Um launakönnun VR 2001
Í árlegri launakönnun VR er margt fróðlegra upplýsinga. Niðurstöður launakannana Kjararannsóknarnefndar eru þó vísindalega áreiðanlegri, en ná því miður ekki til allra sömu þátta og könnun VR. Því má segja að könnun VR svari ákveðinni eftirspurn. Sem fyrr má þó gera ýmsar aðferðarfræðilegar athugasemdir við könnun VR, sem sumra er reyndar getið í fyrirvörum skýrslunnar.
Við túlkun heildarniðurstaðna könnunarinnar má m.a. spyrja hvort
verið sé að bera saman sambærilega hópa milli ára. Við túlkun
mælinga á launum einstakra hópa má spyrja hversu áreiðanleg
framsetning niðurstaðnanna sé. Loks er hægt að nálgast áreiðanlegri
tölur úr launakönnunum Kjararannsóknarnefndar, á heimasíðu nefndarinnar. Því miður eru
þær þó ekki ávallt fyllilega sambærilegar, líkt og áður er
getið.
Atriði sem hafa má í huga varðandi framsetningu:
- Áhersla er lögð á meðaltöl, en meðaltöl eru nær
alltaf hærri en miðtölur. Þeir sem fá hæst laun í hverjum hópi
virðast nær alltaf hafa meiri áhrif á meðaltalið en þeir sem lægst
fá launin. Miðtalan er einnig birt en hún sýnir launamælingu þess
einstaklings sem lendir í miðjum hópnum og er því um margt
áreiðanlegri heimild um það "venjulega" samkvæmt niðurstöðum
könnunarinnar.
- Birtar eru tölur byggðar á allt niður í fjórum
svarendum, þótt tekið sé fram að fremur sé um "vísbendingar" en
viðmiðanir að ræða þegar svarendur að baki tiltekinnar tölu eru
færri en 10. Rétt er því að skoða í töflunni hversu margir
einstaklingar eru að baki umræddri tölu.
Um heildarniðurstöður: hverja er verið að bera
saman?
- Hlutfall stjórnenda og sérfræðinga hækkar milli ára,
úr 31,2% í 35,9%. Þetta er launahæsti hópurinn og þetta hefur því
áhrif til hækkunar á heildarniðurstöðutölum hvað varðar meðallaun
innan VR og samanburð milli ára.
- Hlutfall lægst launaða hópsins lækkar, þ.e. fólks í
gæslu- lager og framleiðslustörfum, úr 8,6% í 6,6%. Þetta hefur
áhrif til hækkunar á heildarniðurstöðu hvað varðar meðallaun innan
VR og samanburð milli ára.
- Hlutfall yngsta hópsins, 16-20 ára, er lang lægst,
eða 3,8%. Það hefur þó hækkað frá fyrra ári þegar það var 1,9%.
Lágt hlutfall þessa hóps meðal svarenda hefur áhrif til hækkunar á
heildarniðurstöður um laun innan VR.
- Ekki eru notuð svör þeirra sem eru undir 70%
starfshlutfalli. Þannig eru 10,7% svarenda ekki með í
niðurstöðunum, en þeim er sleppt þar sem niðurstöður sýna að
grunnlaun þeirra séu að jafnaði hlutfallslega lægri (þeir sem eru í
70-99% starfshlutfalli eru hins vegar uppreiknaðir). Þetta hefur
áhrif til hækkunar á heildarniðurstöður um laun innan VR.
Samanburður við niðurstöður launakönnunar
KRN:
Velta má vöngum yfir því hvort sambærilegur hópur svari launakönnun
VR milli ára, en líkt og fram kemur hér að framan breytast hlutföll
hópa milli kannana. Niðurstöður Kjararannsóknarnefndar um
launabreytingar grundvallast hins vegar á því sem nefnt er parað
úrtak. Mældar eru breytingar fyrir á sjötta þúsund einstaklinga,
þ.e. skoðuð launaþróun sömu einstaklinganna milli mælinga. Þá má
geta þess að tölur KRN byggja á bókhaldsgögnum fyrirtækja.
Niðurstöður KRN eru því vísindalega áreiðanlegri, en ná því miður
ekki til allra sömu þátta og könnun VR. Sjá niðurstöður
launakannana KRN á heimasíðu
KRN.