Um SA og Evrópumálin

Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi á dögunum lýsti forsætisráðherra undrun sinni á lítilli umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin. Í kjölfarið hefur athygli beinst að Samtökum atvinnulífsins og meintum skorti á umræðu um Evrópumálin á þeim vettvangi. SA vilja hins vegar ekki kannast við neinn skort á slíkri umræðu innan sinna raða.

Evrópumálin fyrirferðarmikil í starfsemi SA

Evrópumálin eru mikilvægt og fyrirferðarmikið viðfangsefni í starfi Samtaka atvinnulífsins. Er þá átt við samskiptin við ESB og stöðu og þróun EES-samningsins. Aðildin að innri markaðnum og svonefndu fjórfrelsi hefur verið íslensku atvinnulífi gríðarlega mikilvæg og stöðugt er til afgreiðslu ný löggjöf á vettvangi ESB sem varðar íslenskt atvinnulíf. Miklu skiptir fyrir íslenskt atvinnulíf hvernig staðið er að innleiðingu þessarar reglusetningar hér á landi og eru SA m.a. í samstarfi við stjórnarráðið á ýmsum vettvangi, í því skyni að stuðla að því að vel takist til í þeim efnum. SA eiga jafnframt í víðtæku samstarfi á vettvangi Evrópusamtaka atvinnulífsins, UNICE, en með aðild sinni þar eiga SA m.a. aðild að samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins um mótun Evrópulöggjafar og þannig má segja að SA komi í sumum tilfellum að mótun Evrópulöggjafar löngu áður en hún kemur til kasta hins formlega EES-samráðs.

SA reka skrifstofu í Brussel, í húsnæði UNICE, og þar starfar íslenskur lögræðingur auk þess sem nokkrir starfsmanna SA á Íslandi sinna þessu mikilvæga samstarfi og sækja þar fundi. Þá má geta þess að SA hafa gefið út skýrslu tveggja hagfræðinga um mögulega upptöku evrunnar á Íslandi og mikilvægi sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði í því sambandi, að samtökin eiga aðild að Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands þar sem Evrópumálin hafa m.a. verið til umfjöllunar í útgáfuverkum, og að samtökin komu nýlega að stofnun Evrópufræðaseturs við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Evrópumálin eru mikilvægt og fyrirferðarmikið viðfangsefni í starfsemi Samtaka atvinnulífsins.

Spurningin um aðild Íslands að ESB

Á vettvangi bæði Samtaka atvinnulífsins og forvera þeirra hefur ítrekað átt sér stað umræða um kosti og galla hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB. Skemmst er frá því að segja að ekki hefur verið samstaða innan SA um skýra stefnu í þeim efnum, og hefur sú staða ekki verið neitt launungamál. Á þetta við um jafnt málefnahóp samtakanna um Evrópu- og alþjóðamál sem og um stjórn og aðrar stofnanir samtakanna. SA hafa þess vegna hvorki hvatt til þess að íslensk stjórnvöld sæki um aðild að ESB, né hafnað þeim kosti. Aðildarfélög SA eru átta talsins. Sum þeirra hafa ekki farið í gegnum þessa umræðu, önnur hafa gert það en ekki komist að niðurstöðu, og enn önnur hafa verið með skýra stefnu bæði með og á móti aðild Íslands að ESB. Segja má að þessi mismunandi staða innan aðildarfélaga endurspegli stöðuna innan SA.

Ekkert sem knýr á um umræðu nú

Miklar sveiflur í gengi krónunnar og viðvarandi hágengi í seinni tíð hafa leitt til þess að innan atvinnulífsins horfa margir til evrunnar sem framtíðarlausnar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, meðan aðrir hafa efasemdir þar um. Einnig er ljóst að sjávarútvegsstefna ESB er mörgum þyrnir í augum, á meðan aðrir vilja láta á það reyna hvort unnt sé að tryggja íslenska hagsmuni innan hennar. Mismunandi sjónarmið eru einnig uppi hvað varðar erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. Fullyrða má að þessi mál vegi þyngst þegar umræður innan atvinnulífsins um hugsanlega aðild Íslands að ESB eru annars vegar. Umræðan hefur ítrekað verið tekin en sem fyrr segir þá eru einfaldlega mjög skiptar skoðanir innan raða samtakanna um þessi mál. Ekki er að finna neitt sérstakt tilefni til þess að SA fari enn í gegnum þessa umræðu um þessar mundir. Dæmi um slík tilefni væru breytt afstaða Breta, Dana og/eða Svía til evrunnar, eða enn ein aðildarumsókn Noregs til ESB. Ekki er að sjá að neitt slíkt sé í kortunum næstu árin.