Vinnumarkaður - 

25. Júní 2001

Um heimsmetið í verkföllum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um heimsmetið í verkföllum

Nokkur umræða hefur farið fram um verkfallshneigð á íslenskum vinnumarkaði eftir að forsætisráðherra vakti athygli á þeirri staðreynd að í þeim efnum fara Íslendingar fremstir í flokki meðal þjóða. Það liggur fyrir að ástæður mikils fjölda tapaðra vinnudaga vegna verkfalla á níunda og tíunda áratugnum voru löng og víðtæk verkföll opinberra starfsmanna annars vegar og sjómanna hins vegar. Verkföll á almennum vinnumarkaðinum hafa annars verið fátíðari og takmarkaðri. Á síðasta ári voru verkföll á almennum vinnumarkaði hjá hópbifreiðastjórum og í fiskimjölsverksmiðjum og á árinu 1997 stendur hið langa verkfall á Vestfjörðum upp úr ásamt tímabundnum verkföllum Dagsbrúnar gagnvart einstökum fyrirtækjum. Þá eru verkföll á síðasta áratug á almennum vinnumarkaði sem næst upptalin. Sé litið lengra aftur í tímann, eða til áttunda áratugarins, sést að þá voru verkföll á almennum vinnumarkaði mun algengari og víðtækari.

Nokkur umræða hefur farið fram um verkfallshneigð á íslenskum vinnumarkaði eftir að forsætisráðherra vakti athygli á þeirri staðreynd að í þeim efnum fara Íslendingar fremstir í flokki meðal þjóða.  Það liggur fyrir að ástæður mikils fjölda tapaðra vinnudaga vegna  verkfalla á níunda og tíunda áratugnum voru löng og víðtæk verkföll opinberra starfsmanna annars vegar og sjómanna hins vegar.  Verkföll á almennum vinnumarkaðinum hafa annars verið fátíðari og takmarkaðri.  Á síðasta ári voru verkföll á almennum vinnumarkaði hjá hópbifreiðastjórum og í fiskimjölsverksmiðjum og á árinu 1997 stendur hið langa verkfall á Vestfjörðum upp úr ásamt tímabundnum verkföllum Dagsbrúnar gagnvart einstökum fyrirtækjum.  Þá eru verkföll á síðasta áratug á almennum vinnumarkaði sem næst upptalin.  Sé litið lengra aftur í tímann, eða til áttunda áratugarins, sést að þá voru verkföll á almennum vinnumarkaði mun algengari og víðtækari.

(smelltu á myndina til að stækka hana)

Íslendingar hafa um langt árabil trónað á toppinum í alþjóðlegum samanburði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) um tapaða vinnudaga vegna verkfalla.  Raunar mun Grikkland njóta þess vafasama heiðurs að hafa veitt Íslendingum harða keppni í þessum efnum, sem mun stafa af víðtæku allsherjarverkfalli sem átti sér stað árið 1990 í því landi. Ekki hefur hins vegar tíðkast að telja Grikkland með í alþjóðlegum samanburði sem nær til umrædds árs, væntanlega vegna þessara sérstöku aðstæðna, enda hafa atburðir þessa eina árs þarlendis þau áhrif að sýna um 1000 tapaða vinnudaga á hverja þúsund starfandi, að meðaltali allt tímabilið 1990-1999. Á tímabilinu 1995-1999 er þetta meðaltal í Grikklandi þannig um 120 dagar, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Á síðasta áratug tapaðist tæplega þriðjungur úr degi á hvern starfandi mann á Íslandi vegna verkfalla.  Sé einungis litið á almenna vinnumarkaðinn þá kemur allt önnur mynd í ljós.  Á almenna vinnumarkaðinum töpuðust einungis 25 dagar á hverja þúsund starfandi sem er vel undir meðaltali bæði OECD-ríkja og ESB, þar sem 50-75 dagar töpuðust á hverja þúsund starfandi menn.

Þegar litið er til síðustu fimm ára, þ.e. árabilsins 1995-1999, kemur í ljós að Íslendingar skera sig úr í fjölda tapaðra vinnudaga vegna verkfalla.  Tæplega hálfur dagur tapaðist á hvern starfandi mann.  Þessa sérstöðu er fyrst og fremst að rekja til verkfalla opinberra starfsmanna og sjómanna, eins og áður segir, því tapaðir vinnudagar á almennum vinnumarkaði eru að tiltölu álíka margir og meðaltal OECD-ríkja og ESB eða á bilinu 40-50 á hverja þúsund starfandi.  Það vekur athygli að töpuðum vinnudögum vegna verkfalla á síðari hluta síðasta áratugar fækkaði verulega hjá nánast öllum þjóðunum sem samanburðurinn nær til, enda lækkaði OECD-meðaltalið úr 54 dögum fyrir allan áratuginn í 37 daga á síðari hluta hans.

(smelltu á myndina til að stækka hana)

Ljóst er að mikill fjöldi tapaðra vinnudaga á Íslandi undanfarin ár og áratugi skaðar ímynd Íslands.  Línurit með alþjóðlegum samanburði á tjónum vegna verkfalla birtast öðru hverju í alþjóðlegum tímaritum og erlendum fjárfestum eru þessar staðreyndir kunnar.  Ímynd Íslands í hugum erlendra fjárfesta sem land stöðugra vinnuerja hlýtur að valda þeim erfiðleikum sem stunda kynningu á Íslandi sem álitlegum fjárfestingarkosti og stuðla að því að hugsanlegir fjárfestar fælist frá landinu.

Skýringar á því hvers vegna verkfallshneigð er svo miklu meiri meðal stéttarfélaga opinberra starfsmanna og sjómanna en meðal stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði hljóta að liggja í þeirri umgjörð sem þessum hópum er búin.  Opinberir starfsmenn þurfa ekki að óttast að vinnuveitandi verði gjaldþrota vegna þess tjóns sem verkföll valda, enda bitna þau yfirleitt á þriðja aðila.   Þá þurfa þeir ekki að óttast að störf þeirra verði ekki til að loknu verkfalli, t.d. vegna flutnings til annars landssvæðis eða jafnvel annarra landa, eins og verkföll á almennum vinnumarkaði geta leitt til.  Loks er að nefna að opinberir aðilar hafa ekki verkbannsheimild, eins og vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði hafa, og því er ójafnræði milli aðila í þessu tilliti.

Aðstæðum sjómanna svipar að nokkru til verkfalla opinberra starfsmanna þar sem þau eru yfirleitt allsherjarverkföll og því ekki sú staða uppi að einstakar útgerðir verði fyrir tjóni en aðrar ekki.  Þá liggur að baki löngum verkföllum fiskimanna sú trú að tjónið sem þau valdi sé tímabundið og fiskast muni upp í úthlutaðar aflaheimildir, sem alls ekki er raunin eins og reynslan sýnir.

Samtök atvinnulífsins