Efnahagsmál - 

13. nóvember 2003

Umfjöllun SA um útgjöld heilbrigðisstofnana leiðrétt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umfjöllun SA um útgjöld heilbrigðisstofnana leiðrétt

Heilbrigðis- og tryggingaráðherra hefur gert athugasemdir við umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um framúrkeyrslu heilbrigðisstofnana á fjárlögum, á árunum 1998 til 2002. Ákveðin atriði í gagnrýni ráðherra áttu rétt á sér og hefur umfjöllun SA verið lagfærð með hliðsjón af því. Þar er fyrst og fremst um að ræða meðhöndlun sértekna á árunum 2001 og 2002, en gagnrýnin um meðhöndlun sértekna á ekki við um fyrri árin í samanburðinum.

Heilbrigðis- og tryggingaráðherra hefur gert athugasemdir við umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um framúrkeyrslu heilbrigðisstofnana á fjárlögum, á árunum 1998 til 2002. Ákveðin atriði í gagnrýni ráðherra áttu rétt á sér og hefur umfjöllun SA verið lagfærð með hliðsjón af því. Þar er fyrst og fremst um að ræða meðhöndlun sértekna á árunum 2001 og 2002, en gagnrýnin um meðhöndlun sértekna á ekki við um fyrri árin í samanburðinum.

Ástæðan fyrir þessum ruglingi varðandi sértekjur er breytt framsetning ríkisreiknings. Sá gjaldaliður sem er til umfjöllunar nefndist áður því skýra nafni "gjöld umfram sértekjur" en heitir eftir breytingu "tekjur umfram gjöld" og er birtur sem mínustala þegar gjöld eru hærri en sértekjur. Í staðinn var við umfjöllun notuð tala sem nú heitir "gjöld samtals", sem eru heildargjöld áður en sértekjur hafa verið dregnar frá. Þetta hefur þau áhrif á niðurstöðu greiningar SA að sá tæpi helmingur heilbrigðisstofnana sem sagður var fara að meðaltali 26,3% framúr fjárlögum, fer samkvæmt nýjum útreikningi 21,2% framúr á því fimm ára tímabili sem til skoðunar er. Meginstef umfjöllunar SA stendur því óhaggað.

Þar sem landlæknisembættið var nefnt sérstaklega í upphaflegri umfjöllun SA þá er rétt að taka fram að það kemst ekki inn á listann yfir hraðakstursstofnanir í endurskoðaðri umfjöllun vegna þess að árið 2001 voru gjöld skv. ríkisreikningi lægri en niðurstaða fjárlaga.  Fjárhagur embættisins var bættur verulega með aukningu sértekna úr 3,7 m.kr. árið 2000 í 23 m.kr.  árið 2001. Það má þó telja einstakt frávik þar sem stofnunin fór verulega fram úr fjárlögum árin 1998-2000 og um 35% að meðaltali öll árin fimm.

Millifærslur og verðlagsbreytingar
Þá var gagnrýnt að ekki væri tekið tillit til millifærslna milli fjárlagaliða á fjárlögum né til verðlagsbreytinga sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Það er rétt að tilfærslur verkefna milli stofnana geta haft áhrif á samanburðinum einstök ár en þær geta ekki skýrt stöðuga framúrkeyrslu tuga stofnana ár eftir ár. Það er hins vegar misskilningur að ekki sé tekið tillit til verðlagsbreytinga. Við skilgreiningu á hraðakstursstofnunum var þeirri aðferð beitt að heimila stofnunum tiltekinn framúrakstur umfram forsendur fjárlaga hvers árs. Nánar til tekið þá töldust stofnanir ekki hafa farið fram úr fjárlögum ef gjöldin voru 3,0% hærri en fjárlög árið 1998, 2,0% hærri árið 1999, 3,4% árið 2000, 6,8% árið 2001 og 3,0% árið 2002. Eru tölur þessar einkum byggðar á hækkunum launa ríkisstarfsmanna umfram forsendur fjárlaga hvers árs.

Heimildir stofnana til að stofna til útgjalda
Ennfremur var gagnrýnt að ekki væri tekið tillit til heimilda stofnana til að stofna til útgjalda á tilteknu ári vegna ónotaðra heimilda. Þessi athugasemd á heldur ekki við því ef stofnun hefur ekki nýtt upphaflegar fjárheimildir sínar skv. fjárlögum eitthvert ár, og þannig verið undir gjaldaramma fjárlaga, þá hefði sú stofnun ekki komist inn á fyrrnefndan lista yfir hraðakstursstofnanir, þar sem horft er til fimm ára.

Heimildir á fjáraukalögum
Loks kom fram í gagnrýninni að í athugun SA væri ekki gert ráð fyrir heimildum á fjáraukalögum. Þetta er hins vegar allt önnur umræða. Kjarninn í umfjöllun SA er hvernig þær áætlanir standast sem liggja fyrir við gerð fjárlaga ríkisins. Það er gagnrýnt að ár eftir ár skuli niðurstaða ríkisreiknings vera víðs fjarri þeim ramma sem fjárlög ákveða einungis 1-13 mánuðum áður. Í umfjöllun SA var því aldrei haldið fram að öll framúrkeyrsla frá fjárlögum væri án heimilda þegar upp væri staðið. Einungis voru borin saman fjárlög og ríkisreikningur og breyta fjáraukalögin, sem afgreidd eru um ári síðar en fjárlögin, engu um niðurstöður á samanburði fjárlaga og ríkisreiknings, þ.e. upphaflegs fjárhagsramma og endanlegrar niðurstöðu rúmu ári síðar. Það er umfjöllunarefni greinar SA. Viðbótarupplýsingum um þetta atriði var þó raunar strax bætt við umfjöllun SA, þegar þessi misskilningur gerði vart við sig.

Meginstef umfjöllunar SA stendur óhaggað
Að lokum er rétt að ítreka að meginstef umfjöllunar SA stendur óhaggað. Um helmingur heilbrigðisstofnana fór á fimm ára tímabili að meðaltali 21,2% fram úr fjárlögum. Eins og áður er þar átt við fjárlög eins og þau eru samþykkt frá Alþingi, en ekki endanlegar fjárheimildir eftir viðbætur sem ákveðnar eru síðar. Að mati SA eiga raunhæfar áætlanir og ákvarðanir um verkefni og forgang að liggja til grundvallar fjárlögum. Heilbrigðismálin eru veikasti hlekkurinn í fjármálastjórn ríkisins og þar verður að finna betri leiðir en nú tíðkast til að treysta framkvæmd fjárlaga í sessi.

Samtök atvinnulífsins