Efnahagsmál - 

08. júlí 2010

Umbætur nauðsynlegar í menntakerfinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umbætur nauðsynlegar í menntakerfinu

Lækka þarf kostnað á nemanda í íslensku skólakerfi með því að gera skipulag grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla markvissara. Þrátt fyrir að útgjöld til menntamála á Íslandi séu hærri en í öðrum OECD ríkjum sem hlutfall af landsframleiðslu þá skilar það sér ekki sem skyldi í árangri í menntun. Menntunarstig landsmanna 25-64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja.

Lækka þarf kostnað á nemanda í íslensku skólakerfi með því að gera skipulag grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla markvissara. Þrátt fyrir að útgjöld til menntamála á Íslandi séu hærri en í öðrum OECD ríkjum sem hlutfall af landsframleiðslu þá skilar það sér ekki sem skyldi í árangri í menntun. Menntunarstig landsmanna 25-64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja.

Grunnurinn að samkeppnishæfni Íslands

Menntakerfið er grunnur að samkeppnishæfni atvinnulífsins. Skipulag þess þarf að vera  sveigjanlegt og aðlagast hratt að þörfum atvinnulífs og samfélags hverju sinni. Halda þarf  áfram að innleiða í skólakerfið samkeppni um þjónustu, samræmda mælikvarða á gæði  menntunar og áherslur á velferð nemenda. Með því að gera árangur skóla sýnilegri verður hann metinn að verðleikum.

Stærstu útgjaldaliðir mennta- og menningarmálaráðuneytis eru framhaldsskólar og háskólar með um 19 ma.kr. hvor sem er svipuð fjárhæð og varið er til safna, listastofnana og námsaðstoðar. Ráðuneytið er eitt af þremur stóru útgjaldaráðuneytunum.Möguleikar til hagræðingar þar eru miklir en verkefnið er viðkvæmt þar sem menntun leggur grunn að þróun og viðgangi þjóðfélagsins til langs tíma, s.s. sköpun, samkeppnishæfni, velmegun og velferð. Það verður þó ekki undan því vikist að spara og hagræða í þessum rekstri.

Úttekt OECD á menntakerfinu - útgjöld ekki ávísun á árangur

Í skýrslu OECD um Ísland frá árinu 2006 er m.a. úttekt á íslenska menntakerfinu. Þar kemur  fram að útgjöld til menntamála á Íslandi eru hærri en í öðrum OECD ríkjum sem hlutfall af  landsframleiðslu og um 40% yfir meðaltali OECD á hvern nemanda. Ástæðan er mikil útgjöld  til grunnskóla hér á landi og að hlutfall grunnskólanema af heildarnemendafjölda er hæst hér á landi vegna þess hve þjóðin er ung.

Í skýrslu OECD kemur einnig fram að mikil útgjöld til menntamála hér á landi skila sér ekki sem skyldi í árangri í menntun. Árangur íslenskra grunnskólanema í PISA könnun (e. The Programme for International Student Assessment) er undir meðaltali OECD ríkja, brottfall nemenda í framhaldsskóla er allt of mikið og menntunarstig landsmanna 25-64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja.

Í skýrslu OECD um ástand efnahagsmála hér á landi 2009 kemur fram að skilvirkni menntakerfisins hér á landi sé með því minnsta sem gerist innan OECD og hægt sé að spara fimmtung útgjalda til menntamála þótt markið sé ekki sett hærra en að ná skilvirkni upp í meðaltal OECD-ríkja. Óvíða séu nemendur á hvern kennara færri en hér.

Það er því óhjákvæmilegt að fyrirhugaðri lækkun á framlagi ríkisins til framhaldsskóla og  háskóla verði mætt með breytingu og hagræðingu í skipulagi náms. Að öðrum kosti stefnir í  að gæði og árangur náms á Íslandi rýrni. Áherslu verður að leggja á þá menntun sem líklegust er til þess að styðja við atvinnulíf til langframa og skapa verðmæti. Þar er einkum um að ræða verk- og tæknigreinar á framhalds- og háskólastigi sem styðja við nýsköpun og útflutning vöru og þjónustu.

Markvissara skipulag framhaldsskóla

Miklar breytingar eru áformaðar á skipulagi framhaldsskóla. Ný lög um framhaldsskóla,  sem ekki er farið að vinna eftir nema að litlu leyti, færa meiri ábyrgð til skólanna sjálfra og  stjórnenda þeirra og gefa þeim meira svigrúm til athafna en áður var. Breytingunum er ætlað að bæta skólastarf og menntun og auka hagræði fyrir nemendur.Áhersla er lögð á bætta menntun landsmanna, m.a. með því að draga úr brottfalli nemenda í framhaldsskólum. Þó svo að kostnaður á nemanda í framhaldsskóla sé verulega lægri en kostnaður á nemanda í grunnskóla geta breytingar á skipulagi einnig lækkað rekstrarkostnað skólanna, án þess að rýra gildi menntunarinnar.

