara að skila hagnaði, en eignarskattur leggst með fullum þunga á fyrirtækin þegar í upphafi.

Sjá ritið Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi (pdf-snið).

Samtök atvinnulífsins