Efnahagsmál - 

08. maí 2003

Um tjáningarfrelsi forsvarsmanna fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um tjáningarfrelsi forsvarsmanna fyrirtækja

Umræða, upplýsingagjöf og skoðanaskipti um þau málefni sem eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu á hverjum tíma eru snar þáttur í hverju lýðræðisþjóðfélagi. Það heyrir til grunn mannréttinda að hafa frelsi til að tjá skoðanir sínar. Almenningur gerir auk þess kröfu um auknar upplýsingar. Það á einnig við um mál sem varða hag og afkomu fyrirtækja og þá um leið starfsfólks þeirra. Verkalýðs-hreyfingin í Evrópu barðist fyrir setningu löggjafar um rétt starfsfólks eða fulltrúa þess til upplýsinga um líklega þróun í starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins þar sem þeir starfa og breytinga sem hafa áhrif á kjör þeirra og starf. Talsmenn ASÍ hafa talið reglur tilskipunarinnar um upplýsingamiðlun til launafólks og samráð við það, sem taka á upp í íslensk lög eða kjarasamninga innan tveggja ára, mikinn ávinning fyrir launafólk.

Umræða, upplýsingagjöf og skoðanaskipti um þau málefni sem eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu á hverjum tíma eru snar þáttur í hverju lýðræðisþjóðfélagi. Það heyrir til grunn mannréttinda að hafa frelsi til að tjá skoðanir sínar. Almenningur gerir auk þess kröfu um auknar upplýsingar. Það á einnig við um mál sem varða hag og afkomu fyrirtækja og þá um leið starfsfólks þeirra. Verkalýðs-hreyfingin í Evrópu barðist fyrir setningu löggjafar um rétt starfsfólks eða fulltrúa þess til upplýsinga um líklega þróun í starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins þar sem þeir starfa og breytinga sem hafa áhrif á kjör þeirra og starf. Talsmenn ASÍ hafa talið reglur tilskipunarinnar um upplýsingamiðlun til launafólks og samráð við það, sem taka á upp í íslensk lög eða kjarasamninga innan tveggja ára, mikinn ávinning fyrir launafólk. 

Afstaða ASÍ vekur furðu
Furðu vekur því að ASÍ skuli nú vilja hindra forsvarsmenn fyrirtækja í að upplýsa starfsfólk um mat sitt á framkomnum hugmyndum um verulegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og á afleiðingum þeirra fyrir afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Með slíkri umræðu telur ASÍ að verið sé að gera tilraun til þess að hafa með ólögmætum hætti áhrif á stjórnmálaskoðanir starfsfólks. Því til stuðnings er vísað til svokallaðs atvinnukúgunar-ákvæðis í 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem bannar atvinnurekanda að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi, hótun um slíka uppsögn, fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum um réttmætar greiðslur. Ákvæði þetta kom inn í lögin við setningu þeirra 1938 til að, eins og segir í greinargerð,  tryggja skoðanafrelsi starfsmanna. Reglan er þannig  í samræmi við þá lýðræðishefð íslensks þjóðfélags að starfsfólk eigi óskoraðan rétt til að móta stjórnmálaskoðanir sínar án þvingunar af hálfu vinnuveitanda. Slíkt ber að sjálfsögðu að virða. 

Stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi borgaranna
Það þýðir hins vegar ekki að forsvarsmönnum fyrirtækja sé meinað að fjalla um  pólítísk málefni sem hafa afgerandi þýðingu fyrir fyrirtæki þeirra á fundum eða í fréttabréfum sem dreift er til starfsfólks. Það er stjórnarskrárbundinn réttur forsvarsmanna fyrirtækja sem annarra borgara þjóðfélagsins að mega tjá hugsanir sínar. Þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og orðið hafa að einu helsta baráttumálinu í komandi kosningum eru stórmál sem kallar óhjákvæmilega á umræðu frá öllum hliðum. Það er eðli frjálsrar stjórnmálalegrar umræðu. Þeir sem best þekkja rekstrar- og samkeppnisumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja verða að geta komið óþvingaðir að þeirri umræðu og lýst skoðun sinni fyrir starfsfólki og öðrum fyrir kosningar. Í því felst engin þvingun gagnvart starfsfólki. Það er síðan þess að taka sína ákvörðun á grundvelli allra framkominna sjónarmiða og greiða atkvæði samkvæmt því í leynilegri kosningu. Þannig er lýðræðið best tryggt. 

Hrafnhildur Stefánsdóttir

Samtök atvinnulífsins