Framhaldsskólum hefur fjölgað á síðustu árum sem hefur leitt til fækkunar nemenda í nærliggjandi skólum og óhagkvæmni í rekstri. Í fyrsta bekk í framhaldsskóla er gjarnan kennt efni sem þegar hefur verið kennt í grunnskóla og kvarta nýnemar í framhaldsskóla gjarnan undan því. Með sveigjanleika og breyttu skipulagi er unnt að styrkja smærri einingar, stytta nám til stúdentsprófs og koma í veg fyrir endurtekningar. Einstakir skólar hafa þegar hafið undirbúning að því að bjóða upp á meiri sveigjanleika og möguleika á nýju skipulagi og kennsluháttum.

Lagt er til að nám til stúdentsprófs verði almennt skipulagt sem þriggja ára nám.  Þegar námið hefur verið flokkað eftir evrópskum staðli og tekið er tillit til þess hluta náms sem færa á til grunnskóla stendur eftir 200 eininga nám til stúdentsprófs. Þessum einingum er hægt að raða á þrjú ár með um 10% auknu námsálagi á nemanda. Þótt nemendum gæfist kostur á að taka námið á fjórum árum má gera ráð fyrir að meðalnámstími til stúdentsprófs styttist um a.m.k. hálft ár. Þessar breytingar, komnar að fullu til framkvæmda, gætu leitt til allt að 6% sparnaðar í rekstri framhaldsskóla sem næmi um 1 ma.kr. á ári.

Skólar verði sameinaðir

Auka þarf stærðarhagkvæmni framhaldsskóla með því að sameina skóla, a.m.k. yfirstjórn  skóla, og auka samstarf þeirra á sviði kennslu. Að öðrum kosti verður ekki unnt að nýta sveigjanleika námsskipulagsins sem skyldi. Fjölga má í bekkjum og námsáföngum einkum á efra stigi námsins og fækka kennslustundum með því að fækka þeim stundum sem kenndar eru í hverjum áfanga og sameina kennslu milli skóla með aðstoð fjarskiptatækni. Þannig viðurkenni skólar nám hver hjá öðrum. Þá er lagt til að fjarnám verði eflt til þess að draga úr kostnaði, kennslustundum fækkað á síðari hluta framhaldsnámsins og nemendum ætlað aukið sjálfsnám. Þannig gæti hluti námsins verið skipulagt á líkum grunni og núverandi fjarnám.

Iðn- og verknám er dýrasti þáttur framhaldsskólans en að sama skapi þýðingarmikill til að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins. Nemendur brautskrást þaðan til beinnar þátttöku í atvinnulífinu ólíkt öðru starfsnámi, t.d. kennaranámi og verkfræði sem tekur a.m.k. 4 ár í viðbót, þannig að kostnaðurinn dreifist á fleiri skólastig og felst einnig í skemmri starfsævi. Iðnnám er einnig mikilvægur undanfari tæknináms á háskólastigi. Þar er unnt að ná fram verulegum sparnaði með betra skipulagi og betri nýtingu húsnæðis og tíma kennara.

Eðlilegt  er að taka upp stöðumat við upphaf verknáms. Þar fá nemendur með starfsreynslu, þekkingu og færni sína metna við upphaf náms. Einnig má meta að nýju hvort kröfur um bóklegt nám eru of stífar. Framangreindar hugmyndir kalla á allmiklar breytingar á nýtingu skólahúsnæðis, tíma kennara og jafnvel kjarasamningum. Með slíkum breytingum gætu sparast hundruðir milljóna króna á ári. Ætla má að mögulegur sparaður á framhaldsskólastiginu gæti numið samtals um 1,5 ma.kr. árlega.

Þriðjungur lýkur ekki námi úr framhaldsskóla

Nauðsynlegt er að taka á brotthvarfi nemenda en um þriðjungur árganga lýkur ekki námi á  framhaldsskólastigi. Það er dýrt því mönnun í kennslu og húsnæðisþörf miðast við innritaða. Þörf fyrir færni og þekkingu til starfa vex stöðugt og framhaldsskólinn verður að mæta þeirri kröfu að búa ungmenni betur undir þátttöku á vinnumarkaði með fjölbreyttara námsframboði og styttri námsbrautum. Stytting námstíma í framhaldsskóla, aukinn stuðningur við sérþarfir og ráðgjöf eru leiðir sem gætu stuðlað að minna brottfalli nemenda.

Núverandi aðfararnám að háskólanámi ætti að færa til framhaldsskóla, enda er boðið upp á samsvarandi nám þar. Mat á stöðu nemandans fari fram við upphaf þess náms.

Hlutfall Evrópubúa sem hafa lokið prófi úr framhaldsskóla
- smelltu á myndina til að stækka.

Hlutfall Evrópubúa sem hafa lokið prófi úr framhaldsskóla

Nánar er fjallað um nauðsynlegar umbætur í menntamálum í nýju riti SA sem má nálgast hér að neðan.

Sjá nánar:

Tillögur SA: Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera

Samtök atvinnulífsins