Vinnumarkaður - 

17. október 2008

Um viðbótarlífeyrissparnað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um viðbótarlífeyrissparnað

Samtökum atvinnulífsins hafa borist fjöldi fyrirspurna varðandi greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar. Rétt er að taka fram að fólk hefur val um að greiða í séreignarsjóði en þeir sem það gera semja um það við vinnuveitenda sem greiðir mótframlag. Ljóst er að vegna fjármálakreppunnar mun ávöxtun séreignalífeyris sem þegar hefur verið greiddur rýrna en stórir lífeyrissjóðir hafa gefið það út að nýjar greiðslur muni ekki rýrna vegna þess tjóns sem þegar er orðið. Til að fá nánari upplýsingar er fólki bent á að hafa samband við lífeyrissjóðina eða bankana en fólk getur óskað eftir því að iðgjöld sem berast um næstu mánaðarmót til lífeyrissjóða í vörslu bankanna verði ávöxtuð með öruggari hætti en áður.

Samtökum atvinnulífsins hafa borist fjöldi fyrirspurna varðandi greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar. Rétt er að taka fram að fólk hefur val um að greiða í séreignarsjóði en þeir sem það gera semja um það við vinnuveitenda sem greiðir mótframlag. Ljóst er að vegna fjármálakreppunnar mun ávöxtun séreignalífeyris sem þegar hefur verið greiddur rýrna en stórir lífeyrissjóðir hafa gefið það út að nýjar greiðslur muni ekki rýrna vegna þess tjóns sem þegar er orðið. Til að fá nánari upplýsingar er fólki bent á að hafa samband við lífeyrissjóðina eða bankana en fólk getur óskað eftir því að iðgjöld sem berast um næstu mánaðarmót til lífeyrissjóða í vörslu bankanna verði ávöxtuð með öruggari hætti en áður.

Hér að neðan má finna hluta upplýsinga frá lífeyrissjóðunum vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi, upplýsingarit ASÍ ásamt tenglum á frekari upplýsingar lífeyrissjóða og banka sem munu birtast þar eftir því sem mál munu skýrast.

Í riti ASÍ segir m.a.: Samkvæmt upplýsingum lífeyrissjóðanna, er öllum innborgunum sem berast til lífeyrissjóða vegna viðbótarlífeyrissparnaðarins eftir að fjármálamarkaðir lokuðu í byrjun október ráðstafað með öruggum hætti og þannig að ávöxtun þeirra er tryggð m.a. þannig að þau njóti verndar skv. lögum nr. 98/1999 um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sbr. og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6.10 2008. Þessi nýju iðgjöld munu því ekki sæta lækkun af völdum yfirstandandi efnahagsþrenginga. Það launafólk sem gert hefur samninga um viðbótarlífeyrissparnað þarf því ekki að óttast um afdregin ný iðgjöld.

Á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir m.a.: Í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum verður útreikningur í séreignardeild leiðréttur með tilliti til áætlaðrar verðlækkunar á mörkuðum. Þær greiðslur sem sjóðnum berast framvegis munu því ekki rýrna vegna þeirrar lækkunar sem þegar er fram komin.

Á vef Gildis segir m.a.: Vegna hinna sérstöku aðstæðna á fjármálamörkuðum verður útreikningur í séreignadeild Gildis - lífeyrissjóðs leiðréttur til samræmis við áætlaðar verðlækkanir á mörkuðunum. Hins vegar munu þær greiðslur sem berast sjóðnum í framtíðinni ekki skerðast vegna þeirra lækkana.

Á vef Stapa segir m.a.:

Óvissan sem nú er á fjármálamörkuðum hefur gert það að verkum að nær ógjörningur er að verðmeta eignir. Með hliðsjón af þessu telur stjórn Stapa lífeyrissjóðs ekki rétt að gefa út gengi fyrir söfn séreignardeildarinnar. Séreignardeildin hefur boðið upp á tvö söfn þ.e. tvær mismunandi sparnaðarleiðir sem verið hafa með daglegu gengi. Söfnin eru að mestu leyti í ríkisverðbréfum og að nokkru mæli í erlendum eignum.

Verðmyndun á innlenda ríkisverðbréfamarkaðinum hefur verið mjög sveiflukennd og öfgafull að undanförnu í litlum viðskiptum og veruleg óvissa hefur ríkt um gengi íslensku krónunnar.  Því hefur verið ákveðið að fresta útreikningi á gengi safnanna þar til meiri vissa fæst um virði eigna, en eignir safnanna eru metnar á markaðsvirði hverju sinni. Sjóðurinn vill sérstaklega taka fram að þótt útreikningi á gengi sé frestað um sinn gefur það ekki neinar vísbendingar um virðisrýrnun safnanna eða vandamál, önnur en þá óvissu sem ríkir um verðmyndun eigna. Söfnin eru í eins öruggum eignum og gerlegt er á þessum tímum og á þessari stundu bendir ekkert til þess að þau hafi orðið fyrir tjóni.

Á vef Glitnis segir m.a.: Þeir sem vilja ráðstafa framtíðariðgjöldum sínum í áhættuminni söfn geta óskað eftir því að iðgjöld sem berast næstu mánaðarmót fari inn á verðtryggðan innlánsreikning eða í verðbréfasjóð sem fjárfestir eingöngu í ríkisbréfum. Sjóðfélagar geta haft samband við ráðgjafa Glitnis í lífeyrismálum með þessar beiðnir í síma 440-4900.

Á vef Landsbanka segir m.a. um Íslenska lífeyrissjóðinn: Það er viðbúið að boðið verði upp á mjög varfærna ávöxtunarleið sem byggir fyrst og fremst á ríkistryggðum bréfum og innlánum. Sjóðfélögum verða kynntir slíkir kostir innan skamms.

Spurt og svarað um lífeyrissparnað:

Á vef Glitnis

Á vef Landsbanka 

Á vef Kaupþings

Yfirlit yfir lífeyrissjóði

Samtök atvinnulífsins